Fara í efni
Pistlar

Njósnir í skólastofunni

Kannski er ég búinn að lesa yfir mig af glæpasögum en einhvern veginn finnst mér eins og kennarastarfið hafi síðustu ár þróast æ meira yfir í löggu- og bófahasar þar sem kennarinn þarf að setja sig í spæjarahlutverkið og reyna að fletta ofan af meintum misyndismönnum. Inntakið fer að snúast um glæp og refsingu en minna um uppfræðslu, hvatningu og leiðsögn. Í dag er staðan svo orðin þannig að pólarnir tveir, kennarinn og nemandinn, eru komnir í harðsnúið hernaðarbrölt með nýjustu vopnum gervigreindar og hvað verður þá um hina eftirsóknarverðu gagnvirkni í tímum og gefandi samveru? Og hvað verður um nám nemenda?

Ojæja, enn finnst mér gaman að kenna eftir ríflega 30 ár í starfi en vissulega breytast hlutirnir hratt. Maður reynir að fylgjast með og aðlaga sig öllum tæknibreytingum, nýjasta kennsluumhverfinu, forritunum og hvers kyns tólum og tækjum. Við höfum prófað að hagnýta samfélagsmiðla, leyfa nemendum að gera hlaðvörp, myndbönd, tímarit, leikþætti, söngleiki og annað skemmtilegt með áherslu á sköpun og gagnrýna hugsun. Auðvitað ganga hlutirnir misjafnlega en þó yfirleitt vel en... svo sprakk gervigreindin framan í okkur.

Flestir kannast nú við það að nemendur skili ritgerðum sem afi þeirra hefur skrifað, mamma þeirra las aðeins of vel yfir eða verkið var hreinlega fengið „að láni“ hjá öðrum nemanda, jafnvel frá fyrra ári. Í heimildaritgerðum hefur svo stundum borið við að texti er tekinn orðréttur eða of lítið breyttur inn án þess að geta heimilda og hafa jafnvel doktorsnemar og virtir fræðimenn brennt sig á þessu þannig að framhaldsskólanemum er nokkur vorkunn.

Já, kennarar hafa ávallt haft í mörg horn að líta en tæknin léttir undir með þeim að einhverju leyti. Nemendur skila verkefnum oft í sérstakt skilahólf í tölvu sem jafnframt er gagnabanki og reiknar strax út líkindi við verk sem áður hefur verið skilað. Þetta hefur reynst býsna vel í njósnastarfseminni en engu að síður þarf kennarinn iðulega að rýna í þær heimildir sem nemandinn hefur notað til að glöggva sig á vinnubrögðunum og kostar það ansi mikla uppflettivinnu.

Jæja, þá er komið að kjarna málsins. Njósnum í æðra veldi með útbreiðslu gervigreindar. Hvernig getum við séð hvort textinn sem nemandinn skilar kemur frá gervigreind? Þetta er eitt viðfangsefnið í námskeiði sem ég er að þræla mér í gegnum. Jú, með því að renna textanum gegnum sérstakt forrit er hægt að fá úr því skorið. Hvað gera nemendur þá? Jú, þeir setja texta gervigreindarinnar inn í annað forrit sem á að villa um fyrir forritinu sem kennarinn notar. Eða nemandinn fær textann á ensku úr gervigreindinni og rennir honum í gegnum þýðingarforrit og gerir smá lagfæringar og skilar svo í von um að blekkja forrit kennarans. Þannig gengur þessi leikur fram og til baka, keyrður áfram af tæknirisum og markmiðið er að skila verkefni sem hvorki kennarinn né forrit hans sjá í gegnum.

Ég veit ekki alveg hvað þetta á skylt við nám og kennslu en vissulega er dæmið nokkuð öfgakennt en þó satt. Áður voru þó ekki nema örfáir sem létu afa sinn skrifa ritgerð fyrir sig en mýmargir leita nú beint til gervigreindar við nánast öll stærri sem smærri úrlausnarefni. Talsmenn tækni og framfara eru auðvitað eins og fyrri daginn óþreytandi við að benda á tækifærin sem fylgja gervigreindinni en í mínum huga mega hin mannlegu samskipti, skapandi og gagnrýnin hugsun og uppgötvun einstaklinganna sjálfra ekki glatast. Við verðum að halda heilanum við með krefjandi og ögrandi verkefnum en ekki leggja allt traust á vélbúnað. Við erum menn, ekki maskínur.

Hvernig þetta mun þróast á eftir að koma í ljós en við lifum sannarlega á spennandi tímum. Vonandi þarf starf mitt ekki að snúast enn meira um njósnir og gagnnjósnir í skólastofunni. Vonandi kemur bara eitthvað gott út úr þessu. Það borgar sig að vera bjartsýnn.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri

Sístöðulaust óhljóð frá hjartanu

Orri Páll Ormarsson skrifar
02. maí 2025 | kl. 11:00

Blágreni

Sigurður Arnarson skrifar
30. apríl 2025 | kl. 16:30

Hús dagsins: Minjasafnskirkjan (Aðalstræti 56)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. apríl 2025 | kl. 13:45

Bravo

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. apríl 2025 | kl. 11:30

Pétur læknir

Jóhann Árelíuz skrifar
27. apríl 2025 | kl. 06:00

Bjóðum þjófa og slordóna velkomna

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. apríl 2025 | kl. 06:00