Hinn gullni meðalvegur
HEILSA – 8
Margir vita nákvæmlega hvað þeir ættu að gera til að líða betur. Eftir að hafa starfað við heilsuráðgjöf í rúm 15 ár er ein fyrsta spurningin sem ég spyr fólk enn þessi: „Ef þú ættir að velja eitt sem þú veist að þú gætir gert til þess að bæta heilsuna þína, hvað væri það?“ Langoftast þarf fólk ekki að hugsa sig um og svarar hratt: „Sko ég þyrfti náttúrulega bara að….“ Svo kemur upptalningin. Hreyfa sig reglulega. Hugleiða. Sofa meira. Borða hollar. Draga úr streitu. Vera jákvæðari. Listinn sjálfur er sjaldnast vandamálið því í kjölfarið koma atriði númer 2 og 3 oft jafn auðveldlega. Allt án þess að ég byrji að ráðleggja. Því innst inni vitum við oft best sjálf hvað það er sem skiptir máli. Við höfum ef til vill bara ekki spurt okkur að því.
Sjálfsrækt hefur á undanförnum árum orðið sífellt sýnilegri. Hún er alls staðar. Á samfélagsmiðlum, í bókum, í ráðleggingum og vel meinandi samtölum. Enda er skilgreiningin á sjálfsrækt í sjálfu sér einstaklega góð og jákvæð fyrir okkur öll: Að rækta okkur sjálf. Við erum farin að opna meira á umræður um andlega og líkamlega líðan og það er fjölmargt gott í þeirri þróun. En á sama tíma hefur orðið „sjálfsrækt“ einnig tekið á sig neikvæða merkingu með pressunni á því að gera hlutina á ákveðinn hátt. Hjá mörgum er hún orðin enn einn streituvaldurinn í daglegu lífi. Mælanleg, samanburðarhæf og sama hvað við gerum, þá er það sjaldnast nóg. Við þurfum nefnilega líka að gera hana „rétt“. Við heyrum að það sé ekki nóg að fara í göngutúr… við þurfum að ganga ákveðið langt, á ákveðnum hraða og nota ákveðið app. Það er ekki nóg að borða meira af grænmeti… við þurfum að vigta trefja inntökuna. Það er ekki nóg að anda. Við þurfum að anda rétt. Svona mætti lengi telja. Þegar misvísandi eða öfgafullum skilaboðum rignir yfir okkur þá er engin furða að margir gefist upp á leiðinni eða ákveði einfaldlega að leggja ekki af stað.
Það er nefnilega ekkert sem við þurfum að gera, nema ef til vill það að gæta okkar á þessum stanslausa samanburði. Sjálfsrækt er nefnilega ekki keppnis. Allt eða ekkert. Hún þarf ekki að líta út eins og á myndum eða passa inn í fullkomna rútínu. Sjálfsrækt byrjar heldur ekki þegar við höfum náð fullkomnum tökum á einhverju eða þegar við eigum réttar græjur. Ef til vill er sannasta sjálfsræktin sú sem hefst þegar við byrjum á því að hlusta inn á við og heyra hvað það er sem við þurfum á að halda. Þegar við spyrjum okkur sjálf hvaða skref við gætum tekið til þess að auka eigin vellíðan. Þegar við slökum á þeirri pressu að reyna að laga allt á einu bretti. Þegar við hættum að nota sjálfsrækt sem mælikvarða á dugnað eða árangur og förum að nota hana sem leið til að vera í betra sambandi við okkur sjálf.
Hinn gullni meðalvegur í sjálfsrækt er ekki fullkomin lausn heldur jafnvægið sem hentar okkur í daglegu lífi. Það sem þjónar okkur í dag þarf ekki endilega að vera það sama og þjónar okkur á morgun. Líkami, hugur, líðan og aðstæður eru breytingum háð og það hvernig við hlúum að okkur ætti því að hreyfast í takt við það. Þannig snýst sjálfsrækt ekki bara um að bæta okkur, heldur að mæta okkur. Að vera í sambandi við það sem er raunverulega í gangi innra með okkur hverju sinni. Þegar við leyfum sjálfsræktinni að vinna með okkur þá verður hún ekki enn eitt verkefnið á listanum, heldur eitthvað sem við getum fylgt eftir og staðið með. Hvað er það sem kemur í hugann þinn sem þú veist að þú gætir gert til þess að bæta heilsuna þína?
Sjálfsrækt hefst með því að líta þér nær, hlusta inn á við og taka þau skref sem þú veist að skipta þig máli. Það er raunveruleg sjálfsrækt.
Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir er heilsuráðgjafi, með fjölbreytta menntun í andlegri og líkamlegri heilsu og önnur eigenda Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar. Pistlar hennar og Guðrúnar Arngrímsdóttur birtast annan hvern þriðjudag á akureyri.net.
Hús dagsins: Norðurgata 13
Hvor var betri, Tommi eða Kóki?
ʻŌhiʻa Lehua
Vökustaurar