Fara í efni
Pistlar

Og Ian Rush verður að skora!

ORRABLÓT - 47

Laugardagskvöldið 4. apríl 1987 hélt ég upp á tveggja ára fermingarafmæli mitt með því að skella mér á dansiball í Íþróttaskemmunni á Akureyri. Gott ef þetta er ekki í fyrsta skipti sem það mergjaða mannvirki kemur við sögu í þessum pistlum. Löngu kominn tími til. Maður tengir Skemmuna auðvitað fyrst og síðast við handboltaleiki í eldgamla daga, þar sem návígið var svo mikið að vart mátti milli sjá hvor fylking, keppendur eða áhorfendur, voru sveittari þegar lokaflautið gall.

Endrum og sinnum var líka efnt til tónleika eða dansiballa í Skemmunni og ég man til dæmis eftir að hafa séð Bubba Morthens þar upp úr miðri áttunni, álíka sveittan og handboltamennina á undan honum. Mögulega var hann enn að vinna með Das Kapital á þessum tíma en þó minnir mig frekar að sólóband hafi fylgt honum norður. Menn voru í öllu falli í gargandi stuði. Víraðir í drasl.

Ekki man ég fyrir mitt litla líf hvaða band lék fyrir dansi á umræddu balli, 4. apríl 1987, og ef til vill sáu bara plötusnúðar um tónlistina. Hitt man ég hins vegar eins og gerst hefði í gær að ég rakst þarna á ágætan skólafélaga úr MA, Eirík Sigríðarson Jóhannsson, sem síðar átti eftir að verða atkvæðamikill í atvinnulífi þessarar þjóðar, bæði sem forstjóri og stjórnarformaður hinna ýmsu fyrirtækja og félaga. Þess utan er Eiríkur auðvitað grjótharður Arsenal-maður, eins og blótari sjálfur. Svo sem lög gera ráð fyrir þegar fundum slíkra manna ber saman tókum við að sjálfsögðu stöðuna á okkar mönnum.

„Við verðum að vinna á morgun,” sagði Eiríkur ákveðinn og átti þar við úrslitaleikinn í deildabikarnum, sem í þá daga kallaðist Littlewoods Cup, milli Arsenal og Liverpool.

Já, það yrði nú ekki leiðinlegt, sagði ég. Mátulega vongóður, Liverpool bar, eins og þið munið, ægishjálm yfir önnur lið á Englandi á þessum tíma og því við ramman reip að draga.

„Og Ian Rush verður að skora fyrir Liverpool!” bætti Eiríkur við. Enn ákveðnari.

Þú meinar, sagði ég.

Hvað átti hann við með því? Jú, þegar þarna var komið sögu hafði Liverpool aldrei tapað leik þegar Rush var á skotskónum. Eins og alþjóð veit þá var Rush markavél af dýrari gerðinni og við erum því að tala um hvorki fleiri né færri en 144 leiki. Takk fyrir, túkall.

Allbrattur er hann Eiríkur, hugsaði ég með mér. Sjálfum þótti mér nóg að vonast eftir sigri Arsenal.

Eftir dansiballið gekk ég heim ásamt vinum mínum, Eiríki Árna Oddssyni og Sævari Árnasyni. Eiki var víðsfjarri því að vera að fara á límingunum út af téðum leik enda hélt hann með Manchester United en Sævar er á hinn bóginn gegnheill Púlari og var bjartsýnn. Eftir að við kvöddumst fyrir utan heimili hans í Langholtinu hrópaði hann á eftir mér, upp götuna: „Við sjáumst á Wembley!”

Þarna rak veruleikinn mér kinnhest, leikurinn var í raun og veru að bresta á. Ég hér um bil drukknaði í munnvatni mínu, eftirvæntingin var svo mikil, en náði þó að góla eitthvað misgáfulegt á móti. Það var áliðið og höfum við gert einhverjum íbúum hverfisins ónæði nota ég þetta tækifæri til að biðjast afsökunar.

Betra seint en aldrei.

Lítið var sofið um nóttina, ef eitthvað, og dagurinn fram að leik var ofboðslega lengi að líða. Á endanum kom þó að þessu og ég reif utan af enn einni vídjóspólunni, stakk henni í tækið og ýtti þéttingsfast á Rec.

Þetta var fallegur dagur í Lundúnum og höfðinginn sjálfur, Bjarni Fel, mættur í þularstofu á Laugaveginum til að lýsa af sinni alkunni snilld. Það er næsta víst. Liverpool byrjaði betur og á 23. mínútu komst liðið yfir. Og hver var þar að verki? Jú, jú, helvítið hann Ian Rush.

Jæja, þá er það búið, sagði ég stundarhátt í stofunni og fórnaði höndum. En þá varð mér hugsað til Eiríks Sigríðarsonar Jóhannssonar. Hm, er spá hans kannski að fara að rætast? Nei, varla.

Í stað þess að leggjast niður og deyja, eins og margur hefði gert við þessar aðstæður, slógu mínir menn í klárinn og sjö mínútum síðar var leikurinn orðinn jafn. Charlie Nicholas, Kampavíns-Kalli, skoraði af harðfylgi. Ég sé kappann enn ljóslifandi fyrir mér spólandi í burtu með Tony Adams hangandi á sér, Arsenal-mann aldarinnar og allra alda, ef því er að skipta.

Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en vatnaskil urðu á 73. mínútu þegar hinn sprettharði Perry Groves leysti Njál Quinn af hólmi í framlínu Arsenal. „Mikill baráttujaxl, Groves,” hefur Bjarni Fel pottþétt sagt, „enda rauðhærður!”

Og viti menn. Tíu mínútum síðar reif Grovesarinn sig lausan á vinstri kantinum, óð í átt að marki, þar sem hann færði Kampavíns-Kalla tuðruna á silfurfati og partíljónið fræga skoraði öðru sinni, með viðkomu í Ronnie Whelan, sem sló Bruce Grobbelaar gjörsamlega út af laginu. Arsenal 2 – Liverpool 1.

Ykkar einlægur hékk á sófabrúninni það sem eftir lifði leiks – sem var heil eilífð, að manni fannst. Liverpool óð með öll tiltæk vopn, eldhúsvaskinn og allt draslið, í vörn Arsenal en hún hélt út og bikarinn var okkar.

Ég hoppaði að vonum og skoppaði um stofuna og steig æðisgenginn stríðsdans við blómasúluna. Muniði ekki eftir blómasúlunum? Þær voru mjög móðins í áttunni. Þegar ég loksins lenti varð mér hugsað til Eiríks Sigríðarsonar Jóhannssonar. Hvurslax eiginlega ofboðslega velþóknun hefur almættið á honum? Hann henti fram tveimur óskum, báðum langsóttum. Er hann kannski Nostradamus endurfæddur?

En eftir þetta hef ég aldrei furðað mig á vegtyllum Eiríks í þessu lífi. Ég meina, hver vill ekki ráða mann með slíkt innsæi í vinnu?

Sigurinn var einstaklega ljúfur enda var þetta fyrsti bikarinn sem ég hafði séð Arsenal lyfta í beinni útsendingu í sjónvarpi. Ég man vel eftir næsta titli á undan, FA-bikarnum 1979, en þá voru beinar útsendingar frá ensku knattspyrnunni ekki hafnar á Íslandi. Maður sá leikinn bara viku seinna. En var samt bullandi stressaður. Kannski misrituðust úrslitin í Mogganum?!

Einn maður var eftir úr 1979-liðinu, Írinn David O’Leary, sem síðar átti eftir að verða leikjahæsti maður Arsenal frá upphafi með 722 leiki. Dyggur þjónn, Davíð ólærði, eins og gárungarnir fyrir norðan kölluðu hann og settu þar með í andhverfulegt samhengi við sjálfan Arngrím lærða.

Það var hvorki O’Leary né Tony Adams sem reif bikarinn upp þetta dásamlega síðdegi, heldur vinstri-bakvörðurinn Kenny Sansom, sem var fyrirliði Arsenal á þessum tíma. Frábær leikmaður sem átti aldeilis eftir að súpa þær fjörurnar síðar. Eftir að hann lagði takkaskóna á hilluna læsti Bakkus klónum í Kenny karlinn og hann var um tíma heimilislaus. Síðustu fregnir af honum voru heldur ekki góðar, hann greindist með Wernicke-Korsakoff-heilkennið árið 2020, sem er afbrigði heilabilunar. Þá ekki nema rúmlega sextugur.

Liverpool og Ian Rush varð ofboðslega um þennan ósigur. Aðeins sex dögum seinna kom Rush Rauða hernum yfir í deildarleik gegn Norwich City en þeir gulgrænu svöruðu í tvígang og unnu 2:1. Eldingunni laust sumsé niður tvisvar í sömu vikunni.

Mér er ekki kunnugt um hvort Eiríkur Sigríðarson Jóhannsson sá það fyrir.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Bergfuran við Aðalstræti 44

Sigurður Arnarson skrifar
20. ágúst 2025 | kl. 23:00

Eyrarland, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
19. ágúst 2025 | kl. 10:00

Strandir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. ágúst 2025 | kl. 11:30

Í hita leiksins

Jóhann Árelíuz skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 14:00

Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns

Rakel Hinriksdóttir skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 12:00

Gervisáli

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 18:00