Ásetningur á áramótum
HEILSA – 6
Áramótin marka ákveðin þáttaskil. Einu ári lýkur og annað hefst. Fyrir marga er þetta tími uppgjörs og nýrra áforma, tími þar sem við erum hvött til að horfa fram á við, setja okkur markmið og ákveða hverju við viljum breyta.
Fyrir suma vekja áramótin þeim eldmóð í brjósti og skýrari sýn. Fyrir aðra geta tímamótin verið sem enn ein pressan um að standa sig betur og kallað fram streitu eða þreytu. Fyrir marga er þetta blanda af þessu öllu.
En kannski þurfa áramótin ekki endilega að vera kveikjan að enn einum „to do“ listanum. Kannski getum við frekar litið á þau sem tækifæri til þess að staldra við og líta yfir farinn veg. Tækifæri til að sjá hvað við lærðum af sigrum og sorgum síðustu mánaða. Tilhneigingin er oft sú að muna það sem ekki gekk upp. Markmið sem ekki náðust eða áformin sem runnu út í sandinn. En þegar við hægjum á, þökkum fyrir gjafirnar sem lífið færði okkur og finnum samkenndina á erfiðum stundum, þá sjáum við einnig tengslin sem skiptu okkur máli og augnablikin sem héldu okkur gangandi eða gáfu lífinu lit.
Að þakka fyrir liðið ár þýðir ekki að allt hafi verið auðvelt eða fullkomið. Þakklæti og áskoranir geta farið saman. Við getum verið bæði þakklát og þreytt. Sátt og sorgmædd. Það er hluti af því að vera manneskja.
Hlustum dýpra
Áramótin eru jafnframt algengasti tíminn sem fólk velur til að setja sér markmið. Það er, jú, fullkomlega eðlilegt að vilja horfa fram á veginn og sjá drauma sína rætast. En markmið eiga það til að verða að kvöðum. Þau hljóma stundum eins og listi yfir það sem við teljum „rangt“ við okkur og þurfum að laga. Meira átak. Meiri agi. Meiri stjórn. Svo þegar ákveðnum markmiðum er ekki náð, sitjum við eftir með þá tilfinningu að hafa brugðist eða ekki staðið okkur nógu vel. En hvað ef við breytum aðeins hugarfarinu? Í stað þess að spyrja „Hvaða markmið á ég að setja mér?“ gætum við ef til vill farið undir yfirborðið og spurt „Hvað vil ég rækta og af hverju?“ Þannig förum við frá markmiðum yfir í ásetning og komumst ef til vill nær því sem skiptir okkur raunverulega máli.
Ásetningur verður sjaldan til í flýti. Hann kviknar þegar við leyfum okkur að hlusta eftir innri rödd, þegar við hægjum á og sleppum kröfunni um að hafa allt á hreinu. Ásetningur er annars eðlis en hefðbundin markmið. Hann snýst ekki fyrst og fremst um árangur eða útkomu, heldur snýst hann um ferðalagið sjálft. Í stað þess að setja sér markmið um að breytast erum við að velja að hlúa að því sem skiptir okkur máli. Markmið segja okkur hvað við eigum að gera. Ásetningur minnir okkur á hvernig við viljum vera.
Spyrjum okkur „Af hverju?“
Munurinn á markmiðum og ásetningi birtist oft best í einföldum og hversdagslegum dæmum. Markmiðin „Ég ætla að hreyfa mig fjórum sinnum í viku“ og „Ég ætla að hætta að vera svona stressuð“ hljóma til dæmis á eftirfarandi hátt sem ásetningur: „Ég vil hlusta betur á líkamann minn og hreyfa hann á þann hátt sem nærir mig“ og „Ég vil hlúa betur að mér og taka frá tíma til slökunar“. Þannig veitir ásetningur meiri sveigjanleika þegar lífið breytist og við verðum líklegri til þess að halda okkar striki. Í stað þess að setja pressu á okkur um að losna við ákveðið ástand veljum við hvernig við viljum mæta okkur sjálfum.
Hugvekja mín til þín fyrir næstu daga er þessi: Þegar eitthvað kemur í hugann sem þú vilt sjá gerast í þínu lífi, spyrðu þig þá af hverju. Spurðu þig jafnvel nokkrum sinnum til viðbótar þegar þú heldur að svarið sé komið. Því dýpra sem þú ferð, því meiri líkur eru á því að þú komist að einhverju sem skiptir þig verulegu máli. Þannig færir þú fókusinn frá ytri breytingu yfir í innri þörf.
Kunnuglegt dæmi er löngunin að komast í betra líkamlegt form:
Ég ætla að hreyfa mig fjórum sinnum í viku.
Af hverju?
Vegna þess að ég vil komast í betra form…
Af hverju vil ég komast í betra form?
Til þess að mér líði betur líkamlega…
Af hverju skiptir það mig máli að líða betur líkamlega?
Af því að ég finn að orkuleysi hefur áhrif á daglegt líf mitt…
Af hverju vil ég hafa meiri orku í daglegu lífi?
Af því að ég vil hafa kraft og jafnvægi til þess að gera skemmtilega hluti með þeim sem mér þykir vænt um!
Með því að kafa dýpra komumst við að kjarna málsins: Tengingu okkar við eigin gildi og sýn á lífið. Við sjáum greinilega að yfirborðs markmiðið skiptir minna máli heldur en ásetningurinn sjálfur. Hann stendur ekki og fellur með þessum fjórum skiptum í ræktinni á viku. Þegar við þekkjum raunverulegu ástæðuna sem liggur að baki erum við mun líklegri til þess að halda áfram að vinna að því sem okkur er mikilvægt og sjá það verða að veruleika.
Kannski komumst við að því að það sem við þurfum mest á að halda á nýju ári er ekki enn eitt átakið eða markmið sem rista grunnt, heldur að vera meira hér og nú í augnablikinu. Að vinna að því að öðlast dýpri tengingu við það sem skiptir okkur raunverulegu máli, ekki einungis um áramót heldur alla daga ársins.
Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir er heilsuráðgjafi, kennari í markþjálfun með alþjóðlega PCC vottun og önnur eigenda Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar. Pistlar hennar og Guðrúnar Arngrímsdóttur birtast annan hvern þriðjudag á akureyri.net.
Jólahefðirnar mínar – Emilía Ósk
Jólin í eldgamla daga – Melkorka Bríet
Jólahefðirnar mínar – Halldís Alba
Jólahefðirnar mínar – Björk Harðardóttir