Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Grund I

Á Grund standa tvö íbúðarhús, sem stórbóndinn og athafnamaðurinn Magnús Sigurðsson, kenndur við staðinn reisti, það eldra frá 1893 og það yngra byggt 1910. Magnús hafði á barnsaldri heillast af þessari fornu stórjörð og einsett sér að eignast hana, þegar hann yrði stór. Og af því lét hann verða árið 1873, þá 26 ára gamall. Hann keypti þá hálfa jörðina en síðar eignaðist hann allt Grundarland. Magnús bjó á Grund í ríflega hálfa öld, til æviloka, og stóð fyrir mikilli uppbyggingu á jörðinni og hafði þar mikil umsvif; verslunarrekstur, skólahald, auk þess sem ýmsar samkomur og fundir sveitarinnar fóru fram á Grund. Það var árið 1909 sem hann hóf að byggja hús sunnan við íbúðarhúsið, við vesturjaðar kirkjugarðsins. Snemmsumars 1910 sá fyrir endann á verkinu. En daginn sem síðar varð þjóðhátíðardagur Íslands reið stóráfall yfir.

17. júní, sem löngum hefur verið tengdur miklum hátíðahöldum hjá íslensku þjóðinni, var aldeilis ekki hátíðlegur hjá Magnúsi á Grund og hans fólki árið 1910. Um hádegisbilið var nefnilega stórbruni á Grund: Nýjasta stórvirki Magnúsar, stórhýsi, sem þjóna átti sem sláturhús og samkomuhús brann til ösku á um tveimur klukkustundum. Eldsupptökum er lýst nákvæmlega í ævisögu Magnúsar:

[...]Einn öðlingsmaður sem vann að smíðum við bygginguna, kveikti í pípu sinni og varpaði frá sér eldspýtunni. En neisti frá henni lenti í skraufþurri spónahrúgu, sem greip logann, þegar smiðurinn sneri baki að, og fyrr en varði á andartaki hafði spónahrúgan sogað logann í sig, svo að ekkert varð við ráðið – eldurinn læsti sig í þurrviðinn í þiljunum með heiftaráfergju. Heimilisfólk sótti vatn í lækinn og skvetti á og fólk af nálægum bæjum dreif einnig að og tók til við slökkvistarf Vatnsföturnar máttu sín hins vegar lítils: En brátt var ljóst að við ofurefli var að etja, þakið féll og síðan útveggir og þar sem fyrir hádegi var glæsileg bygging, var nú rúst með brennandi sprekum sem fallið höfðu á steingólfið. Menn voru hljóðir og ráðvana. Smiðurinn, sem hafði orðið fyrir því að missa neistann lausan, fékk taugaáfall (Gunnar M. Magnúss 1972: 238-239). Það fylgir þó ekki sögunni, hvort umræddur smiður hafi hætt pípureykingum. Ljóst var að tjónið var mikið og það sem verra var, húsið hafði ekki verið vátryggt. Skemmst er frá því að segja, að Magnús hóf endurbyggingu síðar um sumarið upp af steingrunninum. Og haustið 1910 var kjallarinn nýttur sem sláturhús og efri hæðin innréttuð. Nú var mestallt byggt úr steinsteypu, líklega eitt fyrsta stóra steinsteypuhús í hreppunum framan Akureyrar. Og hið endurbyggða hús stendur enn og nefnist Grund I.

Grund I stendur lítið eitt sunnan við Grund II og um 65m sunnan við kirkjuna. Að Grund liggur um 170m löng heimreið frá Eyjafjarðarbraut vestri en frá miðbæ Akureyrar eru um 21 kílómetri að Grund. Grund I er einlyft steinhús á háum steinkjallara og með háu valmaþaki. Lítið eitt norðan við miðja vesturhlið er kvistur og undir honum inngöngutröppur. Á austurhlið er einnig kvistur með einhalla, aflíðandi þaki. Veggir virðast klæddir múrplötum, svokölluðum „steníplötum“ en bárujárn er á þaki. Ónákvæm mæling á grunnfleti (map.is) er um 10x24m. Grund I var metið til brunabóta árið 1933 og var þá lýst á þennan hátt: Íbúðarhús, steinsteypt. Ein hæð á háum kjallara. Kvistur á þaki. Á aðalhæð 9 herbergi og tvær forstofur. Kjallari í 7 hólfum. Gólf yfir kjallara er steinsteypt. Einn steinveggur um þvert hús, á aðalhæð og kjallara (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.24).

Mál hússins voru sögð 16,6x8,8m og 6,9m hátt en einnig er skúr við húsið 6,6x8,8m og hæð skúrsins sögð 2,7m. Mögulega er hér um að ræða syðsta hluta hússins, sem síðar hefur verið hækkaður en það kemur heim og saman við það, að húsið gæti verið 23,5m á lengd. Húsið var kynt með miðstöð í kjallara og steinolía til ljósa. Öll skilrúm og veggir úr timbri nema steinveggur í miðju. Fram kemur, að loft yfir kjallara sé steinsteypt. Húsið er þannig með fyrstu húsum á Íslandi með steyptri plötu milli hæða en allt fram undir miðja 20. öld voru steinhús yfirleitt byggð þannig, að aðeins útveggir voru steyptir en veggir og loft milli hæða úr timbri.

Upprunalega var húsið Grund I byggt sem fundahús eða samkomuhús með sláturhúsi, fjárrétt og vörugeymslu í kjallara. Mögulega var búið í húsinu frá upphafi en það var „tekið að fullu fyrir íbúðarhús 1926“ (Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:286). Tíu árum fyrr hafði Aðalsteinn Magnússon tekið við jörðinni af foreldrum sínum og samkvæmt ábúendatali Byggða Eyjafjarðar 1990 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:771) bjuggu Magnús Sigurðsson og Guðrún Þórey Jónsdóttir í þessu húsi síðustu æviár sín. Þau létust 1918 og 1925 (Aðalsteinn og ábúendur eftir hann munu hafa búið í eldra húsinu). Síðari kona Magnúsar var Margrét Sigurðardóttir, en hún hafði komið að Grund sem ráðskona og giftist Magnúsi árið 1924. Magnús Sigurðsson lést á Grund þann 18. júní 1925, tæplega 78 ára að aldri, en hann var fæddur 3. júlí 1847 á Torfufelli í Saurbæjarhreppi. Þá voru liðin 52 ár frá því að hann reið, í kapphlaupi við tímann, austur á Breiðumýri í S-Þingeyjarsýslu til Jakobs Péturssonar þeirra erinda, að kaupa af honum hálft Grundarland. Það hafðist, en aðeins fáeinum klukkustundum eftir að Jakob og Magnús handsöluðu kaupin reið annar ungur maður í hlað, Eggert Gunnarsson frá Laufási. Hann hugðist einnig kaupa Grund, en var fáeinum klukkustundum of seinn; Magnús hafði verið á undan og æskudraumur hans hafði ræst.

Eftir lát Magnúsar bjó ekkja hans, Margrét hér áfram, ásamt seinni manni sínum, Ragnari Davíðssyni frá Kroppi. Þau bjuggu hér til ársins 1959 en frá 1950 bjuggu þau hér félagsbúi ásamt Aðalsteinu Magnúsdóttur og Gísla Björnssyni, en Aðalsteina var dóttir Margrétar og Magnúsar Sigurðssonar. Bróðir Margrétar, Snæbjörn Sigurðsson flutti á Grund árið 1948 og var jörðinni þá skipt, Grund I og Grund II. Snæbjörn átti Grund II og bjó í eldra íbúðarhúsinu og er þessi skipting enn í gildi. Eigenda- og íbúaskipti á Grundarjörðunum voru ekki tíð á 20. öld; árið 1990 eru téð Aðalsteina og Gísli eigendur jarðar. Þá (1990) er fóstursonur þeirra, Bjarni Aðalsteinsson og kona hans Hildur Grétarsdóttur einnig ábúendur. Bústofninn árið 1990 telur alls 150 nautgripi, þar af 67 kýr og sex hross. Tuttugu árum fyrr voru kýrnar 46 og geldneyti 14, en allt sauðfé hafði verið skorið 1967. Hvort sauðfé hafi verið á Grund I frá þeim skurði er höfundi ókunnugt um, síðari árin hefur býlið fyrst og fremst verið kúabú. Og þegar Byggðir Eyjafjarðar voru teknar saman þriðja sinnið, árið 2010 voru kýrnar 117 og aðrir nautgripir 102 og ræktað land tæpir 180 hektarar. Árið 2010 var eigandi Grundar I, Holt ehf. en búið var rekið undir nafni Ljósaborgar ehf. undir stjórn þeirra Öddu Báru Hreiðarsdóttur og Víðis Ágústssonar (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 435).

Af fleiri byggingum sem tilheyra Grund I má nefna fjós byggð 1947, 1983 og geldneytafjós frá 1972, sem áður var vélageymsla. Þá eru, steinsnar frá íbúðarhúsinu, byggingar frá tíð Magnúsar Sigurðssonar, fjós, fjárhús og hlöður frá árunum 1910-15. Þær byggingar eru nú nýttar sem geymslur en hljóta að hafa umtalsvert varðveislugildi vegna aldurs. Grund I er auðvitað aldursfriðað hús, byggt fyrir 1923. Þá er húsið í hópi elstu steinsteypuhúsa Eyjafjarðarsvæðisins. Það er hluti skemmtilegrar heildar, sem Grundarhúsin, kirkjan mikla og aðrar byggingar staðarins myndar í grænu og búsældarlegu héraði. Grund blasir einmitt skemmtilega við þegar ekin er Eyjafjarðarbraut vestri niður hjalla mikinn sunnan Hólshúsa. (Kirkjuturninn sést raunar lengra að). Á hjalla þessum, vestanmegin vegarins, er enn eitt sköpunaverk Magnúsar Sigurðssonar, Grundarreitur. Var það árið 1900 sem Magnús girti þessa landsspildu af og réði danskan skógræktarmann, Christian Flensborg að nafni, til að standa fyrir skógrækt. Næstu sumur fór trjáplöntun fram og nú er Grundarreitur, sannkölluð græn perla og paradís, einn af helstu skógarreitum Eyjafjarðarsvæðisins. Skógarreiturinn var stækkaður um 1953 og er nú 3,3 ha. (Sbr. Sigurður Blöndal 2000:147). Það er svo sannarlega hægt að mæla með göngu um Grundarskóg, sem opnaður var almenningi árið 1994 og hér eru meðfylgjandi nokkrar svipmyndir. Hægt væri að skrifa langa grein um Grundarskóg en greinarhöfundur eftirlætur slík skrif „skógfróðari“ mönnum og lætur staðar numið hér.

Saga Grundar nær auðvitað mun lengra aftur en sem nemur sögu íbúðarhúsa þar og Magnúsar Sigurðssonar, raunar allt til landnámsaldar. Hér bjuggu löngum miklir höfðingjar og merkisfólk, m.a. Sighvatur Sturluson, bróðir Snorra Sturlusonar, árin 1217 til 1238. Á 16. öld bjó hér Þórunni ríka (um 1511-1593), dóttir Jóns biskups Arasonar, sem „ríkti af miklum skörungsskap á Grund í 60 ár“ (Gunnar M. Magnúss 1972:89). Ein sagan segir, að Þórunn hafi beðið af sér Svartadauða uppi í Laugafelli og þar má finna svokallaða Þórunnarlaug. Það setur eilítið strik í þann reikning, að svartadauðaplágan gekk um það bil 100 árum fyrir daga Þórunnar ríku en stundum er sagt, að góð saga megi ekki líða fyrir sannleikann. Á 14. öld bjó hér hin valinkunna Grundar-Helga, og neðarlega í Grundarreit er strýtulaga hóll, sem nefndur er Helguhóll, eftir henni. Helga hafa verið helsta driffjöðurin fyrir Grundarbardaga í júlí 1372, þar sem Smiður Andrésson hirðstjóri og fylgdarmenn hans voru ráðnir af dögum. Ginnti hún þá á Grund með því að bjóða til mikillar veislu. Þessi atburður var eyfirsku hljómsveitinni Helga og Hljóðfæraleikurum að yrkisefni. Ætli það sé ekki viðeigandi, að slá botninn í þessa Grundarumfjöllun með Veislunni á Grund í flutningi téðra Helga og Hljóðfæraleikarana. Smellið á myndina til að horfa og hlusta.

Meðfylgjandi myndir úr Grundarreit, ásamt myndinni af Grundarbæjunum, þar sem horft er af Helguhól í Grundarreit eru teknar 15. júlí 2022. Myndirnar af Grund I og þar sem horft er til Grundar frá Eyjafjarðarbraut eystri eru teknar 15. júní 2023. Myndin af Þórunnarlaug í Laugafelli er tekin 12. ágúst 2021.

Heimildir:
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Sigurður Blöndal. 2000. Grundarskógur. Í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2024 | kl. 20:00

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00