Fara í efni
Pistlar

„Við eigum framtíðina – og hún á að vera jöfn“

Ávarp flutt á Ráðhústorgi, á samstöðu- og baráttufundi í dag, kvennafrídaginn, 24. október 2025.


Kæru vinkonur, gott fólk — til hamingju með daginn!

Í dag sameinumst við í rödd sem hefur ómað í hálfa öld – rödd jafnréttis. Um 60 samtök hafa fléttað saman baráttu sína líkt og fyrir 50 árum. Ég stend hér í dag til að berjast fyrir jafnrétti líkt og ég gerði fyrir 50 árum þegar ég mætti á baráttufund í Sjallanum – eru fleiri hér sem það gerðu? 

 

Þrátt fyrir að hálfrar aldar baráttu er jafnrétti en ekki náð. Konur verða í meira mæli fyrir ofbeldi sem er að aukast, þær eru með lægri ævitekjur og launamunur kynjanna hefur aukist síðastliðin tvö ár og er nú 22%.

Við sjáum tölur – en á bak við þær eru sögur.

Sögur af konum sem bera mikla ábyrgð, eru með lægri laun, eru einar með börnin sín, hafa orðið fyrir ofbeldi og bera megin ábyrgð á fjölskyldunni. Konur og kvár sem ekki ná endum saman.

Sögur af kvárum sem þurfa að sanna tilverurétt sinn, dag eftir dag.

Þetta eru ekki bara staðreyndir – þetta er líf fólks.

Vegna þessa krefjumst við aðgerða til að uppræta launamun kynjanna, aðgerða til að bæta stöðu mæðra og aðgerða til að útrýma kynbundnu ofbeldi.

 

Ég sé veröld þar sem launamunur kynjanna er orðinn að sögulegu hugtaki.

Þar sem starfsfólk, óháð kyni, fær sömu virðingu, sömu möguleika, og sama tækifæri til að vaxa.
Þar sem ungt fólk þarf ekki að spyrja: „Af hverju er þetta svona?“
Því það er ekki svona lengur.

 

En ég trúi á veröld þar sem jafnræði er ekki aðeins orð, heldur veruleiki.

Veröld þar sem virðing, samstaða og valdefling allra kynja mynda grunn að heilbrigðu samfélagi.
Veröld þar sem enginn þarf að óttast að tala, enginn þarf að fela sig bak við grímu, og enginn þarf að berjast einn.

 

Í framtíðinni sé ég börn alast upp við ný gildi.

Gildi sem kenna þeim að styrkur kemur í mörgum myndum,
að umhyggja er jafn mikilvæg og árangur,
og að samvinna skapar meiri kraft en samkeppni.

 

Ég sé samfélag sem stendur saman þegar þögnin reynir að breiða yfir ofbeldi.
Þar sem við hlustum, trúum og bregðumst við.
Þar sem karlmennska merkir hugrekki – ekki vald.
Þar sem kvenleiki merkir styrk – ekki veikleika.
Þar sem kynsegin einstaklingar geta lifað í sátt við samfélagið.

 

Þetta er veröld sem byggir á jafnvægi – ekki yfirráðum.
Þar sem börn læra að jafnrétti snýst ekki bara um kyn,
heldur líka um virðingu, kærleika og réttlæti.
Þar sem við deilum ábyrgð, deilum tækifærum og deilum gleði.

 

Þetta er veröldin sem ég vil.
Veröld þar sem jafnrétti er ekki draumur – heldur daglegt líf.
Veröld sem börnin okkar erfa með stolti, og halda áfram að byggja upp.
Við höfum barist lengi – en framtíðin krefst þess að við gefumst ekki upp núna. Barátta síðustu 50 ár hefur sýnt okkur að jafnrétti er ekki tálsýn, við getum skapað betri veröld með samstöðu. Ferðalaginu er ekki lokið og við ætlum saman alla leið.

 

„Við eigum framtíðina – og hún á að vera jöfn“

 

Arna Jakobína Björnsdóttir er formaður Kjalar stéttarfélags

Ég sagðist vera hætt að berjast ...

Urður Bergsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00

Er langt eftir?

Þórgunnur Oddsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00

„Þú ert svo heppin“

Katla Ósk Káradóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 12:00

Líffjölbreytileiki í skógum

Sigurður Arnarson skrifar
22. október 2025 | kl. 20:00

Illkynja geðsjúkdómar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. október 2025 | kl. 13:30

Þjálfun sem nærir – um styrk og sjálfsrækt

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
21. október 2025 | kl. 12:30