Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Lundargata 15

Snemma sumars árið 1998 var sá sem þetta ritar á meðal þátttakenda í sögugöngu um Oddeyri. Hafandi árið áður komist í bókina um Oddeyri og drukkið í sig fróðleikinn um byggingarár húsanna og sögu þeirra en einnig rekist einhvers staðar á ævisögu Jóhannesar Jósefssonar á Borg. Þegar staldrað var við Lundargötu 15 fullyrti einn þátttakenda, roskinn maður, að Jóhannes á Borg væri fæddur í þessu húsi. Höfundi er það sérstaklega minnisstætt, hvað hann dauðlangaði til þess að koma því á framfæri, að þetta stæðist engan veginn, því Jóhannes var fæddur 1883 en húsið byggt 1898! En ákvað að láta það ógert; var fullviss um, að enginn þarna tæki mark á strák sem var rétt að verða 13 ára; svona athugasemd yrði jafnvel álitin framhleypni og dónaskapur! (En þetta var nú ekki alveg út í hött hjá karlinum, því faðir téðs Jóhannesar byggði jú húsið).

Haustið 1898 afgreiddi Bygginganefnd Akureyrar umsókn Jósefs Jónssonar í Lundi um hús sem hann hugðist byggja. Ætlaði hann að byggja hús, 10 álna (6,3m) langt og 8-9 álnir (u.þ.b 5,5m) á grunnfleti. Bygginganefnd ákvað hins vegar að fresta þessari ákvörðun þar til fyrir lægi uppdráttur. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hvort sá uppdráttur hefur borist og hvað þá, að hann hafi varðveist. Hver gerði umræddan uppdrátt liggur heldur ekki fyrir, en höfundi þykir freistandi að giska á, að Snorri Jónsson, sérlegur húsasmíðameistari Oddeyrar á þessum árum, hafi verið þar að verki. En húsið reisti Jósef og fjórum árum síðar, 16. júní 1902, var honum leyft að lengja það um 6 álnir (3,7m) til norðurs. Í upphafi var húsið ein hæð og hátt ris.

Lundargata 15 er tvílyft timburhús með lágu risi og stendur á háum steyptum kjallara. Veggir eru klæddir steinblikki, bárujárn á þaki og þverpóstar í flestum gluggum, tvískiptir efri póstar á gluggum neðri hæðar. Undir rjáfri á suðurstafni er tígullaga smágluggi undir hanabjálka. Húsið mun 5,6x10,4m á grunnfleti.

Það er orðin viðtekin venja undirritaðs að segja örlítið frá húsbyggjendum, hvaðan þeir voru og hvað þeir störfuðu o.s.frv. Í tilfelli þeirra Jósefs Jónssonar frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi og Kristínar Einarsdóttur, er líklega nærtakast að gefa syni þeirra, Jóhannesi, orðið. Kristín var „komin austan úr Þingeyjarsýslu og átti uppruna á Geirþjófsstöðum og Sandi, komin af harðduglegu myndarfólki, en fátæku“ (Jóhannes Jósefsson 1964: 15). Jósef er öllu fyrirferðarmeiri í frásögn sonar hans: „Jósef faðir minn var Eyfirðingur í báðar ættir. [...] Faðir minn var hár maður og þrekinn og rammur að afli, en enginn áflogamaður þrátt fyrir óskaplegan geðofsa. Kristín kona hans var hins vegar „[...]þýðlynd kona og svo skapstillt í visku sinni að undrun sætti“ (Jóhannes Jósefsson 1964: 15). Jósef „[...]var talinn duglegasti verkamaður við Eyjafjörð. Við slátt var hann meira en tveggja manna maki og var ávallt goldið tvöfalt kaup. Í grjótvinnu fór hann hamförum og var svo laginn að honum nýttist þetta heljarafl sitt margfaldlega„ (Jóhannes Jósefsson 1964: 15). Var Jósef orðlagður fyrir dugnað og harðfylgi og svo mjög, að ekki þótti nema eðlilegt, að hann fengi tvöfalt kaup á við aðra í sömu störfum! Jósef gerðist síðar ökumaður eða keyrari, fyrstur manna við Eyjafjörð og ók þá ýmsum hlössum á vögnum; þetta var löngu fyrir bílaöld. Síðar hóf Jósef verslunarrekstur.

Jóhannes, sonur þeirra Jósefs og Kristínar, var auðvitað glímukappinn og athafnamaðurinn sem löngum var og er kenndur við Hótel Borg. Hann átti glæstan feril sem glímukappi, hvort tveggja sem íþróttamaður og sem skemmtikraftur í fjölleikahúsum. Hann mun hafa keppt fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikum, 25. júlí 1908 í London en hann var fyrirliði glímuliðs Íslendinga. Tveimur árum fyrr, í ársbyrjun 1906, stofnaði hann ásamt fleirum Ungmennafélag Akureyrar og fór sá stofnfundur einmitt fram á heimili hans hér í Lundargötu 15. Eftir áratuga feril sem glímukappi og skemmtikraftur byggði hann Hótel Borg í Reykjavík árið 1930 og rak það í röska þrjá áratugi. Sá sem þetta ritar mælir eindregið með ævisögu Jóhannesar, sem heitir einfaldlega Jóhannes á Borg og er skráð af Stefáni Jónssyni. Frásögn af ótrúlegu lífshlaupi hans er í senn skemmtileg, átakanleg en fyrst og fremst afar áhugaverð. Þá er hún með betri heimildum um mannlífið og samfélagið á Oddeyrinni um og fyrir aldamótin 1900 og hefur reynst greinarhöfundi mjög gagnlegt í húsasögugrúskinu. Bókin var gefin út af Ægisútgáfunni árið 1964 og er sjálfsagt að finna á flestum bókasöfnum eða fornbókabúðum. Ævisögu Jóhannesar mætti að ósekju endurprenta og gefa út. Kannski er tilefni sumarið 2023, þegar liðin verða 140 ár frá fæðingu hans. Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri til bókaútgefenda.

Í upphafi var húsið aðeins um ein hæð og hátt ris 6,3x5,6m eða um 35 fermetrar að grunnfleti en Jósep fékk að stækka það um 3,7m (6 álnir) til norðurs árið 1902, sem fyrr segir. Ef gluggað er í Manntal frá 1901 er hægt að ímynda sér, að sú þörf hafi verið nokkuð brýn, en þá eru búsettir í húsinu 16 manns! Jósef Jónsson stundaði auk ökumennskunnar, verslunarrekstur. Byggði hann verslunarhús, eitt það stærsta á Oddeyri fyrr og síðar, Turnhúsið við Strandgötu 7, árin 1905-06. Þangað fluttist fjölskyldan árið 1906 en Jósef átti Lundargötu 15 áfram og leigði húsið út. Árið 1907 eru þau hins vegar flutt aftur í Lundargötu, en hin nýreista, glæsta og turni prýdda höll Jósefs við Strandgötu, eyddist í Oddeyrarbrunanum haustið 1906. Árið 1917 var húsið brunabótavirt og þá sagt einlyft með porti og háu risi á kjallara. Á gólfi við framhlið 2 stofur og forstofa, við bakhlið stofa, eldhús og búr. Geymsla var á lofti og kjallara skipt í tvennt og tveir skorsteinar á húsinu. Mál hússins voru 10,4x5,6m, húsið 6,3m á hæð og því 22 gluggar. Þá stóð á baklóð gripahús, einlyft með porti og háu risi og „þiljað fyrir gripi o.fl.“ Gripahúsið er löngu horfið, hefur hugsanlega vikið fyrir húsinu Fróðasundi 4, sem byggt var 1943. Þá er Kristín, ekki Jósef, skráð eigandi hússins.

Það var hins vegar Jósef sem sótti um leyfi til þess að byggja hæð ofan á húsið. Var leyfið veitt með því skilyrði, „[...]að gamla húsið, að dómi fagfróðra manna, sé nægilega sterkt“ (Bygg.nefnd. Ak. nr. 571, 1925). Við þá framkvæmd, sem fram fór 1925-26, fékk húsið núverandi lag og ekki ósennilegt, að steinblikkið hafi verið sett á húsið um svipað leyti. Jósef og Kristín bjuggu hér til æviloka en Jósef lést 1927 en Kristín árið 1929. Hafa síðan fjölmargir búið í eða átt Lundargötu 15 og öllum auðnast að halda húsinu vel við. Síðustu áratugi hafa tvær íbúðir verið í húsinu.

Lundargata 15 er reisulegt hús og í góðri hirðu og til mikillar prýði. Sömu sögu er að segja af lóð. Húsið er hluti af götumynd Lundargötu, sem er að mestu skipuð smáum timburhúsum frá lokum 19. aldar. Brunar og ekki síst niðurrif hafa því miður höggvið stór skörð í þessa einu áhugaverðustu götu Oddeyrar en flest húsin sem enn standa eru í góðri hirðu og til prýði. Þegar Húsakönnun var unnin um Oddeyrina um 1990 fékk Lundargata 15 umsögnina „Húsið sem er látlaust og einfalt, fellur vel að götumynd og hefur varðveislugildi sem hluti af henni“. (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:60). Húsakönnun 2020 staðfestir þetta og metur varðveislugildi hússins hátt. Þá er húsið aldursfriðað þar eð það var orðið 114 ára þegar lög um aldursfriðun húsa 100 ára og eldri tóku gildi árið 2012. Myndin er tekin 24. febrúar 2019 en hér er einnig meðfylgjandi, til gamans, tilgátuteikning höfundar að útliti Lundargötu 15 á ýmsum tímum. Byggjast þær á ljósmyndum og lýsingum en fyrst og fremst getgátum höfundar út frá þeim upplýsingum.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 170, 26. sept. 1898. Fundur nr. 224, 16. júní 1902. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 571, 25. ágúst 1925. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30