Fara í efni
Pistlar

Helstu elritegundir

TRÉ VIKUNNAR - 141

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Á Íslandi vaxa nokkrar tegundir af ættkvíslinni Alnus sem á íslensku kallast elriættkvísl. Í fyrri pistlum okkar um ættkvíslina sögðum við frá því að elri og birki er af sömu ætt og tilheyra mjög skyldum ættkvíslum. Jafnvel svo mjög að elrið er talið hafa þróast frá einni grein birkiættkvíslarinnar. Í þeim pistlum sögðum við frá hinu og þessu um elriættkvíslina en í þessum þriðja pistli okkar um elri reynum við að setja fram yfirlit yfir helstu tegundir og hópa innan ættkvíslarinnar. Auðvitað leggjum við áherslu á þær tegundir sem finna má á landinu en fáeinar aðrar eru nefndar á nafn. Seinna munum við svo birta sérstaka pistla um sumar þessara tegunda.
 
Ungt elri af tegundinni Alnus glutinosa þremur árum eftir að því var plantað sem bakkaplöntu í Hellisskógi í Árnessýslu. Þar hefur Skógræktarfélag Selfoss ræktað fjölbreyttan skóg. Í skóginum má meðal annars finna átta metra hátt tré af þessari tegund. Tegundin er ýmist nefnd svartelri eða rauðelri á íslensku. Mynd og upplýsingar: Örn Óskarsson.
Ungt elri af tegundinni Alnus glutinosa þremur árum eftir að því var plantað sem bakkaplöntu í Hellisskógi í Árnessýslu. Þar hefur Skógræktarfélag Selfoss ræktað fjölbreyttan skóg. Í skóginum má meðal annars finna átta metra hátt tré af þessari tegund. Tegundin er ýmist nefnd svartelri eða rauðelri á íslensku. Mynd og upplýsingar: Örn Óskarsson.

Fjöldi tegunda

Í heiminum eru til nokkrir tugir elritegunda en heimildum ber illa saman um fjöldann. Þrátt fyrir að þessar tegundir hafi lítt verið notaðar í skóg- og garðrækt á Íslandi má segja að hérlendis séu ræktaðar einar átta tegundir og undirtegundir þótt fleiri séu til hjá söfnurum og í grasagörðum ef vel er gáð. Þetta er samt ekki alveg ljóst því miklar breytingar hafa verið gerðar í flokkun elris með aðstoð erfðafræðinnar á undanförnum árum. Ekki eru allir sammála um hvar mörk tegunda liggja og því er ógjörningur að setja fram einhverja ákveðna tölu um nákvæman fjölda. Þó liggur fyrir að þessar rannsóknir hafa orðið til þess að tegundum hefur fækkað töluvert. Það sem áður voru álitnar sérstakar tegundir flokkast nú sem undirtegundir. Samkvæmt World Flora Online eru nú viðurkenndar 44 tegundir innan ættkvíslarinnar auk undirtegunda og blendinga. Það er ekki verri tala en hver önnur.

 
Ryðelri, Alnus rubra, í mjög rýru landi í Skotlandi. Mörgum þykir tegundin heppileg landgræðsluplanta í skoskum fjöllum þar sem hún myndar fræ hærra í landinu en eina innlenda tegundin sem þar vex og kallast A. glutinosa. Ekki er full eining um íslenska heitið á þeirri tegund. Mynd og upplýsingar: Ronald Greer.
Ryðelri, Alnus rubra, í mjög rýru landi í Skotlandi. Mörgum þykir tegundin heppileg landgræðsluplanta í skoskum fjöllum þar sem hún myndar fræ hærra í landinu en eina innlenda tegundin sem þar vex og kallast A. glutinosa. Ekki er full eining um íslenska heitið á þeirri tegund. Mynd og upplýsingar: Ronald Greer.

Samkvæmt Trees and Shrubs Online eru margar elritegundir ræktaðar í heiminum. Tegundin Alnus cremastogyne, sem ekki á sér neitt íslenskt heiti, er ræktuð á samtals 1,5 milljónum hektara í Jangtse-dalnum í Kína. Þar með er sú tegund að líkindum mest ræktaða tegundin af öllu elri. Í Evrópu eru þrjár tegundir mest ræktaðar samkvæmt sömu heimild. Tvær þeirra vaxa villtar í Evrópu og heita gráelri, A. incana, og svo tegund sem ýmist er kölluð rauðelri eða svartelri, A. glutinosa. Sú þriðja er amerísk og kallast ryðelri, A. rubra. Þessar þrjár tegundir vaxa allar á Íslandi og um þær er fjallað hér neðar. Allar verðskulda þær sérstaka pistla. Til eru fleiri tegundir sem ræktaðar eru í minna mæli í Evrópu. Verða sumar þeirra nefndar hér á eftir.

Alnus glutinosa við litla á eða læk í bænum Glenfarg í Skotlandi. Mynd: Sig.A.
Alnus glutinosa við litla á eða læk í bænum Glenfarg í Skotlandi. Mynd: Sig.A.

Elri á Íslandi

Þeim tegundum ættkvíslarinnar sem finnast á Íslandi má í grófum dráttum skipta í tvær gerðir eða tvo meginhópa. Nánast alls staðar þar sem elri vex á annað borð í villtri náttúru og loftslagi svipar til þess er finna má á Íslandi má finna þessar tvær gerðir. Þær vaxa þó ekkert endilega saman og sums staðar vantar annan hópinn. Þetta eru annars vegar runnamyndandi tegundir og hins vegar trjátegundir. Í hlýrra loftslagi vantar lágvaxnari gerðina. Nokkuð langt virðist vera á milli þessara hópa í þróunarsögunni þótt ættkvíslin sé ekki talin mjög gömul. Báðir hóparnir geta bundið mikið nitur með hjálp rótarhnýðisgerla eins og við sögðum frá í fyrri pistlum. 

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Veldu þinn takt á aðventunni

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
02. desember 2025 | kl. 06:00

Hversdagshetjur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 09:00

Fjalla-Bensi

Jóhann Árelíuz skrifar
30. nóvember 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 42

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. nóvember 2025 | kl. 06:00

Úrillt og ráðvillt trippastóð

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. nóvember 2025 | kl. 10:00

Strandrauðviður

Sigurður Arnarson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 20:00