Núvitund á mannamáli
									HEILSA – 2
Við heyrum orðið oft: Núvitund. Orð sem einhverjir tengja við en aðrir halda ef til vill að hafi ekkert með sig að gera heldur einungis nýyrði sem höfði til fárra útvaldra. Núvitund er sannarlega ekki ný uppgötvun þó hún sé stundum kynnt sem töfralausn nútímans. Í núvitundinni býr djúp, gömul og einföld viska og staðreyndin er sú að núvitund getur breytt lífinu til hins betra fyrir alla sem tileinka sér hana.
Að vera til staðar í stað þess að vera á sjálfstýringu
Núvitund er í grunninn hæfileikinn að vera meðvituð um það sem er að gerast hér og nú, án þess að dæma það. Að taka eftir því sem er – líkamlega, andlega og tilfinningalega – með opnum hug og forvitni. Hún er í raun það sem við öll þekkjum – að vera til staðar.
Í daglegu lífi getur það að vera til staðar reynst krefjandi og oft missum við tenginguna við okkur sjálf. Við erum svo vön því að vera á hlaupum. Að vera „í gangi“ allan daginn. Krafan á athygli okkar er mikil og við dreifum henni víða. Sjálfstýringin tekur völdin. Hugurinn á einum stað og líkaminn á öðrum. En einmitt með því að snúa aftur til þess sem er að gerast hér og nú, tökum við um stjórnartaumana um leið og við aukum eigin vellíðan.
Núvitundin hjálpar okkur að staldra við. Að taka eftir. Að beina athyglinni að því sem er að gerast akkúrat núna. Ekki því sem fór úrskeiðis í gær. Ekki því sem við höldum geti gerst á morgun – heldur þessu eina augnabliki. Að vera með okkur sjálfum – hugur og líkami á sama stað, á sama tíma. Að taka eftir eigin andardrætti. Að finna fyrir líðan í líkamanum. Að hlusta eftir sjálfstalinu þá stundina. Og að gera þetta – án þess að dæma það sem við upplifum.
Þegar við æfum okkur í þessu, smám saman og án pressu, þá byrjar eitthvað að breytast. Við upplifum aukið jafnvægi og innri ró. Við verðum næmari á eigin þarfir. Við bregðumst síður við af vana eða festumst í hjólförum sem okkur líkar ekki. Með meðvitaðri ástundun núvitundar getum við meðal annars minnkað streitu, aukið einbeitingu, bætt svefn, eflt sjálfsþekkingu, byggt upp seiglu og bætt samband okkar við okkur sjálf og aðra.
Njótum litlu augnablikanna
Núvitund getur birst á svo marga vegu. Fyrir suma er það að ganga úti í náttúrunni og taka eftir fegurðinni í kringum sig. Hafa fulla athygli á morgunbollanum, finna hitann, ilminn, bragðið. Eða finna hvernig líkaminn hreyfist við hvern andardrátt. Litlu dýrmætu stundirnar sem hægt er að finna hvar og hvenær sem er. Stundum þarf ekki nema örstutt augnablik – að anda djúpt inn og út og taka eftir tilfinningunni sem því fylgir í líkamanum.
„Núvitundarvöðvar“
Núvitund er einnig hægt að þjálfa á skipulagðan máta með því að gefa okkur stund í ró og næði og hlusta á æfingar sem finna má víða á netinu. Einfaldar æfingar sem við endurtökum reglulega geta orðið lykillinn að því að upplifa meiri innri ró og dýpri tengingu við okkur sjálf sem og aðra. Líkt og vöðvi sem við þjálfum, byrjum við smátt og aukum svo við. Það er þessi tenging við stund og stað sem færir okkur nær sjálfum okkur og styður okkur í að velja næstu skref með meiri meðvitund og aukinni vellíðan.
Þegar við gefum okkur leyfi til að staldra við, hlusta inn á við og mæta okkur sjálfum af mildi, þá gerum við eitthvað stórt í litlum skrefum. Það er í þessu rými sem núvitundin blómstrar. Þetta þarf ekki að vera flókið og þetta krefst ekki fullkomnunar. Mestu máli skiptir að bara byrja.
Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir er heilsuráðgjafi og núvitundarkennari og önnur eigenda Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar. Pistlar hennar og Guðrúnar Arngrímsdóttur birtast annan hvern þriðjudag á akureyri.net.
			
			
			
			Losnaði aldrei við höfuðverkinn
			
			Vorboðinn ljúfi
			
			Tár
			
			Hús dagsins: Aðalstræti 2