Fara í efni
Pistlar

Einmanaleiki

Mbl. vitnaði þann 11. nóv s.l. í skýrslu OECD um að einmanaleiki fari vaxandi í löndum Evrópu. Þetta fékk ekki mikla umfjöllun eða vakti neinar umræður. En þetta er samt afar áhugavert því hvergi eru lífsgæði betri eða ríkidæmi meira og áhrifin á okkur öll meiri en okkur grunar.

Orsakir eru ekki skýrar en skýrsluhöfundar telja að aukin notkun snjalltækja og einangrun í Covid faraldrinum hafi haft mikil áhrif. Ýmsar fleiri orsakir hafa verið þekktir lengi eins og samfélagsgerðir með skautun og mismunun, menning með sjálfmiðun og útlitsdýrkun. Skert félagsheilsa, streita og rofnar fjölskyldur. Stríð og samfélagsleg átök og falsfréttir sem ýta undir tilgangsleysi og hörmungarhyggju. Og ekki síst aukin vímuefnaneysla (þar með talið áfengi).

Einmanaleikakennd er líklegast að aukast líka en það er sú tilfinning eða líðan að finna einmanaleika, þrátt fyrir að vera innan um fjölda fólks. Að finna ekki tengingu, geta ekki miðlað skoðunum sínum, löngun, von eða vanda og fá ekki stuðning, viðbrögð eða andsvar.

Slíkar aðstæður eru manneskjunni óhagstæðar og ekki lífvænlegar og geta haft alvarlegar afleiðingar bæði á geð- og félagsheilsu einstaklinga eða samfélagið allt.

Svo mikilvægt er þetta að í raun ætti skýrsla OECD að vekja jafn mikla athygli og umfjöllun og skýrslur um aukningu gróðurhúsaáhrifa.

Er þá hægt að gera eitthvað í þessu?

Já svo sannarlega. En ekki bíða bara eftir næstu skýrslu.

Byrjaðu strax á sjálfum þér. Hvort sem andleg líðan þín er góð eða slæm og óháð félagslegum styrk þínum. Reyndu að vanda samskipti og rækta vináttu. Efldu eigin félagsheilsu og styrktu þá sem veikari eru í umhverfi þínu og leggðu þitt af mörkum til samfélagsins.

Í þessu samhengi hefði ég sjálfur áhuga á að fá meiri umfjöllun um áhrifamátt skapandi hugsunar. Meðfæddir eiginleikar okkar og hæfileikar sem við getum þjálfað til sköpunar eru mannlegir ofurkraftar. Þeir búa í okkur öllum hvort sem við erum listfeng eða ekki. Þeir birtast í uppeldinu, í náminu, í rekstri fyrirtækja, í trúnni, í stjórnmálunum og í nánustu samskiptum og ekki bara í listiðkun. Þessi mikilvægi eiginleiki og hæfileiki sem skapandi hugsun er á upphaf og heimilisfesti í þessu magnaða líffæri heilanum, þrátt fyrir að við segjum gjarnan í myndlíkingunni: þetta kemur frá hjartanu.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Djúpstæð augu sviðakjammanna

Jóhann Árelíuz skrifar
16. nóvember 2025 | kl. 06:00

Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. nóvember 2025 | kl. 11:30

Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun

Sigurður Arnarson skrifar
12. nóvember 2025 | kl. 09:30

„Brave“

Michael Jón Clarke skrifar
10. nóvember 2025 | kl. 17:00

Hús dagsins: Aðalstræti 40 (Bibliotekið)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
10. nóvember 2025 | kl. 06:00

Rauði Skódinn

Jóhann Árelíuz skrifar
09. nóvember 2025 | kl. 06:00