Fara í efni
Pistlar

Heilbrigði fórnað á altari græðginnar

Sjötti pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Getur verið að ráðandi öfl og ríkjandi tíðarandi snúist meira um frelsi útvalinna einstaklinga og hagnaðarvon þeirra en heilbrigði þjóðarinnar í heild?“ hváði Aðalsteinn Öfgar og leit upp úr bleksvörtum kaffibollanum. „Eða hvers vegna var svona rík áhersla lögð á það að greiða götu þeirra sem vildu selja okkur rafrettur eða veip og nikótínpúða undir því yfirskyni að hjálpa fólki að hætta að reykja þegar nánast allir voru hættir að reykja? Og að sóa tíma alþingis lon og don í það að reyna að troða áfengi inn í allar búðir, alla daga, alls staðar og helst í heimsendingu. Hvað er í gangi? Já, ég veit, ég var ekki barnanna bestur og hef svo sem ekki úr háum söðli að detta.“

Aðalsteinn hafði alist upp hjá einstæðri móður, hann missti pabba sinn í sjóinn sjö ára gamall. Mamma hans vann hjá ÚA. Á unglingsárunum og fram yfir tvítugt var hann þekktur fyrir að umreikna útborguð laun í kláravíni, þeim eðaldrykk sem þá var framleiddur hér og seldur og margir sakna ákaflega. Þetta var einfalt dæmi. Aðalsteinn borgaði heim, eins og það var kallað. Mamma hans fékk hluta af laununum upp í fæðis- og húsnæðiskostnað og þurfti Alli ekki að hafa frekari áhyggjur af þeim málum. Eftirstöðvunum skipti hann í þrennt: Pakki af marlboro á dag, ein hljómplata á viku og restin fór í kláravín. Mig minnir að þetta hafi verið 10-12 flöskur á mánuði og jafnvel fleiri með eftirvinnu og næturvinnu eins og það hét þá.

Við kynntumst í vegavinnu í gamla daga og ég man alltaf þegar við fórum á kaffihús og Aðalsteinn dró upp flösku af kláravíni og hellti út í kaffið hjá okkur. Hjartastyrkjandi. Hann var enn við sama heygarðshornið í þessum efnum þrátt fyrir allnokkrar kollsteypur og meðferðir. Hins vegar hann löngu hættur að reykja en tuggði heilt apótek af nikótíntyggjói daglega.

„Nú held ég að þú hafir lög að mæla,“ sagði ég. „Ég man eftir og tók sjálfur þátt í gríðarlegu forvarnaátaki í framhaldsskólunum, bæjarstjórn og þjóðfélaginu í heild í kringum árið 2000. Foreldrarölt, borgarafundur, fræðsla, aftöffaravæðing vímunnar, eftirlit á veitingahúsum, fylgst með þeim sem leigðu sali út til unglinga og mýmargt fleira. Með samstilltu átaki tókst nánast að útrýma reykingum og draga svo úr unglingdrykkju að við hrundum niður alla skala í evrópskum mælingum. Þetta var svakaleg vitundarvakning og gríðarlegur árangur.“

„Akkúrat. Mig minnir að talað hafi verið um íslenska módelið og þetta var talin markverð fyrirmynd. Þarna var sannarlega verið að hugsa um lýðheilsu og almannaheill en hvað gerðist svo? Það varð einhver græðgissprengja; ótrúleg markaðssetning á nikótíni, orkudrykkjum, áfengi, bætiefnum, fjörefnum, undraefnum og óefnum þar sem helst var höfðað til unga fólksins með hjálp svokallaðra áhrifavalda og samfélagsmiðlastjarna, fussum svei,“ hreytti Alli út úr sér þótt hann kallaði ekki allt ömmu sína.

Þar sem ég er frekar hallur undir það að einstaklingar hafi frelsi til athafna og ég styð frumkvæði og sjálfsbjargarviðleitni þá gat ég ekki alveg tekið undir fordæminguna. Frelsi verður þó að fylgja ábyrgð. Ef menn vilja hagnast á því að selja sem mest af vöru sem er sannanlega skaðleg ættu þeir hinir sömu e.t.v. að greiða hluta af hagnaði í forvarna- eða meðferðarsjóð. Það er ótrúlega klént og eigingjarnt að ætla að græða sem mest á fíkn annarra eða óvitaskap og ætlast svo til að ríkið, sem þessir sömu athafnamenn elska að hata, sjái um neikvæðu afleiðingarnar.

„Já, kannski þurfum við hreinlega að grípa í taumana, setja leikreglur, höft, miðstýra markaðnum,“ tautaði ég, eiginlega þvert um hug mér. „Það gengur ekki að kasta krökkunum okkar fyrir markaðsöflin á þennan hátt og láta það afskiptalaust að þau ánetjist óhollustu og skaðlegum lífstíl.“

„Akkúrat,“ sagði Alli aftur. „Íslendingar ættu að taka á sig rögg og banna þetta nikótínfargan og orkudrykki, alls ekki rýmka fyrir áfengissölu meira en orðið er, skrúfa fyrir tikktokk og snappsjatt, rassskella áhrifavalda og skikka þá til að vinna í fiski, banna dévaff, heimkaup og smartland og loka kringlunni. Þá yrði þjóðfélagið miklu betra.“

Þar með varð ég orðlaus og samtal okkar fjaraði út.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson bjástrar talsvert við ritstörf og kennslu

Apótekaralakkrísinn

Jóhann Árelíuz skrifar
08. september 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15

Sjálfbærni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
07. september 2024 | kl. 09:00

Hvað er svona merkilegt við það?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 06:00

Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 22:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30