Fara í efni
Pistlar

Gljávíðir

TRÉ VIKUNNAR - IV

Seinni part sumars árið 703 gekk yfir landið mikið austanveður. Bar það með sér töluverðan fjölda af fræjum víðitegundar sem kallast gljávíðir, Salix pentandra. Á þessum tíma voru engir stórir grasbítar á landinu og því var landið svo til algróið. Þess vegna áttu þessi víðifræ ekki mikla möguleika á að lenda á heppilegum stað til að geta spírað og vaxið. Aðeins einu fræi þeirra tókst það. Það lenti á rökum stað við árbakka þar sem áin hafði vaxið í leysingum um veturinn og myndað heppilegt set fyrir víðifræ. Þar spíraði þessi fyrsta gljávíðiplanta landsins. Þar óx með tímanum upp þessi fíni gljávíðir sem varð einir átta metrar á hæð og gnæfði yfir annan víði á árbakkanum. Þegar hann fór að blómstra kom í ljós að um karlplöntu var að ræða. Má fullyrða að þetta hafi verið mest einmana (eða eintrjáa) tré í allri álfunni, því ekkert annað tré af sömu tegund óx á landinu. Þar sem þessi gljávíðir blómstraði heldur seinna en allur annar víðir á landinu átti hann enga möguleika á að koma erfðaefni sínu til næstu kynslóðar. Reyndar er með öllu óvíst að hann geti myndað blendinga með þeim víðitegundum sem fyrir voru í landinu.

Gljávíðir á Akureyri. Augljóst er af hverju hann ber þetta nafn. Ljósmynd: Sigurður Arnarson.

Svo gerðist það þremur áratugum síðar að aftur barst gljávíðifræ til landsins. Ekki nóg með það. Það lenti skammt frá þessum gljávíði og náði að spíra. Liðu nú nokkur ár þar til hinn nýi víðir tók að blómstra. Ef hann hefði verið kvenkyns teldist gljávíðir til íslenskra víðitegunda í dag. Svo var ekki. Þetta var karlplanta. Þær áttu ekki möguleika á að fjölga sér á Íslandi og dóu út.

Gljávíðir í Mosfellsbæ. Stofninn framan við tréð tilheyrir öðru tré. Stofn víðisins sést samt á myndinni en er mun sverari og hallar til hægri á myndinni. Sjá má hann ofan við einkabílastæðaskiltið. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Auðvitað er þessi saga hreinn tilbúningur. Við vitum ekkert um hvernig veðrið var árið 703. Við vitum ekki heldur hvort gljávíðifræ hafi borist yfir hafið, lifað ferðalagið af og spírað hér. Þó má vel vera að það hafi gerst. En til að landnám geti tekist verða plönturnar að vera af sitthvoru kyni og vera svo nærri hver annarri, bæði í tíma og rúmi, að frjóvgun geti orðið. Til að tryggja erfðafræðifjölbreytileika þurfa að auki að berast nokkrar plöntur.

Gljávíðigræðlingur sem stungið var beint á vaxtarstað. Ljósmynd: Þráinn Gíslason.

Hvenær telst planta íslensk?

Það sem er þó merkilegast í þessari tilbúnu sögu er að ef plantan á að teljast íslensk telja margir að mestu máli skipti hvenær og hvernig hún barst til landsins. Í náttúruverndarlögum nr. 60/2013 er gert ráð fyrir að ef gljávíðirinn hefði sjálfur komið til landsins, án aðstoðar manna, hefði hann verið íslenskur, burt séð frá því hvenær það gerðist. Náttúrufræðistofnun lagði reyndar til að plantan hefði þurft að koma fyrir miðja átjándu öld til að teljast íslensk og þannig var það þegar lögin voru samþykkt árið 2013. Ef það ákvæði væri enn í gildi merkir það að ef gljávíðirinn hefði sjálfur komið til landsins á undan hreindýrunum væri hann íslenskur. Annars ekki.

Myndarlegur gljávíðirunni þann 21. 10. 2022. Hann er enn grænn á meðan aðrar lauffellandi tegundir eru lauflausar. Myndin tekin við fyrverandi sumarhúsalóð sem kallast Arnarbæli og er rétt utan við Guðmundarlund í Kópavogi. Ljósmynd: Þráinn Gíslason.

Árið 2015 var lögunum breytt og þetta ákvæði fellt úr gildi.

Aftur á móti er í gildi reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda. Þar má finna skilgreiningar á innlendum og erlendum tegundum.

Innlend tegund: Allar tölusettar tegundir í Flóru Íslands, 3. útgáfu frá 1948, og plöntur á lista yfir íslenskar plöntutegundir, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Útlend tegund: Allar aðrar plöntutegundir en innlendar tegundir.“

Gljávíðitré í garði í Kinnunum í Hafnarfirði þann 14. 10. 2022. Enn er það algrænt þótt langt sé liðið á hausti. Ljósmynd: Sigurður Arnarson.

Þannig að til að gljávíðir geti talist íslenskur yrði hann að hafa komið sér hingað sjálfur fyrir árið 1948 og þá verið talinn íslenskur. Það tókst honum ekki og er því útlend tegund sankvæmt reglugerðinni. Hann var að vísu kominn til landsins þá en hafði hvergi sáð sér út, svo vitað sé.

Í bráðabirgðaákvæðinu, sem vísað er til, segir að sérfræðinganefnd skuli gera tillögu um hvaða tegundir skuli skilgreindar sem innlendar. Þann lista hefur sá sem þetta ritar ekki séð.

Gamalt gljávíðitré í nágrenni við Reykjalund 15. 10. 2022. Öll önnur lauftré á svæðinu hafa hent laufum sínum en gljávíðirinn er enn grænn. Ljósmynd: Sigurður Arnarson.

Lýsing

Gljávíðir er lítið tré eða stór runni. Erlendis getur hann orðið um 14 metra hátt tré en gera má ráð fyrir að hér geti hann orðið um 10 metrar, ef hann fær tækifæri til. Algengara er þó að tegundin sé ræktuð sem limgerðisplanta og er þá að jafnaði klippt til. Þegar gljávíðir fær að vaxa stakstætt sem tré, eða í skjólbeltum, getur hann orðið einstofna eða tré með nokkra stofna. Gljávíðir er að jafnaði frekar hægvaxta og kræklóttur á Íslandi.

Blöðin eru aðalsérkenni þessa víðis. Þau eru mjög gljáandi og falleg. Ber hann af þeim nafn sitt á íslensku. Á ensku er hann gjarnan kallaður Bay willow eða Laurel willow því blöðin minna töluvert á lárvið sem gengur gjarnan undir nöfnum Bay tree eða Laurel tree. Um lárvið höfum við áður skrifað pistil sem má finna hér.

Lárviðarlauf. Laufin minna mjög mikið á gljávíði. Myndin úr pistlinum sem vísað er í hér ofar.

Gljávíðir finnst villtur um norðanverða Evrópu og norðurhluta Asíu. Hann er það norðlægur að hann er mun algengari í Skotlandi og norðurhluta Englands en í suðurhlutanum og í Veils.

Nærmynd af blöðum gljávíðis í haustsólinni í Sólskógum í Kjarnaskógi. Þetta er einn af nýju klónunum sem virðast standast gljávíðiryð betur en eldri gljávíðir. Ljósmynd: Sigurður Arnarson.

Gljávíðir á Íslandi

Maður var nefndur Schierbeck og var landlæknir á Íslandi. Hann var mikill áhugamaður um garðyrkju og trjárækt og stofnaði Garðyrkjufélag Íslands árið 1885 og starfar það enn. Við Aðalstræti 9 í Reykjavík ræktaði Schirebeck landlæknir garð. Í þeim garði var ein karlkyns planta af gljávíði sem óx vel. Af þessari einu plöntu kom nánast allur annar gljávíðir sem ræktaður var, áratugum saman, á Íslandi.

Maður var nefndur Árni Thorsteinsson og var síðasti landfógeti á Íslandi frá árinu 1861 til 1904. Hann fékk græðlinga af þessum víði Schierbecks landlæknis og gróðursetti í garð sinn við Austurstræti í Reykjavík nálægt aldamótunum 1900. Lengi var þetta einn þekktasti einkagarður landsins og gekk undir nafninu Landfógetagarðurinn eftir Árna. Garðurinn tilheyrði síðar Hressingarskálanum við Austurstræti 20 en hefur skipt um eigendur. Nú tilheyrir garðurinn næsta húsi en þar er starfræktur rokkbarinn Lemmy. Í garðinum stendur gljávíðirinn enn og er án efa frægasti núlifandi gljávíðir landsins. Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, útnefndi hann sem sérstakt borgartré árið 2012.

Einstaklega fallegt gljávíðilimgerði á Akureyri. Ljósmynd: Sigurður Arnarson.

Talið er víst að Þessi karlklónn hafi hingað borist frá Danmörku. Er hann fremur illa aðlagaður þeirri ljóslotu sem í boði er á Íslandi. Hann laufgast því fremur seint og stendur grænn langt fram á haust. Þessi „galli“ átti án efa sinn þátt í hversu vinsæll hann var á landinu. Hann lengdi nefnilega sumarið með því að standa grænn, þegar annar lauffellandi gróður fór í haustliti og stóð síðan lauflaus fram á næsta vor. Gljávíðirinn var alltaf grænn þar til frost skemmdu laufin. Að auki getur það verið kostur að laufgast fremur seint. Þannig sleppur hann við árásir víðifeta og annarra pöddutegunda sem átu lauf á öðrum víðitegundum snemmsumars. Svo virðist sem sumir íslenskir gulvíðiklónar hafi uppgötvað þetta sama trix á vorin.

Lengi vel var gljávíðir einna mest ræktaði víðirinn á Íslandi. Einkum var hann áberandi um sunnanvert landið. Nær allur víðirinn var lengi vel aðeins af þessu eina tré. Þetta var því allt sami klónninn. Enn er algengt að sjá þennan gljávíðiklón við gamlar sumarhúsalóðir á Suðvesturlandi og víðar.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistill um Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum. Smellið hér til að sjá allan pistilinn á vef félagsins.

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Hinn fágæti rúmenareynir og ný ættkvísl reynitrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
09. október 2024 | kl. 12:00

Fóa og Fóa feykirófa

Pétur Guðjónsson skrifar
08. október 2024 | kl. 16:30

Danstímar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. október 2024 | kl. 11:30

Heljarstökk í lestri

Jóhann Árelíuz skrifar
06. október 2024 | kl. 11:30

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00