Hreyfing hreyfingarinnar vegna
HEILSA – 3
Þú lesandi góður veist eflaust að hreyfing er okkur mikilvæg. Hún stuðlar að vellíðan, betri lífsgæðum og heilsu, hefur góð áhrif á andlega líðan og minnkar líkur á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum.
En hvernig skilgreinir þú og hugsar um hreyfingu? Ertu með allt eða ekkert hugarfar, þar sem það telur aðeins ef þú varst að í klukkutíma, púlsinn var í botni, úrið í gangi og þú brenndir fullt af hitaeiningum? Eða hreyfirðu þig lítið sem ekkert af því að þú veist ekki hvar á að byrja? Þú hefur ekki fundið ánægju í hreyfingu og skilaboðin um hvernig eigi að hreyfa sig, og hvernig alls ekki, hafa ruglað þig svo mikið að allt virkar yfirþyrmandi?
Í þessum pistli ætla ég að lyfta upp hreyfingu hreyfingarinnar vegna. Hreyfingu fyrir vellíðan og góða heilsu líkamlega sem andlega. Að hreyfa sig til að vinna á móti kyrrsetu. Hreyfingu sem er ekki endilega þjálfun eða íþróttaiðkun (án þess að draga úr jákvæðum þáttum þeirra). Hreyfingu þar sem áherslan er ekki tími, magn eða ákefð, heldur einfaldlega hreyfing til að hreyfa sig.
Þú þarft ekki að stunda stífa þjálfun til að koma inn hreyfingu
Þjálfun er tengd markmiðum og árangri. Eitthvað sem við vinnum markvisst í áttina að með ákveðnum æfingum og æfingaáætlun. Okkur hefur verið innrætt að setja okkur ýmiss konar markmið, en mörg þeirra eru ekki okkar eigin. Þau byggja á samfélagslegum hugmyndum um hvernig við eigum að líta út eða hvað við eigum að geta. Það er bara ekki eitt sem hentar öllum.
Við getum orðið of háð plönum og því hvernig á að gera hlutina. Fyrir suma verður einfaldast að sleppa öllu, því hugmyndin um hreyfingu verður of þröng og engin leið að víkja frá áætlun án þess að finnast maður vera að bregðast sjálfum sér. Þá er planið ekki að styðja við mann.
Hreyfing þarf ekki að fylgja áætlun til að vera ánægjuleg og sjálfbær. Hún getur verið hreyfingarinnar vegna og af fjölbreyttum toga, þar sem þú upplifir tengingu við líkamann og hefur ánægju af því sem þú ert að gera. Á bak við þessa nálgun liggur einföld staðreynd. Við erum gerð til þess að hreyfast yfir daginn, alla daga.
Hreyfing sem styður daglegt líf
Allt telur þegar við erum að tala um hreyfingu.
Góð spurning að spyrja sig er: „Hvað geri ég í mínu daglega lífi og hvernig getur hreyfing stutt það?“ Dagleg hreyfing á að styðja lífið sem þú lifir og endurspegla hvernig þú vilt eldast. Viltu geta klætt þig í sokkana standandi fram eftir öllum aldri? Borið þunga poka? Setið á gólfinu með börnum eða barnabörnum og staðið upp án vandræða? Haldið jafnvægi? Beygt þig og teygt, undið upp á þig, ýtt og dregið?
Þetta eru hreyfingar og færni daglegs lífs sem við viljum klárlega búa yfir og viðhalda og það er alls ekki flókið að gera það. Svo lengi sem þú hættir ekki að hreyfa líkamann þá geturðu viðhaldið þessari færni. Það er heldur aldrei of seint að byrja.
Leikur er vanmetinn en líklega einn öflugasti þátturinn í því að skapa varanlegar hreyfivenjur. Þegar þú til dæmis gleymir þér í dansi í eldhúsinu, léttri liðkun hér og þar yfir daginn, í leikjum með krökkunum og göngu í náttúrunni svo eitthvað sé nefnt. Þegar þú hreyfir þig á þann hátt sem þjónar þér best byggirðu sterkt samband við þig og líkama þinn án þess að það sé kvöð eða skylda.
Hvernig líður þér eftir hreyfingu, og daginn eftir?
Hreyfing á að skila þér meiri orku, betri svefni, minni verkjum og auknu jafnvægi. Ef þú upplifir mikla þreytu og orkuleysi, pirring og verki eftir þína hreyfingu þá ertu kannski að þjóna hreyfingunni í stað þess að hún þjóni þér. Hreyfing á að styðja þig. Ekki öfugt.
Þú þarft að hlusta á þig og það hvernig þér líður frá degi til dags. Ekki úrið eða appið, ekki æfingaáætlunina og alls ekki samfélagsleg markmið og markmið annarra því ekkert af þessu segir þér hvernig þér líður og hvað þú átt inni á hverjum degi.
Finndu þína leið og fjölgaðu stundunum sem þú hreyfir kroppinn á fjölbreyttan hátt.
Guðrún Arngrímsdóttir er þjálfari og önnur eigenda Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar. Pistlar hennar og Hrafnhildar Reykjalín Vigfúsdóttur birtast annan hvern þriðjudag á akureyri.net.
Einmanaleiki
Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi
Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun
„Brave“