Fara í efni
Pistlar

Reikningur vegna látins manns

ORRABLÓT - 45

Á rúmum þrjátíu árum í blaðamennsku hafa margir Akureyringar orðið á vegi mínum. Ekki síst listamenn enda bærinn vel haldinn af slíkum höfðingjum, þó sumir hafi auðvitað hleypt heimdraganum. Eins og gengur.

Kristján Jóhannsson óperusöngvari kemur strax upp í hugann; einn af okkar allra hressustu og skemmtilegustu mönnum og dásamlegur viðmælandi sem iðulega talar í fyrirsögnum.

Fyrstu árin á Mogganum var ég mikið í fréttaflutningi af menningu og fögrum listum og reglulega þurfti að taka stöðuna á Kristjáni enda var hann þarna á hátindi söngferils síns í útlöndum.

Einu sinni sló ég á þráðinn til kappans út á Ítalíu og húshjálpin kom í símann. Ég þurfti ekkert að spyrja hvort tenórinn væri heima vegna þess að ég heyrði í honum, þar sem hann stóð upp á endann úti í garði og sagði sögur. Hló svo sínum dillandi og bráðsmitandi hlátri inn á milli.

Í annað skipti kom ég með Kristjáni á æfingu með kvennakór sem átti að syngja með honum á tónleikum í Reykjavík. Konurnar voru búnar að stilla sér upp þegar okkar maður gekk í salinn og biðu spenntar. Hann rak upp stór augu og mælti, sjarmörinn sem hann er: „Fögur er hlíðin!“

Kvennakórinn bráðnaði fyrir augum okkar. Eins og smjer.

Einu sinni stóðu til stórtónleikar með hljómsveit, kórum og tilheyrandi í Laugardalshöll og Kristján var kominn heim og átti að vera aðalnúmerið. Ég fór að finna hann í Höllinni og við komum okkur makindalega fyrir frammi á gangi. Hvorki gekk þó né rak með viðtalið vegna þess að Kristján þurfti ekki bara að kasta kveðju á alla sem áttu leið hjá, heldur standa upp og faðma þá mjög innilega að sér.

Ég sá Kristján síðast fyrir um áratug, á ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins í Hádegismóum í Reykjavík, þar sem hann var gestkomandi. Ég rann á hljóðið og heilsaði upp á tenórinn. Þar sem við stóðum þarna nokkrir saman við stiga sem liggur niður að inngangi starfsmanna birtist ekki sjálfur ritstjóri blaðsins, Davíð Oddsson. Kristján var ekki lengi að koma auga á hann og færðist allur í aukana. „Elsku drengurinn,“ gall í honum, þegar ritstjórinn var kominn upp á pallinn. Því næst faðmaði Kristján Davíð ekki bara að sér, heldur hóf hann á loft og hélt honum hátt yfir höfði sér í drykklanga stund. Ég man satt best að segja ekki í annan tíma eftir því að hafa séð manni heilsað svona hraustlega.

Þið þekkið þessa menn og sjáið þetta ábyggilega fyrir ykkur.

Einhverjum hefði mögulega brugðið við þessa meðhöndlun en Davíð sýndi engin svipbrigði, það hvorki datt né draup af honum enda er hann ábyggilega vanur að vera heilsað með þessum hætti þá fundum þeirra félaga ber saman. Síðan rölti ritstjórinn bara sína leið inn ganginn eins og ekkert hefði í skorist.

Kristján hélt áfram með sögurnar.

Annar eftirminnilegur og bráðskemmtilegur maður sem líka var með munninn fyrir neðan nefið var Óli G. Jóhannsson heitinn, listmálari með meiru. Við vorum reglulega í samskiptum síðustu árin sem hann lifði. Símtölin frá Óla byrjuðu öll eins: „Sæll, ljúfur. Óli G.“

Óli hafði þá náð nokkrum frama í list sinni eftir að hann komst á mála hjá galleríi í Lundúnum, Opera, og seldust verk hans vel ytra. Það kætti Óla enda átti hann aldrei upp á pallborðið hjá elítunni fyrir sunnan, eins og hann var duglegur að tala um.

Verk Óla fóru eins og eldur í sinu um heiminn, New York, Singapúr, Seúl, og þegar ég spurði hann út í þetta í viðtali í desember 2007 svaraði Óli:

„Blessaður vertu, hraðinn er svo mikill að það er með ólíkindum. Auðvitað batt ég vonir við þetta en ég væri að skrökva ef ég segði að mig hefði órað fyrir þessum ósköpum. Þetta hefur gengið vonum framar og þegar maður sér myndirnar sínar hanga við hliðina á Míró og Chagall veltir maður því fyrir sér hvern andskotann maður sé kominn út í. Þú afsakar orðbragðið.“

Ýmsir keyptu verk eftir Óla, þeirra á meðal knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Emmanuel Petit, sem gert hafði garðinn frægan með Arsenal og franska landsliðinu.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Óli alltaf ánægjulegt þegar mikilvægir safnarar sýndu verkum hans áhuga, ekki síst þegar þeir væru jafn þekktir og Petit.

„Það spillir heldur ekki fyrir að hann lék með Arsenal en ég hef lengi haft taugar til þess liðs.“

Jean-David Malat, galleristi, sagði að Petit væri mikill áhugamaður um myndlist og hefði safnað verkum kerfisbundið í um áratug. „Okkur Petit er vel til vina og hann hefur keypt mikið af okkur. Ég hef verið að ráðleggja honum að kaupa verk eftir listamenn sem eru nýir á sjónarsviðinu, m.a. Óla, enda sé það góð fjárfesting. Hann þurfti raunar lítillar sannfæringar við þar sem hann er þegar orðinn mikill aðdáandi Óla.“

Síðasta símtalið milli okkar Óla átti sér stað mánudaginn 17. janúar 2011 en þá hringdi Óli til að þakka mér fyrir viðtal sem ég átti við Örn son hans í Morgunblaðið en hann starfaði þá sem grafískur hönnuður í Kaupmannahöfn. Vel lá á Óla sem var „á kafi í hestum“, hinni ástríðunni sinni. Við kvöddumst með virktum og sammæltumst um að verða í sambandi vegna sýningar á verkum Óla í Listasafni Reykjanesbæjar sem þá var nýhafin. Ekki varð af því. Síðar þennan sama dag veiktist Óli nefnilega hastarlega og var fluttur suður á Landspítalann, þar sem hann lést þremur dögum síðar. Enginn veit sína ævina …

Talandi um listmálara þá náði ég einnig að kynnast bræðrunum Örlygi og Steingrími St. Th. Sigurðssonum lítillega en þeir voru synir Sigurðar Guðmundssonar, fyrsta skólameistara MA.

Örlygur var að mestu horfinn út úr þessum heimi þegar ég sótti hann heim vegna sýningar á verkum hans og ég man að ég lagði pennan fljótlega frá mér, lítið yrði eftir listamanninum haft. Við spjölluðum þó um alla heima og geima og hann leysti mig út með mörgum listaverkabókum.

Steingrím hitti ég oftar og það kjaftaði sannarlega á honum hver tuska. Sumarið 1999 fór ég að finna hann á veitingastaðnum Fantasíu við Laugaveg, þar sem hann var að undirbúa sína hundruðustu málverkasýningu. Þegar ég spurði hvort það væri ekki bara á færi brjálaðra manna að halda svo margar sýningar svaraði Steingrímur:

„Ég hef oft verið talinn brjálaður, af mönnum sem ekkert kunna fyrir sér í læknisfræði. Sannleikurinn er hins vegar sá að mér hefur aldrei legið meira á hjarta en einmitt nú. Ég er kominn yfir gaddavírinn – óskaddaður. Maður hefur ekkert að óttast í lífinu, nema mann sjálfan.“

Steingrími þótti list snúast orðið of mikið um vinsældir. „Ég hef aldrei reynt að vera vinsæll, reyni bara að segja sannleikann. Að rægja fólk er sama og stela frá því. Þá leiðist mér mennta- og listasnobb óskaplega. Ég hef alla tíð byggt á menntun lífsins. Það er heldur ekkert fínna að vera listamaður en til dæmis vörubílstjóri eða sjómaður. Sjálfur er ég nýkominn úr róðri á Vestfjörðum.“

Steingrímur varð bráðkvaddur á Bolungarvík vorið eftir og kom að vonum um það frétt í Morgunblaðinu og minningargreinar í framhaldinu.

Sagði svo ekki meira af honum í bili eða þangað til Björn Vignir Sigurpálsson ritstjórnarfulltrúi stóð skyndilega við borðið hjá mér á ritstjórn Morgunblaðsins. Einhverjum vikum, jafnvel mánuðum síðar. Ég var þá að leysa Siglfirðinginn Freystein Jóhannsson, fréttastjóra menningar, af. „Heyrðu,“ sagði Björn Vignir eilítið vandræðalegur. „Skrifaðir þú nokkuð upp á flug fyrir Steingrím St. Th. vestur á firði? Það var að koma reikningur.“

Nei, aldeilis ekki, svaraði ég hlessa. Hann vann ekkert hér.

„Já, einmitt,” sagði Björn Vignir og hélt sína leið.

Þá fór Steingrímur sumsé í sitt hinsta flug í þessu lífi á kostnað Morgunblaðsins. Hvernig honum tókst að sannfæra starfsmenn Flugleiða á Reykjavíkurflugvelli um að hleypa sér um borð án beiðni skal ósagt látið. En Steingrímur var maður uppátækjasamur og úrræðagóður. Svo mikið er víst.

Ég veit ekki annað en að reikningurinn hafi verið greiddur.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Þessi þjóð er farin í hundana

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. júlí 2025 | kl. 06:00

Sýprus

Sigurður Arnarson skrifar
23. júlí 2025 | kl. 09:00

Brilljantín

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. júlí 2025 | kl. 11:30

Garðsvík; gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
20. júlí 2025 | kl. 13:00

Uppgrip í Vaglaskógi

Jóhann Árelíuz skrifar
20. júlí 2025 | kl. 11:30

Krísuvík

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
18. júlí 2025 | kl. 06:00