Fara í efni
Pistlar

„Á fjöllum er klukkan ekki neitt“

DREKADAGBÓKIN - 1

Ég fékk tækifæri til þess að vera skálavörður í sumar í Drekagili, við Öskju. Ég hef alltaf verið heilluð af óbyggðum, hvað sem það kann að merkja. Hvort það er fjarlægðin við manngerða veröld eða nálægðin við náttúruna, er erfitt að segja. Ég er einhversstaðar þarna á milli.

Ég fékk far upp í Drekagil með Einari Hjartarsyni, en hann er hjá Ferðafélagi Akureyrar og sér um að útvega fjallaskálum félagsins lífsins nauðsynjar; þá helst olíu, gas og vistir. Við vorum stödd í Herðubreiðarlindum þegar hann sagði þessa setningu, „á fjöllum er klukkan ekki neitt,“ og ég spáði lítið í það á þessari stundu, enda nýkomin í öruggt skjól frá þjóðveginum. 

Ég komst svo fljótlega að því, að orð hans voru beint í mark. Ég var ekki búin að vera lengi í Drekagili þegar mér fór að standa á sama um jafn mikið lítilræði og tímasetningu. Engu skipti hvaða dagur var, og því síður hvað klukkan sló. Klukkan var eitthvað og það var dagur á hverjum degi. Alls kyns fólk stoppaði hjá okkur og gisti, tjaldaði eða lagði sig í skála. Mismunandi andlit, þjóðerni, bros, hrukkur, hreimur og fas. Ég var sérstaklega heilluð af vísindafólkinu.

Askja og eyðilegt umhverfi hennar er fjársjóður fyrir ástríðufullan jarðfræðing. Hjá okkur gistu og störfuðu nokkrir hópar vísindamanna á meðan dvöl minni stóð og ég var mjög forvitin um þetta fólk. Ég átti langt spjall við reynslumikinn ítalskan vísindamann, sem sagði mér frá rannsóknum hópsins sem hann tilheyrði, en þau voru búin að sitja inni hjá okkur í kaffisölunni þegar veðrið var vont, að skoða hraunmola með gríðarlegri einbeitingu. 

Dularfullt er í Drekagili, og klukkan er ekki neitt. Mynd: RH

Hann sýndi mér mismunandi hraun, í sumum steinunum var vel hægt að sjá hvítar bergmyndanir, en í öðrum voru bara holrúm þar sem loft hafði orðið innlyksa í kvikunni. Hann sagði mér, að með hjálp þessara hvítu bletta í hrauninu, gætu þau komist að ýmsum leyndardómum. Gosin höfðu orðið undir jökli, þegar landið okkar var hulið ísaldarjökli. Með því að rýna í molana, gátu þau áætlað hversu þykk ísbreiðan var, og þannig fyllt út í tímalínu og séð hversu hratt jökullinn hafði bráðnað. Hraunið storknaði á mismunandi hátt, eftir því hvað það kom upp á yfirborðið undir þykkum jökli. Ef ég skildi hann rétt. Hann var með mjög sterkan ítalskan hreim á annars mjög góðri ensku. 

Hann var aðeins hluti af stærra teymi vísindamanna, sem störfuðu víðsvegar um heiminn. Áður hafði hann verið staðsettur á Antartíku, en hann sagði mér frá fólki sem hann þekkti sem væri núna á miðjum jöklinum þar. Þau voru að bora djúpa holu í gegnum ísinn, sem er 3.000 metra þykkur, að hann sagði. Með því að rannsaka loftið sem hafði orðið innlyksa í ísnum, gátu þau áætlað hitastig jarðarinnar langt aftur í tímann. Þannig gátu þau teiknað upp hitasveiflur jarðarinnar allt að 800 þúsund ár aftur í tímann, þar sem kæmi greinilega fram að hitinn hafði hækkað og lækkað í mjög taktföstum bylgjum.

Eina frávikið væri að eiga sér stað í nánasta nútíma. Þegar iðnbylting mannanna ruddi sér rúms, hætti línuritið á þeirri niðurleið sem það var, og tók að stíga upp á ný. Þvert á gangverk jarðarsögunnar. Í hans huga var hlýnun jarðar af mannavöldum eins raunveruleg og ég og hann, sitjandi með kolsvarta hraunmola úr iðrum jarðar, í kaffistofu uppi í fjöllum - þar sem klukkan er ekki neitt.
_ _ _

  • Í Drekadagbókinni eru hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar í Drekagili við Öskju, þar sem hún sinnti skálavörslu sumarið 2024 fyrir Ferðafélag Akureyrar. Höfundur er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net.

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00

„Ertu gjörsamlega orðinn galinn?“

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
14. september 2024 | kl. 06:00

Hver á að ala upp barnið mitt? Við þurfum allt þorpið

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
13. september 2024 | kl. 06:00

Reiði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. september 2024 | kl. 08:50

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45