Jóhann Árelíuz skrifar
02. nóvember 2025 | kl. 06:00
EYRARPÚKINN - 63
Sumarið sextíu skein sólin á salthvít bein búrhvelanna sem villst höfðu á land á Sandinum.
Á Miðhúsum skein sólin eins og túkall í fimmaurastikki yfir gresjum Sveins og Ebba og gyllti fuglaparadísina á Sandinum svarta.
Á Miðhúsum príluðum við Grelli Kjartans í klettunum neðan við bæinn og þóttumst góðir að drekkja ekki bröndóttum ketti Torfhildar móðursystur minnar í fjöruborði.
Þó húsnæðið væri lítið hjá Hillu rúmuðust allir í stofunni og ekki voru kvöldin síst þegar ég hallaði mér sveittur fyrir framan Lillu frænku sem var þrettán ára og kreisti mig stríðnislega.
Úti blágræn nóttin.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Á Miðhúsum er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.