Ástand lands og landlæsi – Fyrri hluti: Staðan
TRÉ VIKUNNAR - 137
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Á heimasíðu Ólafs Arnalds má fræðast meira um verkefnið. Það fól í sér flokkun og þróun mælikvarða á virkni rofs og úr varð viðamikill gagnabanki og þekking á jarðvegsrofi á Íslandi.

Skýrsla þessi á enn fullt erindi við allan almenning og þá sem nýta landið á einn eða annan hátt. Síðan þetta grundvallarrit var gefið út hefur legið fyrir að ástand lands á Íslandi er víða slæmt. Jafnvel mjög slæmt. Á þeim tæpu þrjátíu árum, sem liðin eru frá útgáfu skýrslunnar, hefur mikið vatn runnið til sjávar og sem betur fer hefur landi sums staðar farið fram. Enn eru þó til mjög illa farin svæði á landinu. Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar sem eiga það flestar sameiginlegt að staðfesta niðurstöður skýrslunnar og renna styrkari stoðum undir þær ályktanir sem þar er að finna. Í þessari grein er vísað í sumt af þessu efni og sjá má frekari upptalningu í heimildaskrá. Má nefna sem dæmi verkefnið Nytjaland sem miðar að því að gera gagnagrunn með upplýsingum um bújarðir landsins, meðal annars með tilliti til landkosta. Undirbúningur verksins hófst veturinn 1999-2000. Nýjasti þátturinn í þessum fræðum er verkefnið GróLind. Þar er reynt að flokka þau beitilönd sem sauðfjárbændur nota til sinnar framleiðslu. Hér má sjá kortavefsjá verkefnisins og hér er glærukynning frá því að verkefninu var hleypt af stokkunum. Samkvæmt GróLind er landinu skipt í fimm flokka eftir ástandi. Eins og við er að búast eru niðurstöðurnar í góðu samræmi við niðurstöður skýrslunnar frá 1997.

- Kort af vefsíðu GróLindar. Í verkefninu er landinu gefin einkunn frá 5-30. Eftir þeirri einkunn er landinu skipt í fimm ástandsflokka. Í flokki 1 (37% lands) er ástandið verst. Þar er þurrt land og mikið landrof. Í flokki 2 (8% lands) er lítið af gróðri og mikið rof. Það er ekki fyrr en komið er í flokk 4 að lítið er um rof og gróður þó nokkur. Aðeins 7% lands lenda í 5. flokki sem er besti flokkurinn. Kortið sýnir vel að ástand íslenskra beitilanda er dapurlegt. Samkvæmt mati GróLindar eru tæp 30% beitar í verst farna landinu og tæp 40% í tveimur verst förnu flokkunum. Þar er átt við þau svæði sem gefin eru upp sem beitiland af sauðfjárbændunum sjálfum. Dæmin sýna þó að innan verst förnu svæðanna má iðulega sjá fé á beit þar sem það á ekki að vera, enda er ekki almenn vörsluskylda búfjár á Íslandi.
Í svona yfirlitsgrein getum við ekki varið miklu plássi í hvern þátt, en hugsanlega skrifum við meira um eitthvað af þessu ef áhugi er fyrir hendi. Þar sem viðfangsefnið er umfangsmikið skiptum við umfjölluninni að þessu sinni í tvo hluta. Seinni hlutinn verður birtur eftir viku.

Áhrif landnáms
Þegar landnemar komu til Íslands fyrir rúmlega ellefu hundruð árum hafði jarðvegur og gróðurfar hér á landi þróast án afskipta manna og búsmala hans í meira en 9000 ár. Einu dýrin sem lifðu á jurtum á Íslandi fyrir landnám voru fuglar og ýmis smádýr. Það er mjög óvenjulegt fyrir svona stórt landsvæði. Hér voru engin spendýr úr hópi grasæta og þróun gróðurs og líffélaga tók mið að því. Vitað er að jarðvegur er lengi að byggjast upp þannig að til verði frjósamt land en án efa var frjósemin mikil þegar landnám hófst. Landið var viði vaxið milli fjalls og fjöru.

Áður en landið var numið mótaðist gróðurfar af þeim aðstæðum sem hér voru. Stundum kom kuldatíð, ár gátu hlaupið, jöklar skriðu fram og hopuðu á víxl, hraun runnu og aska féll. Allt þetta hefur mótað vistkerfi landsins og ekkert af þessu hófst við landnám. Samt byggðist smám saman upp frjósamur jarðvegur með gróskumiklum gróðri á meðan landið var óbyggt.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn
Á Miðhúsum
Losnaði aldrei við höfuðverkinn
Vorboðinn ljúfi
Tár