Fara í efni
Pistlar

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

ORRABLÓT - X

Tveir félagar voru að leika saman snóker. Annar var nýkominn heim úr heimsreisu og fór mikinn í frásögn sinni af framandi fólki og löndum.

Í einni sögunni var hann staddur í fjarlægu landi, sem ég kann ekki að nefna, þar sem heimamenn töluðu alls enga ensku, hvað þá íslensku. Gerðist nú okkar maður soltinn og rölti inn á veitingastað. Allt var á sömu bókina lært, matseðillinn var einungis á móðurmálinu sem hann botnaði hvorki upp né niður í.

„Og hvað gerðirðu þá?“ spurði félaginn við snókerborðið.

„Nú, mig langaði mest í nautasteik, þannig að ég brá bara á það ráð að baula – hátt og snjallt.“

„Og dugði það?“ spurði félaginn.

„Já, ég fékk þessa fínu steik.“

Að því sögðu lagði félaginn kjuðann frá sér og mælti: „Það var eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!“

Lítið mál að panta nautastseik þótt maður tali ekki tungumálið. Bara að baula hátt og snjallt. – „Það er eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!“

Þau samtöl sem maður varð ekki vitni að á Billanum í gamla daga. Ekki man ég hvað sú ágæta stofa hét fullu nafni, Billiardstofan eða hreinlega bara Billiard, enda skiptir það engu máli, enginn þekkti hana undir öðru nafni en Billinn.

Billinn var í miðju Gilinu í áttunni, að sunnanverðu. Athvarf ungmenna og öðrum þræði menningarleg uppeldisstofnun, þannig lagað séð. Sjálfur kom ég þarna oft og iðulega, til að spila snóker en þó aðallega út af félagsskapnum. Hvort sem það var við mitt borð eða það næsta eða þarnæsta.

Einu sinni var ég á Billanum með Eiríki Árna Oddssyni vini mínum. Að garði bar kunningja okkar sem greindi okkur frá því í óspurðum fréttum að hann væri á leiðinni suður, akandi með manni sem okkur bar öllum saman um að væri ekki í hópi þeirra skemmtilegustu í bænum.

„Og verðið þið bara tveir í bílnum?“ spurði Eiki.

„Já,“ svaraði kunninginn áhyggjufullur.

„Þá skaltu taka með þér vasadiskó!“

Eiki gat verið með hnyttnari mönnum, þegar sá gállinn var á honum. Hann kvaddi okkur alltof snemma. Blessuð sé minning Eika Odds!

Oftast kom ég þarna með aldavini mínum Hjalta S. Hjaltasyni, sem í dag er sérfræðingur í öryggismálum flugvalla. Hann náði að verða þrælgóður í snóker (púl þótti bara vera fyrir eymingja) og vildi mæta oft og reglulega til að halda sér við efnið. Ég fylgdi bara með, náði aldrei að verða meira en slarkfær. Hafði þó iðulega gaman af enda alltaf ljúft að fylgjast með mannlífinu þarna.

Sitthvað fleira var við að vera á Billanum. Þar var huggulegur sjónvarpskrókur en lítið notaður enda engar aðrar stöðvar til á þessum tíma en Ríkissjónvarpið. Stöð 2 skrölti ekki norður fyrr en löngu eftir að hún fór í loftið í Reykjavík. Einhverjir þættir voru þó sýndir viku eða mánuði síðar gegnum systurstöð í kjallara á Akureyri og ég man að minn gamli félagi Hallgrímur Óskarsson, Júróvisjóntónskáld og ráðgjafi með meiru, var þulur. Það kemur þó Billanum ekkert við. Hvað eruð þið að teyma mig í þessar ógöngur?

Að vísu horfðu allir viðstaddir stíft á sjónvarpið þegar Bjarni Fel. greindi frá því í íþróttafréttum að ungur Akureyringur, Viðar Freyr Viðarsson, kallaður Geili, hefði orðið Íslandsmeistari í snóker. Klappað var og stappað af því tilefni enda Geili fastagestur á Billanum. Svo var hann allt í einu orðinn landsfrægur í sjónvarpinu. Það þótti ekkert smáræðis smart. Það sem maður hefði ekki gefið á þessum tíma fyrir að heyra Bjarna Fel. segja nafnið manns!

Ekki dró þessi vegtylla Geila úr snókeráhuganum á Akureyri.

Hallgrímur Óskarsson, Júróvisjóntónskáld og ráðgjafi með meiru til hægri. Vinstra megin er indverska listakonan Gauri Gill. Hún er ekki sonur Gilla á Billanum ... 

Þarna var líka spilasalur en ég náði aldrei neinni tengingu við tölvuleiki í bernsku, né nokkru sinni síðar. Við innganginn var klefi, þar sem menn gripu um stýri og kepptu í kappakstri. Ég sé minn gamla bekkjarbróður úr Glerárskóla Kristján Albert Guðbjörnsson alltaf fyrir mér í klefanum. Hann var ábyggilega á heimsmælikvarða í þeim ágæta leik. Langt síðan ég hef séð eða heyrt í Stjána. Bið kærlega að heilsa honum ef þið rekist á hann!

Í afgreiðslunni mátti fá þessar líka ljómandi fínu skinkusamlokur og ekki versnuðu þær ef maður bað líka um kokteil og krydd. Finn ennþá ilminn og jafnvel bragðið þegar ég hugsa um þetta.

Þær afgreiddu miklir höfðingjar, meðal annarra Jón Pétursson, sonur Péturs Jónssonar vörubílstjóra. Hann var alltaf hress. Einnig má nefna Gísla Jóhannsson, samstúdent minn úr MA, sem eðli málsins samkvæmt gekk jafnan undir nafninu Gilli á Billanum. Síðasta haust taldi ég mig raunar hafa fundið son Gilla á ægilega fínni ljósmyndasýningu í Lundúnum þegar ég rak augun í nafn eins listamannsins. Þar stóð skýrum stöfum Gauri Gill. Þegar betur var að gáð var Gauri þessi ekki héðan úr fásinninu heldur frá Indlandi og þess utan alls ekki gaur, heldur kona á miðjum aldri.

Sum sé alls ekki sonur Gilla á Billanum.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Blýdátar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
24. júní 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Hafnarstræti 63; Sjónarhæð

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. júní 2024 | kl. 09:50

Regnbogagífur og börkur gífurtrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
19. júní 2024 | kl. 11:00

Samtalsráðgjöf við spunagreind, leiðbeiningar fyrir mannfólk

Magnús Smári Smárason skrifar
18. júní 2024 | kl. 12:00

Stillansar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. júní 2024 | kl. 11:30

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00