Fara í efni
Pistlar

Hvernig koma á Skoda upp brekku

ORRABLÓT - 40

Ár skal rísasá er á yrkjendur fáaog ganga síns verka á vit.Margt um dvelurþann er um morgun sefur.Hálfur er auður und hvötum.
Þessi speki úr Hávamálum hékk yfir lokrekkju afa míns, Snæbjörns Sigurðssonar á Grund. Þá var hann að vísu orðinn gamall maður og veikur og kraftar á þrotum en löngu búinn að búa svo um hnúta að niðjar hans færu eftir þessu líka, eins og hann hafði gert alla sína tíð.

Mér var með öðrum orðum ungum kennt að lífið snerist um vinnu og að aldrei væri of snemmt að ganga „síns verka á vit.“ Þannig lærði ég að keyra dráttarvél áður en mér var kennt að lesa. En þið segið auðvitað ekki nokkrum lifandi manni frá því. Né dauðum.
 

Meira mæddi þó á frændsystkinum mínum, Þórði, Svandís og Snorra Sturlubörnum, enda eru þau aðeins eldri en ég og bjuggu á Grund ásamt foreldrum sínum en ég var þar bara með annan fótinn. Oftar en ekki var leikur okkar stöðvaður svo við gætum farið að vinna; snúa heyi, safna saman böggum, moka flórinn eða huga að blessuðum skepnunum. Og ekkert þýddi að malda í móinn enda kom vinnan fyrst, leikurinn svo.

Ekki svo að skilja að þetta hafi verið einhverjar þrælabúðir, því fór víðsfjarri og mörg af þessum verkum voru bara ljómandi skemmtileg. Eins og að setja niður og taka upp kartöflur sem ég tók þátt í svo árum skipti, löngu áður en ég fermdist. Kartöflugarðarnir voru í hlíðinni fyrir ofan Grund og til að komast þangað þurfti að aka upp ógurlegustu malarbrekku sem ég hef á ævinni kynnst. Svo ógurleg var hún að fylla þurfti húddið á Skodanum hans pabba af sandpokum í hvert skipti svo hann drifi alla leið upp. Eins og þið munið var vélin í skottinu á þeim ágætu bílum. Og hvað sagði skáldið:

Skodi ljótispýtir grjótiog drífur baraniður í móti!

Pabba tókst að afsanna það.

Manni leið eins og „stöntmanni“ í bíómynd í hvert sinn sem atlaga var gerð að brekkunni. Get ég ímyndað mér, ég hef aldrei gegnt því ágæta starfi.
 

Svo voru það hænurnar. Föðurbæður mínir bættu þeim um tíma við búskapinn á Grund og vorum við frændsystkinin látin ganga með eggin í hús á Akureyri og selja. Í því var uppgrip enda ævarandi eggjaskortur á þessum árum. Hvernig sem á því stóð.

Ég man alltaf hvað okkur Snorra brá svakalega þegar maður á miðjum aldri kom til dyra á náttslopp í blokkaríbúð í Borgarhlíðinni. Var þó síðdegi. Kom það okkur spánskt fyrir sjónir enda aldir upp við að klæða okkur snemma, jafnvel áður en við vorum vaknaðir. Eftir á að hyggja hefur líklega verið lágskýjað hjá aumingja manninum en til slíkra aðstæðna þekkti maður lítið á þessum aldri.
 
Bundinn var endi á þessa sveitasælu þegar fjölskylda mín seldi Grund, ætli ég hafi ekki verið 11 ára, og ég get varla sagt að ég hafi komið í fjós síðan. En það var ómetanlegt að kynnast bústörfunum og skepnunum sem barn og ég vona að ég hafi tekið eitthvað af því sem ég sá og lærði þar með mér út í lífið.
 
 
Ekkert fékkst fyrir vinnuna á Grund nema ánægjan. Fyrsta launaða vinnan sem ég var ráðinn í var unglingavinnan í Þorpinu, eða vinnuskólinn eins og það var kallað. Þetta var sumarið sem ég varð 13 ára.

Við krakkarnir mættum í Glerárskóla árla morguns í fáeinar vikur og unnum til hádegis. Mestmegnis við að reyta arfa í beðum og runnum sem töldust til sameignar bæjarbúa hér og þar í Þorpinu. Má ég þá frekar biðja um kartöflurnar!

Við fengum fínan flokksstjóra, Kötu, Katrínu Guðjónsdóttur, sem gift var Þorsteini Ólafssyni, fyrrverandi landsliðsmarkverði í knattspyrnu. Hún var hress og skemmtileg og gerði sitt besta til að hvetja okkur til dáða.

Ekki veitti víst af. Að krjúpa á hnjánum tímunum saman og reyta arfa er ekkert sérstaklega gefandi, í neinum skilningi þess orðs, og eina gleðin sem maður hafði upp úr þessu var þegar maður rakst á stöku ánamaðk. Allar götur síðan hefur mér verið hlýtt til ánamaðka.
 

Við fengum ekki einu sinni að hafa með okkur vasadiskó til að hlusta á tónlist og stytta okkur stundirnar; hlaðvörp voru ekki komin til sögunnar. Talin var yfirgnæfandi hætta á því að það truflaði vinnuna. Ekki svo að skilja að við höfum ekki fundið aðrar leiðir til þess!

Skásta djobbið var að komast á hjólbörurnar, þannig stóð maður alla vega uppréttur í vinnunni. Við skiptumst á þessu. Eitt skiptið sem mér var treyst fyrir þeirri miklu ábyrgð var eftirminnilegra en önnur. Ég hafði þá spólað fram að kaffi með hjólbörurnar ásamt öðrum manni, sem við skulum ekkert vera að nefna. Allir menn í þessum heimi eiga sér nefnilega mæður.

Alla vega. Í kaffinu lét sá ágæti maður sér ekki nægja að taka upp nesti, heldur gerði sér lítið fyrir og hleypti úr dekkinu á hjólbörunum.
Hvers vegna ertu að þessu? spurði ég gáttaður.

„Fattarðu það ekki, maður? Ef loftið er farið úr hjólbörunum eru engin verkefni fyrir okkur og við fáum að fara heim.“

Þessari spá fylgdi hann eftir með breiðu og sjálfumglöðu glotti.

Kaffitíminn leið og þegar Kata kom aftur benti hann henni auðmjúklega á að allt loft væri úr börunum og ekkert annað í stöðunni fyrir okkur tvo en að fara heim. „Heim?“ hváði Kata. „Þið farið sko ekkert heim. Inn í runna með ykkur að reyta arfa með hinum!“

Ég talaði ekki við þennan vinnufélaga minn lengi á eftir!

Þetta varð eina sumarið mitt í vinnuskólanum, ég lagði allt kapp á að komast í aðra vinnu sumarið eftir.
 

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

3+30+300

Sigurður Arnarson skrifar
14. maí 2025 | kl. 09:20

Export

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
12. maí 2025 | kl. 11:30

Með hæla í rassi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 62

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Örlítið brot frá unglingsárum

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. maí 2025 | kl. 06:00

Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

Sigurður Arnarson skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:45