Fara í efni
Pistlar

Selshreifar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 63

Það var út af því að ég var í náðinni hjá Sigmundi afa, og líklega nafns míns vegna, að ég fékk að fylgja honum inn að æðstu tunnunni í búrinu undir eldhúsinu í Helgamagrastræti.

En hún geymdi selshreifar. Raunar svo súrsaðar að hætti gamla mannsins að nasavængirnir áttu það til að blakta við lyktina eina, en kjafturinn var þess utan þaninn af þræslu, svo duglegur sem daunninn var af öllu saman. Afa fannst það hæfa. Og sagði það allt saman losa líkamann við illa anda og annað það sem kirkjan sagði vera ógott inni í sálu manns. Svo það væri nú til einhvers að innbyrða allan þennan kæsta kost.

En við sátum lengstum í suðurbrekkunni, litlu undan kartöflugarðinum á landareigninni hans afa. Hvor með sinn hreifinn við hönd. Og kannski annan til vara undir síðunni. En kúnstin var að sjúga, miklu heldur en að naga, því fitan var svo laus á kjúkunum að hún rann upp í kjaftinn eins og hver önnur súrmjólk að morgni, en þó lítið eitt hlaupkenndari og átti það til að renna til í túlanum, býsna tilviljanakennt, og gott ef ekki torræð á tungunni.

Og mikið sem þetta mýgur í munni, hafði afi á orði í þessum garðveislum okkar þegar hann renndi niður hverjum skankanum af öðrum, svo fagurlega sköpuðum, að það var sem fínlegasta barnshönd rynni uppi í hvoftinn á honum, sællegum bóndanum úr ystu byggðum landsins, sem var að reyna að sætta sig við tiltölulega litlaust lífið á mölinni.

Mörgum árum seinna, og raunar uppi á allt annarri öld, og löngu eftir daga afa, stóð ég sjálfan mig að því að ganga um á niðjamóti ættarinnar í Ófeigsfirði með vel súran selshreif í hönd, innan um fallega upplýst fellihýsin og húsvagnana. Og ég gat ekki annað séð á forviða tilsjáendunum, einkum unga fólkinu, en að ég væri nokkuð undarlegt eintak af manni.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: ÚTVÍÐAR

Núvitund á mannamáli

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
04. nóvember 2025 | kl. 10:00

Á Miðhúsum

Jóhann Árelíuz skrifar
02. nóvember 2025 | kl. 06:00

Losnaði aldrei við höfuðverkinn

Orri Páll Ormarsson skrifar
31. október 2025 | kl. 18:00

Vorboðinn ljúfi

Sigurður Arnarson skrifar
29. október 2025 | kl. 09:30

Tár

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
28. október 2025 | kl. 11:00

Hús dagsins: Aðalstræti 2

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. október 2025 | kl. 22:00