Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Aðalstræti 4; Gamla apótekið

HÚS DAGSINS
 

Eitt helsta kennileiti elsta hluta Akureyrar, stendur á hólbrún neðst í norðanverðu Búðargili, ofan við hina eiginlegu Akureyri, sem mynduð er af framburði Búðarlækjar en er fyrir margt löngu horfin inn í síðari tíma uppfyllingar. Um er að ræða Aðalstræti 4, eða Gamla Apótekið. Í upphafi þessarar aldar kom þetta hús, sem byggt er upp úr miðri 19. öld, fyrir sjónir eins og smækkuð mynd af Stjórnarráðshúsinu en þá var það múrhúðað og hvítmálað, en líkt og á „Stjórnarráðinu“ er helsta sérkenni Gamla Apóteksins gaflsneiðingar og mikill miðjukvistur. Þessi ásýnd hússins heyrir þó sögunni til, en þar var um að ræða breytingu sem gerð var um miðja 20. öld, og kallað „forskalning“. Nú hefur húsið verið fært nær upprunalegu útliti og er sannkölluð bæjarprýði.

Aðalstræti 4, sem í upphafi var nefnt „92“ á „ Akureyri verzlunarstað “, í manntali árið 1860, reisti Jóhann Pétur Thorarensen árið 1859, en byggingarmeistari og hönnuður var Jón Christian Stephánsson. Tveimur árum fyrr hafði verið stofnsett á Akureyri, sem þá var raunar aðeins lítið þorp yst í Hrafnagilshreppi, bygginganefnd, og eins og lög gera röð fyrir, sótti Jóhann um byggingarleyfi til hennar. Það var þann 14. maí 1859 að nefndin bókaði svo:

Var þá fyrst framlagt brjef frá Apothekara J. Thorarensen, hvar hann óskar samþykkis nefndarinnar að mega byggja timburhús til íbúðar og apotheks á grunni sem hann á fyrir vestan Búðarlækinn fyrir sunnan hús G. Guttormssonar og á húsið að vera 24 álna langt og 14 álna breitt og snúa út og suður, austurhliðin að götunni fyrir austan lækinn. Nefndin álítur að þessari byggingu sje ekkert til fyrirstöðu af hálfu hins opinbera (Bygg.nefnd. Ak. 1859: nr.9). Umrætt hús G. Guttormssonar er hús, sem Gunnlaugur Guttormsson reisti árið 1850 og stendur enn, sem innsti kjarni Aðalstrætis 2. Af þessari bókun má ráða, að Búðarlækurinn hefur runnið til sjávar í nokkurs konar skurði milli brekkunnar og götunnar, þ.e.a.s. húsið stendur vestan lækjar en gatan er austan hans. Teikningar að húsinu gerði Jón Christian Stephánsson og hafa þær varðveist, eins og má sjá hér, á vef Héraðsskjalasafnsins. Aðeins er þó um útlitsteikningu að ræða, en þetta eru líklega elstu húsateikningar sem finna má af húsi sem enn stendur, á Akureyri (mögulega elstu akureyrsku húsateikningar, sem varðveist hafa yfirleitt, en um það þorir höfundur ekki að fullyrða).

Aðalstræti 4 er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, með portbyggðu háu, gaflsneiddu risþaki og miðjukvistum að framan og aftan. Á bakhlið eru einnig smærri kvistir, beggja vegna miðjukvists. Veggir eru klæddir listasúð og bárujárn á þaki, en sexrúðugluggar í flestum gluggum. Á framhlið eru tvær inngöngudyr með sex lituðum smárúðum yfir, rammaðar inn af þríhyrndum bjórum yfir. Samskonar dyraumbúnaður er einnig á suðurstafni. Á framhlið er verönd með renndum pílárum og á bakhlið er einnig dyrapallur út frá kvisti og tröppur upp að honum, allt úr timbri og þríhyrnt dyraskýli (risþak) yfir. Á framhlið er kringlóttur smágluggi undir rjáfri á kvisti en ferhyrndur, tvískiptur smágluggi á sams konar stað á bakhlið. Grunnflötur hússins mælist 15,20x8,93m, samkvæmt teikningum Stefáns Arnar Stefánssonar. Það rímar ágætlega við upprunaleg mál hússins, en 24 álnir eru eitthvað nærri 15,12m og 14 álnir um 8,82m (miðað við að alin sé 63 centimetrar).

Jóhann Pétur Thorarensen var fæddur í Reykjavík þann 6. maí 1830, sonur Odds Thorarensen og Sólveigar Bogadóttur Thorarensen. Oddur var sonur Stefáns Thorarensen, amtmanns á Möðruvöllum, fæddur þar árið 1797 og gerðist apótekari á Akureyri fyrstur manna árið 1821. Hann var búsettur í Reykjavík á 3. og 4. áratug 19. aldar og starfrækti þar lyfjabúðir en fluttist aftur til Akureyrar árið 1840, þar sem hann starfrækti apótekið til ársins 1857, að hann seldi Jóhanni, syni sínum reksturinn. Og ekki leið á löngu þar til Jóhann reisti undir apótekið, eitt stærsta hús bæjarins á sinni tíð, hús sem stóð þar að auki hærra en önnur hús bæjarins og á sérlega áberandi stað. Mætti ímynda sér, að húsið hafi nýreist verið ámóta kennileiti og Akureyrarkirkja varð tæplega öld síðar.

Þetta vor, 1859, vildi svo til, að til Akureyrar hafði flust ungur (30 ára) hagleiksmaður, Jón Christian Stephánsson. Hann hafði numið smíðar hjá Ólafi Briem á Grund en síðar lært húsgagnasmíði og skipasmíðar í Danmörku, auk skrautmálunar og ljósmyndunar (sbr. Guðjón Friðriksson 2017:218). Jón var undir miklum áhrifum frá danskri húsagerð og þótti rétt að lyfta akureyrskri húsagerð á nokkuð hærra plan og það jafnvel bókstaflega; lofthæð í húsi Jóhanns apótekara var umtalsvert meiri en tíðkast hafði í húsum kaupstaðarins og það stóð hærra en nærliggjandi hús. Húsið mun einnig hafa verið eitt það fyrsta á Akureyri, sem málað var ljóst í upphafi (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:38), en um miðja 19. öld voru hús að öllu jöfnu tjörguð. Skrautumbúnaður við glugga, tröppur, dyr og vindskeiðar, sem einkenndu húsið voru sannkölluð nýlunda, sem og veglegur dyrapallur. Þá var húsið umtalsvert rýmra að grunnfleti en tíðkast hafði og voldugir miðjukvistir voru næsta sjaldgæfir, ef ekki óþekktir, hér í bæ árið 1859. Nú kann einhver að benda á, að miðjukvistir finnast á eldri húsum en Apótekinu, en í flestum þeim tilfellum hefur þeim verið bætt við húsin síðar. Í Húsakönnun um Innbæinn árið 1986 segir svo: Það [Apótekið] var stærra en flest hús í bænum og fyrirmynd að lögun þess sótt til danskra steinhúsa enda hönnuður þess Jón [Chr.] Stefánsson, nýkominn frá námi í Danmörku. Apótekið var breiðara en önnur hús, með gaflsneiddu þaki og stórum miðjukvisti þvert yfir þakið. Miðjukvistir af slíku tagi átti síðar eftir að verða einkennandi fyrir ný hús og setja ákveðinn svip á bæina […] Apótek Jóns Stefánssonar var tímamótaverk í byggingarlist, ekki aðeins á Akureyri heldur alls landsins (Hjörleifur Stefánsson 1986:33).

Af Jóhanni Pétri Thorarensen lyfsala er það hins vegar að segja, að hann ól ekki manninn lengi í hinu nýja stórhýsi sínu, heldur fluttist af landi brott árið 1864. Hann virðist hafa haldið í nokkurs konar heimsreisu, því af honum fréttist í Vestur Indíum en loks festi hann yndi sitt í Ástralíu, fyrst í Melbourne og síðar Sidney, þar sem hann fékkst við fag sitt, lyfjasölu. Jóhann lést í Sidney árið 1911. Árið 1863, ári áður en Jóhann hélt af landi brott, fékk Amtsbókasafnið inni í húsi hans. Við brotthvarf Jóhanns tók Oddur faðir hans við húseigninni og leigði hana út. Þar dvöldu árið 1865 amtmannshjónin Pétur og Kristjana Hafstein, meðan lagfæringar fóru fram á amtmannshúsinu á Möðruvöllum. Á meðal barna þeirra var Hannes Hafstein, sem var fjögurra ára þegar þetta var. Amtmannsfjölskyldan hefur búið undir sama þaki og Amtsbókasafnið, því safnið var hér til húsa, líkast til ársins 1866, að safnið fluttist á heimili Friðbjarnar Steinssonar (Aðalstræti 46), sem þá tók við bókavörslunni.

Árið 1868 tók Daninn Pétur Henrik Johan Hansen við lyfjasölu á Akureyri og festi þá kaup á húsinu. Í hans tíð fékk nýstofnaður Barnaskóli Akureyrar inni í húsinu, árið 1871. Var skólinn til húsa í apótekinu þennan fyrsta vetur en veturinn á eftir fluttist skólahaldið á heimili kennarans, Jóhannesar Halldórssonar, sem vildi til, að var næsta hús norðan við (Aðalstræti 2). Hansen var orðlagður fyrir undarlega hætti, m.a. svefn- og matarvenjur, sérkennilegan talsmáta, vínhneigð en jafnframt mikla gestrisni og vingjarnlegheit. Indriði Einarsson segir svo frá: Jeg kom oft til Hansen apóthekara [1872], og tók hann mér tveimur höndum. Ef jeg var í bænum, þá var jeg oft boðinn þar til kvöldmatar kl. 8. Hann fór á fætur kl. 2 til 4 eftir hádegi … Hann borðaði aðeins einu sinni á dag, nefnilega kl. 8 e.h. og sat við borðið til kl. 2 um nóttina. Ávallt hafði hann nægt drykkjar með matnum, og ef við stóðum ekki upp fyrr en kl. 3 vildi hann helzt búa um mig á sófanum hjá sjer og láta mig sofa þar (Steindór Steindórsson (Indriði Einarsson) 1993:22). Að sofa langt fram yfir hádegi og sitja að borðum og drykk frá klukkan átta og fram eftir nóttu, hversdags, þykir líklega flestum sérstakt, nema e.t.v. í heimi ofurríkra og frægra stórstjarna. Við getum því rétt ímyndað okkur, hversu framandi þessir hættir danska apótekarans hafa þótt á ofanverðri 19. öld!

Hinn veisluglaði Hansen átti og rak lyfjabúðina í 18 ár, eða til ársins 1886, en þá tók við rekstrinum og húsinu Oddur Carl Thorarensen, bróðursonur Jóhanns Péturs, sem byggði húsið. Hansen átti þó áfram heima hér. Oddur var fæddur hér í bæ 23. júlí 1862, fimm vikum fyrir stofnun Akureyrarkaupstaðar. Hann var kvæntur Ölmu Clöru Margrete Schiöth, sem tók upp nafnið Thorarensen, sem fædd var í Kaupmannahöfn árið 1865. Árið 1890 búa þau hér í annarri íbúð hússins, ásamt nýfæddri dóttur, Olaviu Alvilde, lærisveininum Gunnlaugi Karli Kristjánssyni (12 ára) og vinnukonunni Sigurbjörgu Jónsdóttur (19 ára). Í hinni íbúðinni átti Pétur Hendrik Johan Hansen heima, ásamt systur sinni, Önnu Maríu Dórótheu, bústýrunni Þórnýju Jónsdóttur og dóttur hennar, Guðrúnu Guðmundsdóttur. Þá kallaðist húsið einfaldlega „34“ eða hús nr. 34 á Akureyri. Þau Oddur og Alma hófu árið 1896 að rækta blóma- og trjágarð sunnan við húsið, á viðbótarlóð sem þau festu kaup á, og mun hann hafa verið einn sá fyrsti slíki hér í bæ (sbr. Steindór Steindórsson 1993:22). Líkt og forveri þeirra í húsinu voru þau annáluð fyrir gestrisni og héldu oft garðveislur í garðinum sunnan við húsið, og höfðu þar forláta garðskála. Á ljósmyndum, sem teknar hafa verið í garðveislum þeirra Odds (sem jafnan var kallaður O.C. Thorarensen) og Ölmu má jafnan sjá vínföng, kaffi, smákökur, vindla og annað slíkt. Eflaust hefðu apótekarahjónin í Aðalstræti ekki fúlsað við útigrilli af veglegustu gerð og haldið miklar grillveislur í garði sínum, hefðu slík tæki verið til komin.

Árið 1916 var Apótekinu lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar- og lyfjasöluhús einlyft með porti, kvisti og háu risi á lágum steingrunni. Á gólfi undir framhlið er lyfjasölubúð, skrifstofa, bakhlið 2 stofur vörugeimslupláss og 2 forstofur með stigum upp á loftið. Á lofti við framhlið 4 stofur bakhlið 2 stofur eldhús búr og forstofa. Lengd. 15,6m. Breidd 8,8m. Hæð 8,2m. Tala glugga 27. Útveggir: Timbur. Þak: Timbur, járnklætt. 8 ofnar og 1 eldavél (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 100). Auk apóteksins voru á lóðinni geymsluskúr, 3,5x3,5m og „lystihús“ eða garðhýsi, 2x2m. Skúrinn og garðhúsið eru nú löngu horfin.

Um 1919 tók Oddur yngri Thorarensen við apótekinu af föður sínum, og átti einnig heimili í apótekinu. Kona hans var Gunnlaug Júlíusdóttir Thorarensen, frá Hvassafelli í Saurbæjarhreppi. Oddur eldri og Alma áttu hér heima til ársins 1920 eða ´21 en samkvæmt manntölum fluttu þau sig í Aðalstræti 6 árið 1921. Oddur og Gunnlaug eru síðast skráð hér til heimilis árið 1927, ári síðar eru hér tveir menn skráðir til heimilis, maður að nafni Grundtvig, titlaður „cand.farm“ (væntanlega lyfjafræðingur) og vinnumaður að nafni Sigfús Kristjánsson. Ári síðar eru flutt hingað Áskell Snorrason, kennari og organisti frá Öndólfsstöðum í Reykjadal og Guðrún Kristjánsdóttir frá Birningsstöðum í Ljósavatnsskarði og fjölskylda þeirra. Þau voru leigjendur hjá Thorarensen, sem enn átti húsið. Árið 1930 eru hvorki meira né minna en 26 manns búsettir í Aðalstræti 4, að því er virðist í fimm íbúðarrýmum, fjórar fjölskyldur og ein ekkja. Þá má gera ráð fyrir, að apótekið hafi flust úr húsinu og neðri hæðin innréttuð sem íbúð. Það var nefnilega í ágúst árið 1928, að Oddur Thorarensen fékk leyfi til þess að byggja steinsteypt stórhýsi, verslunar- og íbúðarhús, við Hafnarstræti 104 og þangað mun lyfjabúðin hafa flust er húsið var risið, 1929. (Þar var apótek starfrækt fram yfir aldamótin 2000). Síðla árs 1934 eignuðust húsið þeir Björn og Óli Magnússynir, húsið (þegar manntal er tekið í október það ár, er Oddur Carl enn sagður eigandi hússins, en skv. Hjörleifi (1986:66) eignuðust þeir bræður húsið árið 1934). Líklega ekki löngu síðar komst á sú íbúðaskipan, er hélst í húsinu fram yfir aldamótin 2000, þ.e. neðri hæð skiptist í tvær íbúðir og ein íbúð í risi.

Þegar húsakönnun var gerð árið 1986 voru þau Björn og Óli Magnússynir og Bergþóra Árnadóttir enn skráð sem eigendur, frá árinu 1934 en suðurhluti í eigu Hjalta Bergmann frá árinu 1980. Segir raunar í texta, að Sölvi Sölvason hafi keypt hlut Óla, en sá síðarnefndi þó skráður meðal eigenda. En frá tíð Thorarensena áttu margir heima í húsinu, í þremur eða fleiri íbúðarrýmum, í lengri eða skemmri tíma. Um 1956 fóru þeir Björn og Óli í framkvæmdir á húsinu, sem þá var tæplega aldargamalt. Var þá allt skraut fjarlægt og margskiptum póstum skipt út fyrir tvískipta þverpósta og húsið múrhúðað með steinmulningi. Var húsinu þannig ætlað að líta út, sem steinhús væri. Þessi aðgerð, sem kallast „forskalning“ þykir nú barn síns tíma, en hefur eflaust þótt heillaráð á sinni tíð. En við þetta misstu mörg gömul timburhús ýmis sérkenni, Gamla Apótekið þar á meðal. Við skulum grípa niður í 40 ára gamlar hugleiðingum Hjörleifs Stefánssonar um Gamla Apótekið úr Húsakönnun, sem gefin var út á bók: Hús þetta er eitt þeirra merkustu í Innbænum og íhuga þarf hvernig best verður að því staðið að tryggja varðveislu þess. Til eru nákvæmar heimildir um útlit hússins áður fyrr og má því færa það til fyrra horfs með mikilli nákvæmni. Innan dyra hafa ekki verið jafn miklar skemmdir á húsinu og ætti að vera auðvelt að endurbæta það sem úrskeiðis hefur farið. Apótekið getur aftur orðið jafn mikil bæjarprýði og það var og ætti að kappkosta að svo verði (Hjörleifur Stefánsson 1986:67). Það er reyndar skemmst frá því að segja, að Hjörleifi varð að ósk sinni hvað Apótekið varðaði, nokkuð löngu síðar. Árið 2006 var húsið friðlýst.

Árið 2002 eignaðist Guðmundur Hallgrímsson lyfjafræðingur hluta neðri hæðar, og fjórum árum síðar hinar tvær íbúðirnar. Guðmundur og kona hans, Anna Guðrún Hugadóttir, hugðust gera húsið upp sem íbúðarhús og jafnvel koma upp lyfjafræðisafni. Verkefnið reyndist ærið, og einnig setti bankahrunið 2008 nokkurt strik í þennan reikning og fór það á endanum svo, að Minjavernd eignaðist húsið árið 2011, á móti Guðmundi, sem enn hafði íbúðarrétt á efri hæðinni. Guðmundur lést árið 2013 og keypti Minjavernd íbúðarréttinn af ekkju hans og eignaðist þar með allt húsið.

Árið 2014 hófust miklar, kostnaðarsamar og flóknar endurbætur á húsinu, sem miðuðu að því, að færa það í því sem næst upprunalegt horf. Þá kom sér vel, að upprunalegar útlitsteikningar voru til staðar, það er aldeilis ekki sjálfgefið, þegar svo gömul hús eiga í hlut. (Raunar er mjög sjaldgæft, að til staðar séu upprunalegar teikningar af húsum, byggðum fyrir aldamótin 1900). Teikningarnar að endurgerð hússins gerðu þeir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson og var Húsfriðunarnefnd Akureyrar með í ráðum þar. Segir Guðjón Friðriksson svo frá: Húsið var afar illa leikið þegar Minjavernd tók það yfir, allt skakkt og skælt, hafði sigið inn að miðju og skriðið fram brekkuna að nokkru leyti. Þó að sjálft húsið hefði verið vel viðað í upphafi voru undirstöður þess fábrotnar og varð fljótlega ljóst, að steypa þyrfti nýjar undirstöður undir húsið […] (Guðjón Friðriksson 2017:221).

Um haustið og veturinn var múrhúð brotin af og rifnir þeir viðir og veggir sem komnir voru að fótum fram. Á tímabili vorið 2015, var ásýnd hússins nokkuð andlitslaus, en því var lokað með krossviðarplötum þegar aðeins grind hússins stóð eftir. Þann 25. júní árið 2015 var húsinu lyft af undirstöðunum og flutt að Krókeyri, á meðan steyptur var nýr grunnur. Steypu hans lauk um haustið og þann 13. október var húsinu komið fyrir á nýjum sökkli. Tók nú við ríflega eins og hálfs ár framkvæmdatímabil og sumarið 2017 var endurbótum lokið. Skemmst er frá að segja, að þær hafa heppnast eins prýðilega og verða má; Gamla Apótekið er eitt af glæstari húsum bæjarins og ein af perlum Innbæjarins. Þá stendur húsið einstaklega skemmtilega, nokkrum metrum ofan við götu og blasir við viðskiptavinum einnar vinsælustu ísbúðar bæjarins, ef ekki landsins, Brynju. Er það þannig sérlegt kennileiti á þessu svæði, hinni eiginlegu Akureyri neðan Búðargils og raunar blasir það við hverjum þeim, sem leið á inn í bæinn eftir Leiruveginum, þjóðvegi 1 að austan. Nú er starfrækt gistiheimili í húsinu, og eiga þannig ferðalangar hvaðanæva að úr heiminum skjól í hinu tæplega 170 ára meistaraverki Jón Chr. Stephánssonar. Hver veit nema andar hinnu gestrisnu apótekara á 19. öld, svífi hér enn yfir vötnum – og gólffjölum.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 19. júní 2014, 29. mars, 25. júní og 18. október 2015, 20. ágúst 2016, 5. apríl og 7. ágúst 2017.

Hér eru nokkrar svipmyndir af Gamla Apótekinu í endurbyggingarferli, en hér eru fleiri myndir af endurbótunum myndir frá flutninginn af grunninum hér.

 

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 7, 14. maí 1859. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Guðjón Friðriksson. 2017. Litbrigði húsanna. Reykjavík: Mál og Menning.

Hjörleifur Stefánsson. 1986.Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Pdf-skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf.

Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær.

Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II. bindi. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Ýmsar upplýsingar af vefnum m.a. islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is.

Heimsókn Ingólfs frænda 1961

Jóhann Árelíuz skrifar
28. desember 2025 | kl. 06:00

Jólin í eldgamla daga – Ásta Ninna

27. desember 2025 | kl. 16:00

Jólin í eldgamla daga – Benedikt Már

27. desember 2025 | kl. 16:00

Jólahefðirnar mínar – Páll Magnússon

27. desember 2025 | kl. 16:00

Jólahefðirnar mínar – Regína Diljá

27. desember 2025 | kl. 16:00

Jólahefðirnar mínar – Andrea Pála

26. desember 2025 | kl. 15:00