Fara í efni
Pistlar

Skólataska

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 98

Skólataska var yfirlýsing. Hún merkti haust og herðingu vetrarins. En jafnframt hlýju vinskapar og þéttingu hópsins eftir margra mánaða aðskilnað. Því þó að sumarið hefði verið kærkomið, svo til misserinu áður, var farinn að sækja að manni söknuður svo litlu seinna eftir bekkjarfélögunum af Brekkunni sem höfðu dreift sér um dali og sveitir yfir sumarmánuðina, og tekið þar til við að moka út úr kýrhúsum og koma skikki á skarðan heyskapinn.

Í endurminningunni – sjálfu umlitinu – er bekkur það samfélag sem situr hvað sannast í minni manns. En við kenndum okkur öll við skólastigin sem tóku hvert við af öðru. Við vorum bekkurinn hennar Áslaugar, eða Birgis og Benna. Og slík voru eylöndin. Innan okkar litlu skólastofu vorum við sameinuð í leik og starfi, og gilti einu um veðrin, því við þéttum bara raðirnar ef það tók í útveggina.

Vinskapur verður ekki til úr engu. Hann er ættaður úr innsta búri tilfinninganna sem brumar einmitt um það leyti sem félagslyndi finnur sér pláss í sálu manns. En því næst er blómgunin. Einmitt sú sannfæring að maður breiði úr sér á sama hraða og aðrir manns líkir í einu og sama hverfinu.

Það er nefnilega öðru fremur svo að þeir sem blómstra á sama tíma lífsins munu eilíflega endurtaka þá stundu í lífi sínu. Í hvert sinn sem þeir hittast gerist það sama innra með þeim. Þeir yngjast í háttum og hugsun – og þrá það eitt að springa út að nýju, og vera eilíf börn um stund.

Gamla skólataskan fer nefnilega ekki svo glatt af baki nokkurs manns. Við erum bundin henni í svo margvíslegum skilningi, einkum og sér í lagi sakir þess að við viljum halda í æskuna, og blessa það bernska og saklausa í fari okkar, sem okkur hefur lærst á langri leið að er einmitt það máttugasta, en líka það sannasta sem fer um æðar okkur og innra far. Því þaðan erum við komin. Og við kunnum ekki annað.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: FRETUR

Saga elris

Sigurður Arnarson skrifar
01. október 2025 | kl. 10:00

Fretur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. september 2025 | kl. 11:30

Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. september 2025 | kl. 09:00

Gulrótnastuldurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
28. september 2025 | kl. 06:00

Framhleypnir og digurmæltir

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
27. september 2025 | kl. 06:00

Haust- og vetrarundirbúningur trjáa

Sigurður Arnarson skrifar
24. september 2025 | kl. 07:30