Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Aðalstræti 2

HÚS DAGSINS
 

Yst við Aðalstræti, neðst í rótum brekkunnar miklu norður af Búðargili stendur reisulegt og stórbrotið hús.

Helstu sérkenni þess eru kvistar miklar og viðbygging nyrst sem saman mynda heildarsvip, sem minna kann á misstórar burstir. Við fyrstu sýn gæti þetta hús verið fjölbýlishús frá fyrri hluta eða miðri 20. öld en staðreyndin er sú, að hér er um að ræða, að stofni til, hús frá miðri 19. öld, eitt af elstu húsum Akureyrar. Það er þó önnur staðreynd að húsið er vægast sagt gjörbreytt frá upprunalegri gerð, stundum talið það hús bæjarins sem er mest breytt frá upphafi. Hér hafa m.a. verið ýmsar verslanir, Amtsbókasafnið, úrsmíða- og gullsmíðaverkstæði og barnaskóli á tímabili. En suðurhluti hússins Aðalstræti 2, var eitt sinn ein hæð með háu risi, ekki ósvipaður t.d. Aðalstræti 50 og 52 og Laxdalshúsi.

Aðalstræti 2 er í raun tvö sambyggð hús, nr. 2 og 2b, sem er norðurhlutinn. Hér er fjallað um húsin sem eina heild, en gerður greinarmunur á 2 sem suðurhluta og 2b sem norðurhluta. Á tímabili kallaðist norðurhlutinn 2a og um skamma hríð var suðurhlutinn 2b. Suðurhlutinn þ.e. 2, er tvílyft timburhús, að hluta til steypt (útveggur að vestan) á lágum grunni með háu risi. Við suðurstafn á framhlið er mikill kvistur, eða burst, en tveir smærri kvistir á framhlið og einn á bakhlið. Norðurhluti, 2b, er einnig timburhús, tvílyft á háum grunni með lágu, aflíðandi risi. Á bakhlið er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki við norðurhluta. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins (eða húsanna), bárujárn á þaki og húsið klætt með rauðleitum steinmulningi eða perluákasti. Grunnflötur suðurhluta mælist 10,29x9,12m, útbygging 2,45x1,81m en norðurhluti er 5,17x5,59m að grunnfleti, að viðbættri bakbyggingu 4,46x3,44m. Skagar sú bygging 1,15m út frá norðurhlið hússins og eru nyrstu 183 cm byggingarinnar inndregnir um 55 cm. Steintröppur og pallur, 1,51m á breidd er meðfram norðurhluta að framan (Mál fengin af uppmælingarteikningum Tryggva Tryggvasonar frá 2002).

Gunnlaugur assistant – Bókasafnið

Það mun hafa verið árið 1850, að Gunnlaugur Guttormsson, sem skráður er í manntali sem „ógiftur assistant“ reisti hús á „ Akureyri höndlunarstað “. Húsið hefur verið á mörkum eyrarinnar og brekkunnar en Akureyri er einmitt eyrin undan Búðarlæknum, þar sem nú er verslunin Brynja og bílastæðið við hana, sem og Thulinuisar- og Höepfnershús. Hús Gunnlaugs var af nokkuð hefðbundinni gerð þess tíma, ein hæð með háu og bröttu risi. Gunnlaugur Guttormsson var fæddur árið 1822, líkast til að Krossavík við Vopnafjörð, en þar er hann alltént skráður í manntali sem barn (1835). Hann nam við Bessastaðaskóla, er þar skráður skólapiltur árið 1840 en fimm árum síðar er hann kominn til Akureyrar, nánar tiltekið í hús númer 49. Hvaða hús það er, eða var, nákvæmlega er ekki gott að segja, en Ingimundur Eiríksson járnsmiður var búsettur í húsi nr. 51 og hann var með húsakost þar sem nú eru lóðirnar Aðalstræti 44 og 46. Fimm árum síðar er Gunnlaugur, Björg systir hans, og móðir, Steinvör Gunnlaugsdóttir skráð í hús númer 50 á Akureyri, sem er þá væntanlega húsið sem löngu síðar varð Aðalstræti 2. Það ár eru Friðrik Möller verslunarmaður og hans fólk skráð í hús númer 49. Það er þó ekki víst, og raunar ólíklegt, að um sama hús sé að ræða, því á þessum árum voru númer húsa nokkuð breytileg eftir manntölum.

Ekki einasta var hið nýreista hús, heimili Gunnlaugs, heldur var Amtsbókasafnið hér til húsa um skamma hríð: Um mitt ár 1851 var samið við Gunnlaug um leigu á húsplássi undir bókasafnið, sem hafði frá upphafi verið í húsinu sem síðar varð Laxdalshús. Árið 1854 var bókasafnið flutt í nýreist hús sunnar í bænum, sem síðar varð Aðalstræti 40, en líklega var það ekki öll þessi þrjú ár í Gunnlaugshúsi, því þegar það flyst í nýja bókasafnshúsið, er þess getið, að það hafi verið hjá Bernharð Steincke (sbr. Jón Hjaltason 1994:36-37). Gunnlaugur Guttormsson bjó ekki lengi í íbúðar- og verslunarhúsi sínu, en árið 1855 er hann fluttur til Skagastrandar, þar sem hann starfar sem verslunarþjónn. Athygli vekur, að í manntölum er hann skráður giftur á Skagaströnd, en ekki að finna eiginkonu. Það skýrist af því, að hún var búsett í húsi þeirra á Akureyri. Eiginkona Gunnlaugs var Margrét Ingibjörg Halldórsdóttir, húnvetningur, nánar tiltekið frá Melstað í Miðfirði. Faðir hennar var séra Halldór Ámundason, sem sat á Melstað frá 1816 til dánardægurs, 1843. Frú Margrét átti heima í húsi þeirra árið 1855 ásamt ungum börnum þeirra Gunnlaugs; Halldóri, Margréti, Björgu Þórunni, tveimur þjónustustúlkum Chr. H. Finnbogadóttur og Sigríði Þorvaldsdóttur. Hjá Margréti leigði bróðir hennar, Jóhannes Halldórsson ásamt konu sinni, Ragnheiði Halldórsdóttur og vinnukonu, Christínu Magnúsdóttur. Þau Margrét og Gunnlaugur hafa verið í fjarbúð fáein ár á 6. áratug 19. aldar en einhvern tíma á síðari hluta þess áratugs flyst Margrét til Gunnlaugs en árið 1860 eru þau skráð þar til heimilis, hann verslunarþjónn og hún verslunarþjónsfrú. Af Gunnlaugi er það að segja, að hann lést það sama ár, 1860, aðeins 38 ára að aldri. Margrét fluttist aftur til Akureyrar og er skráð ekkja á Stóra Eyrarlandi árið 1870.

Systkinin Margrét og Jóhannes – Kröpp kjör barnakennara – Barnaskólinn

Það er ekki ljóst hvort Margrét Halldórsdóttir fluttist aftur hingað í húsið eftir lát Gunnlaugs en hún var um árabil eigandi hússins, eða til ársins 1875. Allan þann tíma leigði Jóhannes, bróðir hennar, af henni. Jóhannes Halldórsson hafði lært til prests en hugnaðist alls ekki prestskapur en fékkst við barnakennslu. Hann starfrækti einkaskóla frá árinu 1854, væntanlega hér í húsinu, en átti í stöðugum fjárhagsörðugleikum, því ekki virðist kennslan hafa gefið mikið í aðra hönd. Þegar hann hafði fengist við barnakennsluna í áratug hugðist hann hins vegar leita fyrir sér að lausu prestakalli og lýsir raunum sínum í bréfaskiptum við bróður sinn haustið 1864: Á hinn bóginn er jeg orðinn leiður á að vera að sarga við þessa krakka einkum þegar það færir mjer ekki svo mikið í aðra hönd að jeg geti lifað fri for næringssorger […] (Jón Hjaltason (Jóhannes Halldórsson) 1994:304). Jóhannes segist ætla að hlýta ráðum bróður síns, hver sem þau verða, en ekki fylgir sögunni hver þau voru. Umræddur bróðir Jóhannesar var einmitt prestur eins og pabbi þeirra, séra Daníel Halldórsson prófastur. Hins vegar gerðist Jóhannes aldrei prestur, heldur hefur hann líkast til haldið áfram kennslunni. Sjö árum eftir þessi bréfaskipti var stofnsettur fyrsti formlegi barnaskóli Akureyrar og var þá Jóhannes Halldórsson skipaður kennari við hann. Barnaskóli Akureyrar var formlega settur 1. nóvember árið 1871. Fyrst um sinn fékk skólinn inni í húsi Hansens lyfsala (nú Aðalstræti 4), næsta húsi sunnan við Jóhannes en fljótlega festi Akureyrarbær kaup á Indriðahúsi svokallaða (Aðalstræti 66). Veturinn 1872-73 fór kennslan fram á heimili Jóhannesar (sbr. Jón Hjaltason 1994:306). Síðar hlaut Jóhannes nafnbótina forstöðumaður skólans eða skólastjóri. Hefur hagur hans væntanlega vænkast nokkuð og árið 1877 reisti hann sér eigið hús, ofan við þéttbýlið, ofarlega á norðurbrún Búðargils, sem síðar varð Ráðhússtígur 4. Þá hafði Margrét systir hans selt húsið sem hún og maður hennar reistu aldarfjórðungi fyrr. Það var Jósep Jóhannesson járnsmiður sem keypti af Margréti og var það árið 1875. Líklega er þar um sama Jósep að ræða, og reisti árið 1879 hús á Oddeyri og stundaði þar greiðasölu og reisti árið 1886 stórhýsi á svipuðum slóðum, veitinga- og gistihúsið Hótel Oddeyri. Það gæti staðist, því á því herrans ári 1886 selur Jósep húseign sína á Akureyri undir Eyrarlandsbrekkunni. Kaupandinn var Magnús Jónsson úr- og gullsmiður frá Öxnafelli. Magnús var fæddur 15. júlí árið 1850, það er, sama sumar og Gunnlaugur Guttormsson reisti þetta hús.

Magnús Jónsson - Uppbyggingartímabil

Magnús Jónsson var auðugur mjög og átti það sameiginlegt með frænda sínum, Magnúsi Sigurðssyni á Grund, en þeir nafnar voru systrasynir. Líkt og hjá frænda hans og nafna á Grund, sem á þessum árum stóð fyrir mikilli uppbyggingu á því höfuðbóli, réðist Magnús í miklar endurbætur á húsi sínu yst við Aðalstræti. Magnús Jónsson hafði ekki fyrr fest kaup á húsinu en hann sótti um leyfi til byggingarnefndar um að fá að lengja húsið um fjórar álnir (rúmlega 2,50) til norðurs. Honum var heimilað það, og mögulega hefur Magnús hækkað húsið um eina hæð jafnhliða, þó ekki sé minnst á það í bókunum bygginganefndar. Í Húsakönnun 1986 telur Hjörleifur Stefánsson líklegt, að Jósep hafi þegar verið búinn að hækka risið þegar hann seldi Magnúsi það (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:64). Sú framkvæmd hefur þá farið fram eftir 1882 en upprunalegt lag hússins sést á ljósmynd, sem tekin er það ár. Ákveðnar kenningar eru um, að Jón Chr. Stephánsson hafi mögulega komið að stækkun hússins árið 1886 og í húsakönnun 2012 er það sett í samhengi við Lækjargötu 6, sem einnig var reist þetta sama ár (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Stefánsdóttir 2012: 23).

Aldamótaárið er Magnús aftur í framkvæmdum við hús sitt. Þann 13. júní þá um sumarið bókar bygginganefnd eftirfarandi: Bygginganefnd samþykkti að úrsmiður Magnús Jónsson mætti byggja skúr norðan við hús sitt og áfast við það jafnbreiðan og húsið og til norðurs ca. 8 álnir þannig að 3 álnir sjeu frá norðausturhorni skúrsins og að veginum upp að Eyrarlandi (Bygg.nefnd.Ak. 1900: nr. 190). Stígur, sem liggur framan í hinni skógi vöxnu brekku milli Hafnarstrætis og Spítalavegar, sem og Spítalavegurinn sjálfur eru að einhverju leyti í vegarstæði umrædds vegar að Eyrarlandi. Fjórum árum síðar er Magnús enn að byggja, í ársbyrjun 1904 bókar bygginganefnd: Nefndin leyfði Magnúsi Jónssyni úrsmið að byggja eina hæð, 4 ál. [á hæð] ofan á skúr hans norðan við íbúðarhúsið þannig að það myndi kvist við norðurenda hússins og snúi austur og vestur og sje með 2 gluggum á austurstafni og þakið með lágu risi (Bygg. nefnd. Ak. 1904: nr. 263).

Þannig er ljóst, að norðurhlutinn, 2b, hefur verið að mestu fullmótaður eftir þessar framkvæmdir árið 1904 og húsið að færast nær því útliti, sem það hefur nú. Ári eftir þessar framkvæmdir, 24. júní 1905, lést Magnús Jónsson, réttum þremur vikum fyrir sinn 55. afmælisdag. Eignarhald hússins færðist á fósturdóttur hans, Hólmfríði Jónsdóttur frá Æsustöðum í Saurbæjarhreppi, en við úrsmíðaverkstæðinu tók félagi hans og fyrrum lærlingur, Sigmundur Sigurðsson frá Stóru- Brekku á Höfðaströnd. Hann hafði verið búsettur hér um árabil. Af manntölum má ráða, að Hólmfríður hafi fljótlega, eftir að hún erfði húseignina, selt norðurhlutann og hann verið sérstakur eignarhluti allar götur síðan. Árið 1905 skiptist húseignin í 65 og 65b og síðarnefndi eignarhlutinn í eigu Jóhanns Christensens. Ári síðar voru höfð endaskipti á númerum Aðalstrætis og fengu húsin þá númerin 2 og 2a (sem var norðurhlutinn). Árið 1911 er Sigmundur Sigurðsson orðinn eigandi hússins. Það er dálítið athyglisvert að skoða manntölin frá 1910 annars vegar og 1911 hins vegar, því árið 1910 hefur Hólmfríður titilinn húsráðandi en ári síðar er hún einfaldlega titluð „kona“. Mögulega hafa þau Sigmundur og Hólmfríður gengið í hjónaband milli þess að manntölin voru tekin, en þau eignuðust son í janúar 1911, sem hlaut nafnið Magnús Jónsson Sigmundsson. Um svipað leyti eignaðist Sigmundur aftur norðurhluta hússins, þ.e. 2a, sem hafði verið séreign frá 1905.

Líkt og allar húseignir bæjarins var Aðalstræti 2 metið til brunabóta árið 1916. Þá er húsið sagt vera íbúðar- og verkstæðishús, tvílyft timburhús með kjallara undir 2/3 af húsinu og skúr við bakhlið. Kjallari var hólfaður í þrjú geymslupláss. Á gólfi þ.e. á jarðhæð undir framhlið (austanmegin á hæðinni) voru þrjár stofur og tvær forstofur, vestanmegin voru hins vegar ein stofa, eldhús og þrjú geymsluherbergi. Á lofti, þ.e. efri hæð voru fimm íbúðarherbergi, gangur og eitt eldhús. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Veggir voru timburklæddir og járn á þaki. Húsið var sagt 12,6x5,6m á grunnfleti og 4,5m á hæð og á því hvorki meira né minna en 31 gluggi. Fjórir kolaofnar og tvær eldavélar voru í húsinu og tveir skorsteinar. Húseignirnar 2 og 2a voru metnar saman enda sambyggðar og sami eigandi á þeim tíma. Aðalstræti 2a var sagt einlyft íbúðarhús á lágum steingrunni og háu risi. Á gólfi ein stofa, forstofa og geymsla en á lofti ein stofa og forstofa. Enginn skorsteinn en rör upp úr þekju fyrir eina kolaofninn sem í húsinu var. Húsið úr timbri, timburklætt með pappa á þaki. Grunnflötur hússins aðeins 3,8x3,5 metrar en hæðin 4,4 metrar. Þrír gluggar voru á húsinu (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916:nr.54). Það er athyglisvert að skoða málin á húsunum. Þarna er Aðalstræti 2 sagt 12,6 metrar að lengd en nr. 2b aðeins 3,5 metrar. Samanlögð lengd húsanna er hins vegar, samkvæmt uppmælingarteikningum, 15,50m. Þetta bendir til þess, að skil milli eignarhluta hafi verið frábrugðin því sem síðar varð. Rímar það við það, að syðst í 2b er skorsteinn, en þess getið árið 1916 að enginn skorsteinn sé á því húsi. Þá er athyglisvert að skoða hæð húsanna, en þau eru sögð ámóta há, 4,5 og 4,4m. Enda kom það fram, að norðurviðbyggingin myndaði kvist við suðurhluta hússins þegar byggingarleyfið fyrir stækkun hennar var veitt árið 1904. Ári síðar, eða 1917 eignaðist Carl Johan Lilliendahl, bókhaldari, norðurhluta hússins. Hann var kvæntur Ágústu Jónasdóttur frá Kjarna (sem Kjarnaskógur er kenndur við) og voru þau áður búsett á Vopnafirði.

Sigmundur Sigurðsson og Carl Lilliendahl – Enn meiri uppbygging – Hinar ýmsu verslanir

Líkt og lærifaðir hans, hugði Sigmundur að framkvæmdum og breytingum á húsinu. Það var árið 1924 að hann fékk leyfi til að byggja við húsið, að þessu sinni að […] lyfta efri hæð hússins um 40 centimetra og byggja vestan við húsið um 3,25 mtr. breiða viðbót úr steinsteypu jafnháa húsinu og hækka ris hússins (Bygg.nefnd. Ak. 1924: nr.553). Nefndin veitti Sigmundi byggingaleyfið með því skilyrði, að það væri í samræmi við brunamálalög. Gera má ráð fyrir því, að samhliða þessum framkvæmdum hafi Sigmundur reist kvistina miklu á framhlið.

Við þessar framkvæmdir hefur húsið fengið það lag sem það síðan hefur, en ekki einasta var Sigmundur í framkvæmdahug á þessum tíma. Í nóvember 1924 fékk Carl Lilliendahl heimild bygginganefndar til þess að reisa viðbótarbyggingu, vestan við hús sitt, 5x6 álnir og nái skúrinn 1 ½ alin norður fyrir húshornið. Byggingarleyfið var veitt með þeim skilyrðum, að meðfylgjandi uppdráttur sýndi rétta afstöðu gagnvart húsi Guðmundar Vigfússonar að Spítalavegi 1 og byggingin væri í samræmi við brunamálalög (sbr. Bygg.nefnd. Ak. 1924: nr. 561). Umræddur uppdráttur hefur líkast til ekki varðveist, hann er alltént ekki aðgengilegur á teikningasafni map.is. Þess má geta, að um vorið hafði Carl sótt um sams konar byggingu en fengið synjun vegna nálægðar við næsta hús og götu (sbr. Bygg.nefnd. Ak. 1924: nr. 554), sem væntanlega var Eyrarlandsstígurinn. Árið 1926 reisti Carl voldugar steyptar tröppur framan við norðurhlutann og skartar þær skrautlegum steyptum pílárum, sem móðins voru þá, og setja nokkuð skemmtilegan svip á húsið. Undir tröppum þessum var verslunarrými og þar mun Carl hafa rekið sportvöruverslun. Í suðurhlutanum stundaði Sigmundur Sigurðsson úrsmíði en einnig verslun, á þriðja áratugnum sjást frá honum auglýsingar þar sem hann selur byssur og skotfæri annars vegar og prjónavélar hins vegar. Í tíð Sigmundar var sérleg klukka Akureyrarbæjar á framhlið hússins. Þá var engin „ungfrú Klukka“ sem hægt var að hringja í, svo menn treystu á klukku Sigmundar og stilltu bæjarbúar jafnt sem ferðamenn úrverk sín eftir henni (sbr. Steindór Steindórsson 1993:21).

Til er mjög greinargóð og ítarleg lýsing á verkstæði Sigmundar Sigurðssonar. Þar segir frá Kristján Halldórsson úrsmiður, en hann var nemi hjá Sigmundi árin 1907-1910: Þremur árum eftir að Magnús [Jónsson] dó, réðst eg til úrsmíðanáms hjá Sigmundi Sigurðssyni, tengdasyni Magnúsar; og var hjá honum í 3 ár. Bjó eg allan þann tíma í húsi Magnúsar heitins. Eg kynntist þar því dálítið starfi hans og smíði í þeim tveimur starfsgreinum, sem hann var meistari í, nefnilega gullsmíði og úrsmíði (Kristján Halldórsson 1956:13). Frásögn þessi er hluti af æviágripi um Magnús Jónsson, sem Kristján tók saman og birtist í Jólablaði Dags árið 1956. Þess vegna er áherslan á Magnús Jónsson, enda þótt hann hafi verið látinn þegar hér er komið sögu. Fylgjum nú Kristjáni um Aðalstræti 2, seint á fyrsta áratug 20. aldar: Í Aðalstræti 2, á fyrstu hæð, var forstofa eða gangur, og var stigi þaðan upp á aðra hæð. Úr forstofunni var gengið í búðina. Var hún allstór, og var búðarborðið við austurvegginn; Úr búðinni var svo gengið í verkstæðið. Þar voru tvö vinnuborð, annað við austurglugga, sem sneri út að götunni, og var það borð meistara míns, en hitt' var við suðurglugga, og unnum við lærisveinarnir við það. Borð þetta var smíða- borð Magnúsar heitins. Vestur úr verkstæðinu voru dyr að svefnherbergi okkar lærisveinanna. Þegar komið var upp á efri hæðina, var gengið eftir gangi að borðstofunni, hún var allrúmgóð, máluð dökkrauð, í henni voru borðstofuhúsgögn úr eik, fremur vönduð. Á suðurvegg hékk stór mynd af Magnúsi, sem horfði til manns með sínum broshýra og festulega svip. Norður af borðstofunni var gestastofan; hún var með ljósu veggfóðri, og í henni voru mjög vönduð, flosklædd húsgögn. Svefnherbergi var þar norðan við, og svaf Sigmundur þar. En svefnherbergi Hólmfríðar var í vesturhorni hússins móti dagstofunni. Á loftinu við suðurstafn var eitt herbergi. Þar bjó Vilborg, móðir Hólmfríðar, þá orðin gömul kona. Þannig var hús Magnúsar, þegar eg kynntist því, og hafði því ekkert verið breytt frá því að Magnús dó (Kristján Halldórsson 1956:13).

Sigmundur Sigurðsson bjó hér til æviloka, árið 1932 en Hólmfríður ekkja hans bjó hér áfram og mun hafa selt húsið í áföngum um 1940-42. Eftir 1935 er hana ekki að finna í manntölum hér, en þá skiptist húsið í 3-5 íbúðarrými svo gera má ráð fyrir, að hún hafi leigt húseignina út. Í verslunarrýminu undir tröppunum við norðurhlutann, Aðalstræti 2a, var stofnsett lítil kjörbúð árið 1939. Hlaut hún nafnið Brynja og er þar er um að ræða hina valinkunnu ísbúð, sem síðar fluttist skáhallt yfir Aðalstrætið, þar sem hún er enn. (Brynjuísinn mun þó hafa komið til sögunnar síðar).

Síðari hluti 20. aldar og fram á vora daga – Brakið í gólfum og notalegheit

Árið 1940 er eigandi hússins Aðalstræti 2, H.f. Valhöll, að þriðjungi en árið 1941 eignast Gunnlaugur Sigfússon tvo þriðju hluta hússins (líklega eru þessi eignahlutaskipti hæðir hússins). Benjamín og Guðmundur Ármannssynir eignast svo einn þriðja hluta Aðalstrætis 2 árið 1946. Lengra nær eigendatalið ekki, sem finna má í húsakönnuninni frá 1986 heldur stendur einfaldlega „auk ýmissa annarra“. Þar kemur fram, að norðurhlutanum hafi verið skipt í tvær íbúðir árið 1942 en sameinaðar í eina þrjátíu árum síðar og að gerðar hafi verið tvær íbúðir í suðurhlutanum árið 1946 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986: 64). Í manntölum á fimmta áratugnum er suðurhlutinn jafnan kallaður 2b en norðurhlutinn 2a. Sem fyrr segir mun húsið hafa fengið það útlit að ytra byrði sem það hefur nú um 1924-26. Núverandi klæðning, steinmulningur, hefur líkast til komið eitthvað síðar, e.t.v. á fjórða áratug 20. aldar. Eignarhlutar munu einnig hafa verið nokkuð breytilegir gegnum áratugina.

Árið 2002 var suðurhlutanum skipt upp í þrjár íbúðir og innréttuð sérstök íbúð í risinu og stigagangur (áður hafði efri hæð og risið verið ein eign), eftir teikningum Tryggva Tryggvasonar. Þar voru búsett árið 2016 þau Inga Elísabet Vésteinsdóttir og Orri Harðarson og lýstu þau sinni upplifun af húsinu í bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbær Húsin og fólkið: Okkur líður ósköp vel hér í risinu; súðin veitir hlýlegt skjól og útsýnið er tilkomumikið og síbreytilegt. Það eru raunar forréttindi að búa í þessu gamla húsi. Hér brakar allt af lífi kynslóðanna. Venjulegt fólk hefur búið hér síðan löngu fyrir lýðveldisstofnun. Það bjó kannski ekki við sömu þægindi og við en gerði nákvæmlega sömu hluti og við: Svæfði börnin sín, borðaði og elskaði. Hlúði að sér að sínum (Kristín Aðalsteinsdóttir (Inga Elísabet Vésteinsdóttir og Orri Harðarson) 2016:11).

Í fyrrgreindri bók sögðu þau Gunnar Bachmann Gestsson og Svava Rögnvaldsdóttir í Aðalstræti 2b, einnig: Húsið er lifandi, hér brakar í gömlum fjölum, einhver gæti sagt að hér væri draugagangur. Sonur okkar segir stundum að hann finni fyrir sálum á kreiki. Þá er viðurinn örugglega að láta vita af sér. Gunnar og Svava geta þess, að þau hafi búið hér í 15 ár og aðlagað húsið að sínum þörfum, m.a. með þremur sólpöllum, því þau elti sólina. Þau segja frá klukkunni góðu: Eitt sinn var bæjarklukkan hér á húsinu og íbúarnir komu hingað til að stilla klukkurnar sínar. Við vitum að eitt sinn bjuggu þrjár fjölskyldur í húsinu og hér hafa verið verslanir og ýmislegt fleira. Og hér hefur verið skóbúð, Mangi skósmiður var á efstu hæðinni, Carl J. Lilliendal var með skranverslun í kjallaranum undir tröppunum og verslunin Brynja var stofnuð hér í Aðalstræti 2b, hún var starfrækt í kjallaranum (Kristín Aðalsteinsdóttir (Gunnar Bachmann Gestsson og Svava Rögnvaldsdóttir) 2017:13).

Aðalstræti 2 og 2b er sérlega reisulegt og svipmikið hús, mætti segja stórskorið. Kvistirnir stórbrotnu, sem gluggaskipan framhliðar og skrautlegt, steypt handrið á framhlið 2b eru nokkuð áberandi og gefa húsinu áberandi sérkenni. Samstæða þessi myndar nokkuð skemmtilega heild, kallast þannig risið á norðurhlutanum á við syðsta kvist suðurhluta sem nokkurs konar burstir, þótt ólík séu að gerð, ásamt kvistunum tveimur á milli svo úr verður „næstum samhverf“ heild. Ólík gluggaskipan milli hæða á framhlið gefur einnig ákveðinn svip og er þetta stórbrotna hús sérlegt kennilegt á þessum fjölfarna stað í hjarta elsta hluta Akureyrar. Húsið er í góðri hirðu, á því er til að mynda nokkuð nýlegt þakjárn. Húsið á sér merka og sérstæða sögu, sér í lagi byggingasögu, og einhvers staðar heyrði greinarhöfundur því fleygt fram, að Aðalstræti 2 væri líklega það hús á Akureyri sem tekið hefði mestum breytingum frá upphafi. Húsið er aldursfriðað, byggt löngu fyrir 1923, en miklar breytingar frá upphaflegri gerð geta haft áhrif á varðveislugildi. í Húsakönnun 2012 er það sagt: Einstakt hús, götumynd sem lagt er til að varðveita með hverfisvernd í deiliskipulagi (Hjörleifur og Hanna Rósa 2012:22).

Viðbætir: Byggingarár og upprunaleiki húsa – „Gamla skóflan hans afa“

Sem fyrr segir er húsið mikið breytt frá upphafi og hefur verið stækkað og endurbætt á alla kanta og það h.u.b. bókstaflega. Upprunalega húsið frá miðri 19. öld gæti samsvarað gluggunum þremur á austurhlið syðri hluta og tveggja gluggabila austanmegin á suðurstafni en í upphafi var á húsinu hátt ris, húsið með ekki ósvipuðu lagi og Laxdalshús. Það er ekki víst að mjög margir bjálkar frá Gunnlaugi Guttormsson leynist í húsinu enn. Er þá hægt að segja að byggingarárið sé 1850? Er hægt að miða við upphafleg byggingarár þegar hús eru marg viðbyggð eða hafa verið endurnýjuð nánast frá grunni. Þessu má svara með sögu, sem greinarhöfundur heyrði einhvern tíma, um „gömlu skófluna hans afa“: Fyrir áratugum keypti afi forláta og verklega skóflu í kaupfélaginu. Hann notaði hana í ýmsar framkvæmdir en dag einn lenti hann á miklu bjargi í jarðveginum og við það skemmdist skóflublaðið. Af því skaftið var vandað og stráheilt ákvað hann að kaupa ekki nýja skófla heldur einfaldlega skipta um blað. Svo, nokkru eftir að nýja blaðið var komið, brotnaði skaftið. Þá skipti afi um skaft. Síðar skemmdist nýja blaðið og fengið var nýtt og enn síðar brotnaði nýja skaftið, en þá var skipt aftur um skaft. Og enn síðar nýtt blað; En ætíð var þetta sama gamla skóflan hans afa, úr kaupfélaginu forðum daga…

Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 15. október 2025, en myndin sem sýnir Aðalstræti 2 brúngráleitt að lit og áður en skipt var um þakjárn er tekin 19. júní árið 2014.

Blogg Arnórs Blika Hallmundssonar

Heimildir

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 71, 3. maí 1859. Fundur nr. 191, 13. júní 1900. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 263, 11. jan. 1904. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 553, 2. maí 1924. Fundur nr. 554, 24. maí 1924. Fundur nr. 561, 4. nóv. 1924. Fundur nr. 584, 3. maí 1926. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Pdf-skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf.

Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II. bindi. Akureyrarbær.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.

Kristján Halldórsson. 1956. Brot úr ævisögu Magnúsar Jónssonar, gullsmiðs á Akureyri. Í Jólablaði Dags 1956. 67. tbl. 39. árg (Dagur) 17. desember.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Ýmsar upplýsingar af vefnum m.a. islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is.

Fram á rauðan morgun

Jóhann Árelíuz skrifar
26. október 2025 | kl. 06:00

Ég sagðist vera hætt að berjast ...

Urður Bergsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00

Er langt eftir?

Þórgunnur Oddsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00

„Við eigum framtíðina – og hún á að vera jöfn“

Arna Jakobína Björnsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 14:30

„Þú ert svo heppin“

Katla Ósk Káradóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 12:00

Líffjölbreytileiki í skógum

Sigurður Arnarson skrifar
22. október 2025 | kl. 20:00