Fara í efni
Pistlar

Stirðastur í mannkynssögunni?

ORRABLÓT - 50

„Hvað ertu að gera?“ spurði einn félaginn í bumbuboltanum um daginn og beindi orðum sínum til mín.

Ha, hvað áttu við? spurði ég á móti, undrandi.

„Strákar, sjáið þið hvað hann er að gera?“ var næsta spurning.

Fátt var um svör, þannig að ég var knúinn til að upplýsa málið sjálfur. Ég er að teygja, sagði ég í hálfum hljóðum.

„Kallarðu þetta að teygja?“ sagði þá málshefjandi og hló digrum karlahlátri.

Óhætt að fullyrða að þetta sé ekki manns dagur, þegar maður nær sér ekki einu sinni á strik í teygjuæfingunum eftir leik!

Þessi þruma kom svo sem ekkert úr heiðskíru lofti. Ég hef alla tíð verið alveg ofboðslega stirður. Síst hefur dregið úr því með aldrinum, þannig að ég get alveg ímyndað mér að það valdi mönnum heilabrotum og jafnvel kátínu að sjá mig stunda almennar teygjuæfingar.

Leikfimiskennararnir mínir í Glerárskóla í gamla daga, Tómas Lárus Vilbergsson og Valþór Þorgeirsson, klóruðu sér alltént duglega í höfðinu yfir þessu. Störðu á mig eins og naut á nývirki þegar ég reyndi að teygja mig og vildu ólmir senda mig í rannsóknir til færustu vísindamanna. Þessi stirðleiki hlyti að vera einsdæmi í Íslandssögunni, ef ekki hreinlega mannkynssögunni.

Ekki fékkst þó fjárveiting til þess hjá Vilberg Alexanderssyni skólastjóra. „Látið ekki svona við drenginn. Hann verður ef til vill aldrei fimleikastjarna en hann hlýtur samt að hafa einhverja aðra eiginleika til að bera?“ sagði hann við Valþór og Lalla. Þar með var það útrætt.

Sonur minn erfði þessi stirðleikagen en hefur unnið markvisst í málinu gegnum jóga og er allur að mýkjast upp. Hann hefur hvatt mig til að gera slíkt hið sama en ég ekki komið því í verk. Veit satt best að segja ekki hvernig líkaminn tæki í það, svona á gamalsaldri.

Einar Logi Vignisson, auglýsingastjóri RÚV og boltafélagi til áratuga, hefur ráðlagt mér að auka fjölbreytnina í hreyfingu minni og skella mér til dæmis í badminton með fótboltanum. Það hefur víst svínvirkað fyrir hann. Ég veit það ekki. Badminton er að ég held alveg ábyggilega ekki íþrótt fyrir mig. Er það ekki svolítið eins og að byrja að hlusta á kántrítónlist?

Einar Logi hefur líka hvatt mig eindregið til að sækja tíma hjá einhverju fyrirbrigði sem hann kallar kírópraktor. Það þykist ég ekki heyra enda skil ég ekki einu sinni orðið, hvað þá fyrir hvað það stendur.

Enda þótt maður sé stirður er nauðsynlegt að teygja vel á líkamanum eftir æfingar; það lærði ég strax í yngri flokkunum hjá Þór. Árni Jakob Stefánsson, fyrsti fótboltaþjálfarinn minn þar, lét okkur strákana fetta okkur og bretta, samkvæmt kúnstarinnar reglum, eftir allar æfingar.

Markakóngurinn mikli Óli Þór Magnússon var á þessum tíma genginn til liðs við Þór frá Keflavík og Árni sagði okkur miklar hryllingssögur af uppeldi hans. Óli Þór hafði víst ekki framkvæmt eina einustu teygjuæfingu áður en hann kom norður og rak í rogastans þegar Árni sjálfur, Nói Björnsson og þessar kempur byrjuðu að teygja sig, sveigja og beygja eftir fyrstu æfinguna. „Hvað eruð þið að gera, piltar?“ spurði Keflvíkingurinn gáttaður.

Síðan dró Árni hendurnar lítið eitt í sundur, eins og hann væri að sýna okkur minnsta silung sem nokkru sinni hafði komið upp úr Eyjafjarðará. „Svona eru kálfvöðvarnir á Óla Þór.“

Ég veit ekki hvað aumingja Óli Þór hefur haldið næst þegar hann varð á vegi okkar strákanna; við störðum auðvitað á hann eins og hann væri eitt af undrum veraldar.

Það tognaði víst vel úr kálfunum þarna um sumarið og Óli Þór sneri aftur suður um haustið, 10 sentimetrum lengri.

Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég byrjaði að stunda teygjuæfingar. Fyrstu leikfimistímana sótti ég í Lundarskóla og í minningunni var leikinn brennibolti í hverjum tíma og svo jakahlaup í síðasta tímanum fyrir jól og síðasta tímanum fyrir sumarfrí. Við krakkarnir hlökkuðum til þess mánuðum saman. Ég minnist þess hvorki að teygt hafi verið eftir brenniboltann né jakahlaupið.

Baðvörðurinn í Lundarskóla situr mér djúpt í minni. Hann var brúnaþungur og rak óspart á eftir okkur strákunum í steypibaðinu. Við vorum logandi hræddir við hann og rukum oftar en ekki undan sturtunni áður en bunann skall á okkur. Til að eiga hann síður á fæti vegna tafa.

Halldór Sigurðsson og Helgi Jóhannsson kenndu mér leikfimi á Þelamörk og kunnu báðir sitt fag. Helgi var sérstaklega metnaðarfullur og hvatti mig óspart til dáða eftir að hann áttaði sig á því að allar greinar sem kölluðu á liðleika áttu afbrigðilega illa við mig.

Einu sinni kom sérfræðingur að sunnan til að dæma okkur í leikfimi og gaf mér ekki nema 7. Það var skellur fyrir strák sem þóttist vera býsna spartveskur og varði meira og minna öllum sínum stundum í fótbolta. „Hvaða, hvaða?“ sagði Helgi hughreystandi. „7 er fín einkunn og aldeilis hægt að byggja á henni. Þú hefðir alveg getað fengið 6 og jafnvel 5. Þú skalt vera hæstánægður með þetta.“

Já, það er alveg leið til að líta á málið.

Leikfimistímarnir í Glerárskóla voru fjölbreyttari enda höfðu Lalli og Valþór heilt íþróttahús til umráða en ekki bara lítinn fjölnota sal eins og á Þelamörk. Þar vorum við ungmennin látin gera allskyns kúnstir.

Einn tíminn er mér sérstaklega minnisstæður. Þá voru útihlaup og við áttum að reyna að hlaupa eins marga Skarðshlíðarhringi og við gátum. Iss, ekkert mál, hugsaði ég með mér enda alvanur að hlaupa þennan hring á vetraræfingum með Þór. Rúnar Friðriksson, vinur minn og bekkjarbróðir, vildi hlaupa með mér og ég glotti við tönn. Þú veist að ég er að æfa fótbolta, er það ekki? spurði ég til öryggis. „Já, já, ég veit allt um það,“ svaraði Rúnar, sem sjálfur æfði ekki neitt en var mikið í hestum. Síðar átti kappinn raunar eftir að verða vel frambærilegur í kraftlyftingum.

Við hlupum af stað. Fyrst einn hring, býsna léttilega, og svo annan. Þá var ég farinn að erfiða aðeins og dró mig í hlé en Rúnar blés af einhverjum ástæðum ekki úr nös og hljóp áfram. Fyrst þriðja hringinn og svo þann fjórða. Ruddalega vandræðalegt fyrir mig. Mikið kamelljón, Rúnar, og sennilega hefur hann bara ímyndað sér þennan dag að hann væri hestur.

Við félagar hlupum aldrei saman aftur.

Bryndís Þorvaldsdóttir, sú indæla kona, kenndi mér fyrst leikfimi í MA og ég sé hana alltaf fyrir mér í úlpu. Það bendir til þess að mikið kapp hafi verið lagt á útihlaup í tímunum. Maður var síhlaupandi á þessum árum.

Leikfimin var á víxl í Íþróttahöllinni og Fjósinu, gamla leikfimishúsinu á MA-lóðinni. Talsverður aðstöðumunur á þessu tvennu. Svo teygði leikfimin auðvitað anga sína inn á Söngsal, það er heimaleikfimin.


Heimaleikfimi er heilsubót,

hressir mann upp og gerir mann stífan
hvort sem að undir er gras eða grjót,
gólfteppi, eldhúsborð, stóll eða dívan.

 


Þröstur Guðjónsson tók við okkur seinni tvö árin og á vorönn í þriðja bekk man ég að hann setti upp mjög metnaðarfullt boltaplan. Bara boltaíþróttir fram á vorið. „Jibbí,“ göluðum við í kór, eins og Desmond Tutu.

Byrjað var á blaki, svo meira blaki og svo enn meira blaki. „Spörri, förum við ekki að hætta þessu blakrugli og snúa okkur að alvöru íþróttum eins og fótbolta eða handbolta?“ spurðum við strákarnir óþolinmóðir. „Jú, í næstu viku,“ lofaði Þröstur.

En bamm. Þá skall á verkfall – sem stóð vikum, ef ekki hreinlega mánuðum saman. Og lengra komumst við ekki með áætlunina í leikfiminni.

Mér hefur verið frekar illa við blak allar götur síðan. Nema þá að sá mikli meistari Sigurbjörn Árni Arngrímsson sé að lýsa í sjónvarpinu.

Eftir lýsingar hans er brýn þörf á teygjuæfingum – meðal hlustenda.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Eyrarrokk – Uppáhalds helgin

Ólafur Torfason skrifar
07. október 2025 | kl. 18:00

Frumbyggjar Vopnafjarðar

Jóhann Árelíuz skrifar
05. október 2025 | kl. 11:30

Þegar maður flýgur of hátt

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
04. október 2025 | kl. 06:00

Saga elris

Sigurður Arnarson skrifar
01. október 2025 | kl. 10:00

Fretur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. september 2025 | kl. 11:30

Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. september 2025 | kl. 09:00