Fara í efni
Pistlar

Þjálfun sem nærir – um styrk og sjálfsrækt

HEILSA – 1

Hvað ef styrktarþjálfun er ekki barátta heldur samtal við líkamann?

Hvað ef hver æfing er ekki bara leið til að „laga“ þig heldur tækifæri til að hlusta, styrkja og tengjast þér frá þeim stað sem þú ert á núna?

Við höfum lengi fengið þau skilaboð að við þurfum að vera öðruvísi en við erum, gera meira, vera sterkari, hraðari og úthaldsmeiri.

Hvað ef raunverulegur styrkur liggur í því að mæta sér með mildi og hlustun?

Meðvituð hreyfing og styrktarþjálfun getur verið ein dýrmætasta leiðin til að hlusta á líkama sinn. Að finna vöðvana virkjast, að taka eftir andardrættinum, að leyfa hreyfingunni að leiða hugann inn í stað og stund, inn í núið.

Mættu þér þar sem þú ert

Það skiptir ekki máli hvað þú hefur getað gert áður eða hvað þú „átt að geta“. Það sem skiptir máli er hvernig staðan er í dag. Hvað þarf líkaminn þinn núna? Hver er innistæðan? Hvað er líkaminn þinn að kalla á?

Stundum er svarið styrkur og hraði. Stundum er það rólegur styrkur. Stundum er það bara einföld tenging við andardráttinn og hreyfingu, án þess að gera mikið.

Þegar þú hægir á og hlustar á líkamann þá skapar þú rými fyrir þig til að auka líkamsvitund og sjálfsþekkingu. Þannig verður til dæmis styrktarþjálfun leið til að hlúa að vellíðan og styrkja tengslin við þig.

Taugakerfið þarf líka styrk og áreiti, í öruggu umhverfi

Við þurfum að kunna að slaka á og hægja á taugakerfinu en það að taka á því og finna fyrir álagi getur verið mjög heilandi, sér í lagi ef það gerist í öruggu og rólegu umhverfi. Þá lærir taugakerfið að það má finna fyrir áreiti án þess að fara í varnarstöðu.

  • Þannig styrkirðu ekki bara vöðva heldur líka innri viðbrögð við álagi í lífinu sjálfu.
  • Þú verður færari í að takast á við streitu og álag, hugsun verður skýrari og þú verður öruggari í eigin líkama.
  • Það þurfa ekki nauðsynlega að vera læti eða hátt tempó í þjálfun. Nærandi rými og leyfi til að gera hlutina á þínum forsendum geta verið nákvæmlega það sem þú þarft núna.

Hvernig sem staðan er þá getur þú byrjað núna, akkúrat þar sem þú ert. Í þeim líkama sem þú átt, með þeirri orku sem þú hefur. Það er staðurinn sem þú vinnur út frá í átt að bættri heilsu og vellíðan.

Guðrún Arngrímsdóttir er þjálfari og önnur eigenda Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar. Pistlar hennar og Hrafnhildar Reykjalín Vigfúsdóttur birtast annan hvern þriðjudag á akureyri.net.

Rámur kálfur í túnjaðri

Jóhann Árelíuz skrifar
19. október 2025 | kl. 06:00

Jävla Öxnabrekkan

Orri Páll Ormarsson skrifar
17. október 2025 | kl. 12:00

Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)

Arnar Már Arngrímsson skrifar
16. október 2025 | kl. 08:30

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00

Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00