Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?

ORRABLÓT - 44
Bílar, maður. Látið mig ekki byrja á þeim, ég er ofboðslegur sérfræðingur um bíla.
Nú hlæja þeir sem þekkja mig eins og hross sem fengið hefur í nefið enda er þessi fullyrðingin alveg ofboðslega ósönn. Ég hef ekki hundsvit á bílum, lít bara á þá sem tæki til að koma mér frá stað A yfir á stað B. Ekkert meira, ekkert minna. Þess vegna munu orð eins og hásing, alternator og knastás ekki koma mikið við sögu í þessum pistli.
Eigi að síður léku bílar býsna stórt hlutverk í mínu lífi þegar ég var að vaxa úr grasi. Það stafar af því að faðir minn, Ormarr Snæbjörnsson, er mikill áhugamaður um bíla eða öllu heldur mikill áhugamaður um að skipta um bíla. Ég held að honum sé slétt sama um vélarrúmið og gangverkið. Manninum er bara lífsins ómögulegt að eiga sama bílinn lengur en í nokkrar vikur, þó það hafi aðeins lagast með árunum.
Þýski knattspyrnumaðurinn Jürgen Klinsmann, lengst til vinstri, ók gjarnan um á blárri Volkswagen bjöllu. Það mun ekki hafa verið sú sama og var um tíma í eigu Ormars Snæbjörnssonar. Indriði heitinn Úlfsson, sá góði skólamaður, var mikill áhugamaður um bíla.
Í gamla daga á Akureyri kvað svo rammt að þessu að starfsmenn einnar bílasölunnar, sem ég man ekki hvað hét, hengdu ljósmynd af þessum uppáhaldsviðskiptavini sínum upp á vegg. Fræg er sagan af því þegar Indriði Úlfsson, skólastjóri og yfirmaður pabba í Oddeyrarskólanum, kom inn á téða bílasölu. Þegar hann sá myndina varð honum að orði: „Er þessi til sölu?“
Þetta tók á sig allskonar myndir. Einu sinni vorum við vinur minn Hjalti S. Hjaltason að ganga heim í Skarðshlíðinni þegar bláókunnugur bíll nam staðar við hliðina á okkur. „Hver er þetta?“ spurði ég. „Ætlar hann að bjóða okkur far?“ Hjalti gægðist þá inn í bílinn og mælti sposkur á svip: „Þetta er pabbi þinn.“ Á nýjum bíl.
Já, það eru engar ýkjur þegar ég trúi ykkur fyrir því að við fjölskyldan höfum átt svo gott sem allar mögulegar tegundir af bílum – áður en ég fermdist.
Fyrsti bíllinn sem ég man eftir var dökkblá Volkswagen bjalla en kannski man ég bara eftir henni vegna þess að við héldum eftir forláta rauðum bróderuðum púða sem var í aftursætinu þegar bjallan var seld. Ofboðslega fallegt handverk og gott ef púðinn er ekki til enn.
Ég tel mig líka muna eftir gömlum hvítum Volvo. En kannski var það ekki Volvo. Þá ágætu tegund bíla tengi ég mest við Svíþjóð en við heimsóttum Stínu frænku og fjölskyldu reglulega í Smálöndin og þau voru alltaf á Volvo – eins og lög gera ráð fyrir þar um slóðir. Einu sinni átti að fara á ströndina, bíllinn var fullur af fólki og þar sem ég var yngstur var ég settur í skottið á Volvo station ásamt hundinum. Þetta voru aðrir tímar. Eftir á að hyggja var hundurinn kannski ekki kominn til sögunnar þá en hann hét í öllu falli Dick. Þegar hann kom. Hef ekki hugmynd um hvað hann hét þar á undan.
Þetta var ekki nema 10-15 mínútna skutl en eins og heil eilífð hjá mér enda var glampandi sól og hitinn þarna í skottinu nánast óbærilegur. Ég var nær dauða en lífi þegar skottið var opnað. Eða þannig leið mér alla vega.
Einn daginn kom pabbi heim á gömlum svörtum Mercedes Benz. Ég tengdi slíka bíla við tiltekna starfsemi, sennilega vegna þess að tegundarmerkið stóð upp úr húddinu. Þess vegna spurði ég undrandi: „Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?“
Nú haldið þið ábyggilega að talsverður sláttur hafi verið á okkur, Volvo, Benz. Öðru nær, foreldrar mínir voru bæði ríkisstarfsmenn og við bara ofboðslega venjulegt alþýðufólk. Guðhrætt og vinnusamt. Það endurspegluðu bílarnir líka lengst af.
Mikið var um Skoda, við áttum ábyggilega tíu slík kvikindi. Með vélina í skottinu. Furðulegt farartæki en gott til síns brúks. Þarna voru líka einhverjir Saabar og alla vega einn Austin Mini. Pabbi var líka með fyrstu mönnunum á Akureyri sem eignaðist Wartburg. Muniði eftir þeim bílum? Svona „flamboyant“ útgáfa af Trabant. Þar dró pabbi mörkin, það er hann festi aldrei kaup á Trabba.
Föðurbróðir minn, Siggi á Höskuldsstöðum, átti Volvo á þessum tíma og ég man að við lögðum einu sinni fyrir aftan hann, fyrir utan hjá Diddu föðursystur á Ægisíðunni í Reykjavík. Þar sem Björk Guðmundsdóttir átti síðar heima. Ætli við höfum ekki bara verið að sækja Wartburginn, beint úr kassanum, eins og það var kallað. Sigga varð starsýnt á gripinn. „Þú athugar það, Siggi minn,“ útskýrði pabbi, „að það fengjust sjö og hálfur svona fyrir einn Volvo.“ Það þótti Sigga merkilegt og strauk yfir brilljantínið.
Ég vissi aldrei hvað pabbi ætlaði að gera við þennan hálfa Wartburg.
Svo var hann allt í einu kominn á Citroën, þið vitið týpuna sem hægt var að hækka upp. Ekki veitti nú víst af í snjóþyngslunum á veturna. Það þótti mér geggjaður bíll og ég fékk um stund aðkenningu að bíladellu. Ætlaði sjálfur aldrei að eiga öðruvísi bíl en Citroën. Það fór á allt annan veg, ég á enn eftir að eignast minn fyrsta Citroën. Og bara yfirhöfuð franskan bíl.
Við pabbi vorum mikið á Citroën-verkstæðinu á Eyrinni sem eftir á að hyggja bendir til þess að bíllinn hafi talsvert verið bilaður, nú eða bílarnir, hann átti nokkra slíka, þó aldrei nema einn í einu. Í minningunni var oft eitthvað vesen á upphækkuninni. En mögulega var kaffið bara svona gott hjá Gunnari bifvélavirkja sem var mikið ljúfmenni.
Aftur vorum við feðgarnir mættir suður til að sækja nýjan bíl úr kassanum, að þessu sinni Lada Sport, sem var svo sannarlega tískubíllinn upp úr 1980. Það var bókstaflega hlegið að mönnum sem óku ekki um á Sportara. Helst heiðgulum. Það var af einhverjum undarlegum ástæðum tískuliturinn. Þar sem Sportarinn var nýr bilaði hann ekki og ég hef fyrir vikið ekki hugmynd um hvar Lada-verkstæðið var á Akureyri.
Einu sinni þurftum við þó að leita til bílalæknis í Reykjavík, einmitt með Lödu, þó ekki Sport. Heldur smærri týpuna. Eða var það Fiat? Þið fyrirgefið mér vonandi þó allir þessir bílar renni svolítið saman. Þá ætluðum við mamma og pabbi að fara hringinn kringum landið og lagt var upp frá Reykjavík. Ladan eða Fiatinn örmagnaðist hins vegar strax í Kömbunum. Við snerum því aftur heim til ömmu og afa, þar sem Lars Danielsson frændi minn frá Svíþjóð, sonur Stínu móðursystur, var gestkomandi. Hann rak upp stór augu þegar hann sá okkur og spurði hátt og snjallt: „Hvað var ykkur komin langt þegar bíllinn gekk í sundur?“
Magnaður maður, Lars, og aldrei hræddur við að láta vaða sem barn enda þótt íslenskan væri ekki hans fyrsta mál. Enda skildist þetta fullkomlega.
Minn fyrsti prívatbíll var svarblá Honda Accord, árgerð 1981. Keyptur fyrir sparifé, kaupið úr sportvörudeild KEA og með styrk frá mömmu og pabba sumarið 1988. Gott ef ekki var sleginn eins og einn víxill, eða tveir. Kaupverðið var kr. 200.000.
Pabbi var á þessum tíma á Hondu Civic og taldi best að setja undir mig sama merki, eða því sem næst.
Hondan var komin á bílaplanið í Smárahlíðinni einhverjum vikum áður en að ég fékk bílprófið. Beið þar átekta. Hún þurfti raunar að bíða degi lengur en að var stefnt. Ekki vegna þess að ég féll á bílprófinu, heldur fyrir þær sakir að prófdómarinn skrapp alltaf einn dag í mánuði til Siglufjarðar til að útskrifa menn þar. Og það var akkúrat 17 ára afmælisdagurinn minn. Haldiði að sé nú. Hann gat því ekki dæmt mig fyrr en daginn eftir. Það voru agaleg vonbrigði og enginn afmælisdagur hefur verið eins lengi að líða, hvorki fyrr né síðar. Þess utan þótti mér alltaf ömurlegt að útgáfudagurinn eins og hann var skráður á skírteininu væri 22. en ekki 21. júlí.
Hondan mín reyndist afbragðsvel, fyrir utan smávægilegar bilanir hér og þar, og flutti með mér suður eftir stúdentspróf. Ég taldi að hún væri að niðurlotum komin þegar ég seldi hana fyrir einhverja þúsundkalla gegnum smáauglýsingu í DV sumarið 1994 og þegar ég horfði á eftir henni aka upp Laufengið í Grafarvoginum gerði ég ekki ráð fyrir að sjá hana aftur í þessu lífi. Það fór á annan veg.
Nokkrum árum síðar skaut Hondan nefnilega upp kollinum í Norðurmýrinni, skammt frá heimili tengdaforeldra minna, og varð þar á vegi mínum heillengi eftir það. Undir það síðasta var búið að mála flennistórt písmerki á húddið. Einhver hippi hefur þá verið búinn að eignast hana. Hondan dugði ábyggilega fram yfir aldamót. Gott í þessu japanska dóti.
Hafið mig samt ekki fyrir því. Ég hef ekki hundsvit á bílum.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.


Hús dagsins: Smíðahúsið á Skipalóni

Klukkustrengir

Siggi póstur

Að baka brauð
