Fara í efni
Pistlar

Er langt eftir?

Ávarp flutt á Ráðhústorgi, á samstöðu- og baráttufundi í dag, kvennafrídaginn, 24. október 2025.

- Er langt eftir? spyr dóttir mín í aftursætinu.
Ég lít í baksýnisspegilinn og sé kosningarétt kvenna, getnaðarvarnir og Vigdísi forseta.
- Við erum langt komin - segi ég.

Er langt eftir? spyr dóttir mín í aftursætinu og ég hugsa um alla ráðherrana sem eru konur og þá staðreynd að nú skipa konur flest æðstu embætti landsins.
- Þetta er alveg að hafast, svara ég.

- Er langt eftir, spyr dóttir mín í aftursætinu og ég hækka í útvarpinu þar sem fréttaþulurinn segir okkur að launamunur kynjanna hafi aukist milli ára og að 40% kvenna hafi upplifað kynbundið ofbeldi.
- Þetta er lengra en ég hélt, svara ég og gef aðeins í.

- Er langt eftir? spyr dóttir mín í aftursætinu og tekur upp bók til að stytta sér stundir. Ég hugsa um kynsystur hennar í fjarlægum löndum sem fá ekki að ganga í skóla og allar konurnar hér á landi sem fá menntun sína ekki metna til launa. Svo lít ég á GPS tækið. Það eru blikur á lofti. Bakslagið er raunverulegt. Út um allan heim er sótt að réttindum kvenna og hinseiginfólks.
- Það er eins og við séum að fara í vitlausa átt, segi ég, -við hljótum að hafa tekið vitlausa beygju.

- Er langt eftir, spyr dóttir mín, en ég heyri varla í henni lengur því færðin er farin að þyngjast. Það er þetta með þriðju vaktina, það er þetta með gerendameðvirknina, það er þetta með umönnunarstörfin sem við tímum ekki að borga fyrir og svo eru það nýju skaflarnir sem rauðsokkur áttunda áratugarins óraði ekki fyrir. Eins og tæknin sem á að tengja okkur saman en færir okkur líka sífellt nýjar leiðir til þess að mismuna og sundra. Unglingsstúlkur eru plataðar til að senda af sér nektarmyndir og kvenfjandsamlegu efni er otað að ungum drengjum á samfélagsmiðlum meðan konum eins og mér er sagt að fara í bótox og stunda andlitsjóga af því konur mega ekki eldast og fá hrukkur.

- Það á enn eftir að moka svo víða! Það er eins og það skafi alltaf aftur í slóðina!

- Er langt eftir? spyr dóttir mín í aftursætinu og ég velti því fyrir mér hvernig vegirnir verði þegar hún sest sjálf við stýrið og hvort hún muni oft ganga óörugg heim að kvöldi til með bíllykilinn skorðaðan milli fingranna.

- Er langt eftir? spyr dóttir mín í aftursætinu.

- Já, svara ég,

- og við megum ekki stoppa!

Þórgunnur Oddsdóttir er fjölmiðla- og listakona.

Ég sagðist vera hætt að berjast ...

Urður Bergsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00

„Við eigum framtíðina – og hún á að vera jöfn“

Arna Jakobína Björnsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 14:30

„Þú ert svo heppin“

Katla Ósk Káradóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 12:00

Líffjölbreytileiki í skógum

Sigurður Arnarson skrifar
22. október 2025 | kl. 20:00

Illkynja geðsjúkdómar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. október 2025 | kl. 13:30

Þjálfun sem nærir – um styrk og sjálfsrækt

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
21. október 2025 | kl. 12:30