Fara í efni
Pistlar

„Friðurinn heltekur mig alltaf“

DREKADAGBÓKIN - 4

„Það er sama hvað ég kem hingað oft,“ sagði fararstjórinn. „Friðurinn heltekur mig alltaf.“

Hann stóð þarna í merktum jakka, hallaði sér á göngustafinn sinn og beið rólegur á meðan hópurinn hans gekk um svæðið. Hann kom á hverjum degi, með örfáum undantekningum, og fylgdi hóp ferðamanna frá Mývatnssveit upp í Öskju. Saman höfðu þau hossast í torfærurútu yfir hraun og vatnsföll eftir fjallvegi númer 88 fyrr um daginn. Farþegarnir ný andlit í hvert skipti, en bílstjórinn og fararstjórinn að fara í hundraðasta skipti, plús mínus. 

Þegar rútan lagði í Vikraborgum, tók við tveggja og hálfs kílómetra ganga að Víti og Öskjuvatni. Stundum á brakandi grjóti og vikri, stundum á löngu föllnum snjó sem var tregur til þess að bráðna í 800 m hæð yfir sjávarmáli. Þegar ég kom fyrst upp í Öskju, var þoka yfir öllu. Ég hafði heyrt sögur af því þegar fólk kemur þarna í fyrsta skipti í heiðskírri stillu og fjöllin standa á haus í spegilsléttu vatninu. Slík upplifun getur hnikað við hjartslættinum og breytt sýn fólks á lífið. 

En það var þoka. Ég sá ekki einu sinni Öskjuvatn fyrr en almættið ákvað að ég væri tilbúin. Það var þakið þéttri skýjahulu og ég gekk um í rólegheitum og beið. Gaf mig á tal við fararstjórann. Ég hafði séð hann í skálanum í Drekagili, hann kom alltaf við hjá okkur með ferðamennina eftir að þau höfðu skoðað Öskju. Þar fengu sumir sér heita vöfflu og kaffibolla. Ég spurði hann hvort að það væri orðið hversdagslegt, að koma hingað uppeftir. 

Þá sagði hann þetta, um friðinn. Sama hvað hafði gengið á með hópinn, hossurnar, blaðrið á öllum heimsins tungumálum og glamrið í útvarpinu á leiðinni, þá helltist friðurinn yfir hann þegar komið var á áfangastað. Þögnin. Engin náttúruhljóð, nema þá ef vindur sé. Engir fuglar. Allt fótatak mannfólks er gripið af tóminu og berst ekki til eyrna. Og fólk talar lítið sem ekkert. 

 

Útsýnið var takmarkað til að byrja með. Hér sést ofan í Víti, en þokan byrgir sýn yfir Öskjuvatn sem ætti að birtast handan gígsins. Mynd: RH

Mér varð hugsað til þess þegar ég kom fyrst inn í Hóladómkirkju. Ég er ekki trúuð, að kirkjunnar sið, en trúuð að því leyti að ég hlusta á innsæið. Þegar ég geng inn á heilagan stað, þá hljóðna ég. Anda hægar. Hlusta betur. Stíg létt til jarðar. Á Hólum er kirkjan vissulega manngerð, staðurinn var valinn og byggður upp af mönnum. Hvað það er nákvæmlega, sem gerir staðinn svona heilagan í hjarta mínu, er ég ekki alveg viss um. Kannski að hluta til af því að hann er gamall kirkjustaður með mikla sögu.

En kannski er sögulegt samhengi ekki það mikilvægasta; aðeins huglægt verðmæti, en ekki tilfinningalegt. Það eru svo mörg sem hafa setið hér á undan mér og fundið til. Kannski getur mannleg viðkvæmni safnast saman í tímans rás og orðið varanleg. Ég veðja frekar á þá kenningu heldur en dauðu biskupana undir gólfinu.

Askja er ekki manngerður helgidómur, heldur náttúrulegur. Ein af uppsprettum Jarðarinnar til endurnýjunar. En tilfinningin var ekki ósvipuð. Ég gekk hægar, talaði lægra, andaði dýpra. Fuglabjargið sem fylgdi hópum ferðamanna sem komu inn í skálann í Drekagili var víðsfjarri - hópurinn gekk um eins og í leiðslu og virti fyrir sér eyðilegt og hljóðlegt umhverfið. Fljótlega, eftir að ég ræddi við fararstjórann, tók þokan að þynnast. Kannski vorum við loksins öll tilbúin.

Þokunni léttir og nú sést móta fyrir víðáttumiklu Öskjuvatninu. Mynd: RH
_ _ _

  • Í Drekadagbókinni eru hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar í Drekagili við Öskju, þar sem hún sinnti skálavörslu sumarið 2024 fyrir Ferðafélag Akureyrar. Höfundur er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net.

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00

„Ertu gjörsamlega orðinn galinn?“

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
14. september 2024 | kl. 06:00

Hver á að ala upp barnið mitt? Við þurfum allt þorpið

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
13. september 2024 | kl. 06:00

Reiði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. september 2024 | kl. 08:50

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45