Fara í efni
Pistlar

Ég sagðist vera hætt að berjast ...

Ávarp flutt á Ráðhústorgi, á samstöðu- og baráttufundi í dag, kvennafrídaginn, 24. október 2025.


Ég sagði upphátt við matarborðið núna í ágúst að ég væri hætt að berjast.
Að ég væri búin að gefast upp
því ég sá ekki tilgang með því lengur.
Ég tók virkan þátt í #MeToo og Höfum Hátt.
Ég hélt - og vonaði - að það myndi breyta einhverju.
Það varð ólga í samfélaginu.
Við gerðum heiðarlega tilraun til að skila skömminni.
Við byrjuðum að segja hluti upphátt.
En því miður hefur það haft sínar afleiðingar.

Slaufunarmenning.
Hugtak sem oftar en ekki er notað til að styðja ofbeldisfólk.
Samkvæmt almenningsáliti eru þeim slaufað,
og þau eiga engan séns á að snúa aftur inn í samfélagið.
En svo er það hin hliðin.
Hvað með þolendur?
Mín reynsla er sú,
að þeim sem í raun og veru er slaufað, eru þau sem segja frá.

Ég er þolandi.
Ég hefði viljað að fólk hefði talað við mig.
Stutt mig opinskátt.
Þær raddir heyrðust ekki.
Ég var kölluð lygari.
Dramatísk.
Ég var ein.
Ég gat ekki unnið.
Ég fékk taugaáfall.
Það er grimmur veruleiki sem margir þolendur búa við.

Við erum að sjá gríðarlegt bakslag í opinberri umræðu.
Þar á meðal ungt fólk á netinu
Sem talar niður til baráttunnar sem við stöndum í.
Sumir neita að viðurkenna tilvist ójafnréttis,
Segja að það sé ekkert sem við eigum eftir að berjast fyrir.
Segja þetta væl og öfga.
Gera lítið úr réttindabaráttu og fjölbreytileika.

Ég hef einnig tekið eftir því að sumar ungar konur í dag
kjósa að vera heimavinnandi.
Pósta á samfélagsmiðla og kalla sig Trad Wife.

Við erum að setja upp sýningu í Samkomuhúsinu
Elskan, er ég heima?
Sem kemur einmitt inn á þetta umræðuefni.
Þar ákveður ung kona að lifa eins og árið sé 1950.

Þar varpar höfundur fram spurningu: Var þessi tími betri?
Árið 1950 var mikil launaskekkja.
Á þeim tíma væri ég ekki hér að tala um ofbeldi.
Ég væri ein heima að keðjureykja við eldavélina.
Með börnin grenjandi í pilsfaldinum á meðan ég hræri skömminni í kássuna.

Og eins og móðir aðalkaraktersins í Elskan, er ég heima? segir:

„Þetta er ekki það sem ég barðist fyrir.
Þetta er ekki það sem við börðumst fyrir.
Öll baráttan ! Kröfugöngurnar og kvennapólitíkin. Það var til þess að við gætum verið hugrakkar og sterkar og frjálsar.”

Ég veit að fyrir mig og fyrir dóttur mína þá vil ég að við séum með réttinn til að velja.
Vera með jöfn réttindi og vald yfir lífi okkar.

Ég er þreytt á því að berjast því að ég er alltaf að berjast.
Það er þreytandi og stundum gefst ég upp.
En ég held samt áfram,
ég held áfram fyrir sjálfa mig - fyrir dóttur mína - mömmu - systur og þær kynslóðir sem koma á eftir mér.

Ég vil jafnrétti, ég vil frið og ég óska þess heitast a við séum góð hvert við annað.
Sama af hvaða kyni eða kynþætti við erum.

Urður Bergsdóttir er leikkona

Er langt eftir?

Þórgunnur Oddsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00

„Við eigum framtíðina – og hún á að vera jöfn“

Arna Jakobína Björnsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 14:30

„Þú ert svo heppin“

Katla Ósk Káradóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 12:00

Líffjölbreytileiki í skógum

Sigurður Arnarson skrifar
22. október 2025 | kl. 20:00

Illkynja geðsjúkdómar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. október 2025 | kl. 13:30

Þjálfun sem nærir – um styrk og sjálfsrækt

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
21. október 2025 | kl. 12:30