Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

TRÉ VIKUNNAR - 112
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Svokallaðar barkarbjöllur, eða Scolytinae, hafa valdið gríðarlegu tjóni á skógum víða um heim. Tjón af þeirra völdum má meðal annars sjá víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Sem betur fer hafa þær ekki valdið tjóni á Íslandi og lengst af hafa þær ekki einu sinni sést hér á landi. Svo bárust þau tíðindi að sumarið 2024 hafi þau Matthías Alfreðsson hjá Náttúrufræðistofnun og Brynja Hrafnkelsdóttir hjá Landi og skógi fundið barkarbjöllur á Íslandi. Því er ekki seinna vænna en skenkja þessum bjöllum nokkra þanka.

Barkarbjalla af tegundinni Ips typographus er sú tegund sem valdið hefur mestum skaða í Evrópu. Myndina fengum við héðan en hana á Gilles San Martin.
Um barkarbjöllur
Ein af undirættum ranabjallna, Curculionidae, kallast barkarbjöllur, Scolytinae. Þetta er fjölbreyttur hópur og hafa verið greindar um 6500 tegundir í heiminum (Brynja og Matthías 2025). Þær hljóta nafn sitt af því að þær bora sig inn í lifandi eða dauð tré og verpa eggjum sínum í börkinn.
Meirihluti barkarbjallna lifir einungis á dauðum trjám og valdur engum skaða á skógum. Þvert á móti. Þær gegna mikilvægu hlutverki við að brjóta niður gamlan við og hraða hringrás næringarefna í skógunum. Að auki mynda þær þessa fínu fæðu fyrir ýmis skógardýr. Þótt slíkar bjöllur valdi skóginum ekki skaða geta þær skemmt við í geymslu, enda er hann dauður. Sumar af þessum barkarbjöllum gera ef til vill ekki mikinn mun á dauðum við eða við trjáa sem eru veikluð á einhvern hátt. Þær tegundir sem næra sig á lifandi trjám lifa fyrst á fremst á gömlum eða veikluðum trjám sem eru á fallandi fæti.
Þegar faraldrar geisa geta sumar tegundir lagst á lifandi tré og valdið þeim miklum skaða.

Lífsferill í trjám
Barkarbjöllur bora göt í börk lifandi eða dauðra trjáa og verpa þar. Ef þær eru svo óheppnar að bora sig inn í börk lifandi trjáa í góðum þrifum geta trén lokað slíkum göngum með trjákvoðu og kæfa þannig árásirnar í fæðingu. Öðru máli gegnir ef trén eiga undir högg að sækja, til dæmis vegna slæmra umhverfisaðstæðna. Helst eru það þurrkar sem geta veikt varnir trjánna en barkarbjöllufaraldrar geta einnig orðið í kjölfar annarra áfalla eins og stormfalls. Þá hafa trén ekki orku til að loka göngunum sem bjöllurnar grafa. Þegar svo árar verpa barkarbjöllurnar inni í trjánum og þar klekst út fjöldi barkarbjallna sem bora sig út úr trénu og sækja á nálæg tré. Jafnvel heilbrigð tré ráða ekki við slíka fjöldaárás. Afleiðingar geta orðið faraldrar sem magnast stig af stigi og geta farið yfir mjög stór svæði. Sem betur fer þekkjast slíkir faraldrar ekki á Íslandi. Að minnsta kosti ekki enn (Guðmundur og Halldór 2014, Brynja og Matthías 2025). Við viljum benda áhugasömum lesendum á þessa grein um stöðu mála í Evrópu.

Nánari lýsing
Í fyrirlestri sínum á fagráðstefnu skógræktar í Hallormsstað veturinn 2025 lýsti Brynja Hrafnkelsdóttir þessum lífsferli aðeins nánar og er þessi kafli byggður á þeirri lýsingu. Reyndar er sá fyrirlestur helsta heimild þessa pistils. Það eru karldýrin sem bora sig inn í börk trjánna og gera lítil göng. Þegar inn er komið gefur karldýrið frá sér boðefni, eða svokallaða ferómóna, sem berast út úr göngunum og laða að kvendýr nema tréð nái að loka karldýrið inni með trjákvoðu. Takist trénu það er sögunni einfaldlega lokið. Þessi boðefni eru algerlega ómótstæðileg fyrir kvendýrin og tilkippilegar bjöllur flýta sér inn í göngin sem mest þær mega. Inni í göngunum á mökun sér stað og varp getur hafist. Það eru engin takmörk fyrir því hversu margar kvenkyns bjöllur geta fallið fyrir þessari lykt og mætt á svæðið en karlinn ræður ekki við að makast við nema tvær til þrjár kerlingar. Eftir mökun bora kvendýrin lítil göng út frá megingöngunum og verpa í botn þeirra. Þegar lirfurnar klekjast úr eggjum nærast þær á berkinum og bora sig smám saman áfram. Þannig myndast fjölmörg göng út úr göngunum sem karldýrið boraði fyrst.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Uppá eldhússkápnum

Heilbrigt vantraust

Njósnir í skólastofunni

Sístöðulaust óhljóð frá hjartanu
