Fara í efni
Pistlar

Rabarbari

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 96

Í bakgarðinum bar rabarbarinn af. Hann var kórónan í matjurtarbeðinu og stóð þar hæst með stilka sína og laufblöð sem lágu eins og þakhvelfing yfir moldu jarðar á okkar skika Espilundar.

Allt byrjaði þetta sem veikur vorgróður undir rísandi sól, og brumin svo bág að maður gat allt eins ætlað að vöxturinn væri vonlaus. En rabarbarinn afsannaði það allt saman, svo snöggur sem hann snaraði sér úr moldu þegar frerinn fór úr jörðu, en það var ekki laust við að maður héldi með honum aftan við hús, því hann flutti með sér blómgunina, frjóvgunina, þau sannindi að sólin bæri ávöxt.

Ekkert spratt jafn hratt úr foldu. Og fátt færði meiri sönnur á að sumarið hefði fullnaðarsigur á ferlegheita vetri, en loks myndi djarfa fyrir dásamlega góðri tíð.

Við krakkarnir á Syðri-Brekkunni áttum okkur félagsheimili undir þessum gróðri jarðar, sem var slíkrar náttúru að veita okkur skjól og vernd frá regni og vindum, þá sjaldan þau verri veðrin voru til staðar í botni Eyjafjarðar. En þar kenndum við hvort öðru að reykja njóla, og hvernig við gætum losað okkur sem hægast við hóstann af því að teyga rammann reykinn niður í viðkvæm lungun, en við lærðum líka að tala saman, stelpur og strákar í götunni, sem ólust upp í virðingu hvert í annars garð, hvað allt saman lagði grunninn að tryggðavinskap ævinnar.

Það er arfleifðin. Endurminningin. Undir rabarbarabeði.

Og maður er vaxinn upp úr þessari sömu moldu og fjörgaði tröllasúruna, eins og grænmetið það arna var stundum kallað á heimaslóðunum. En mikil ósköp, því andlag alls þessa var rabarbarasulta með steikinni, hjónabandssæla, grautur með rjóma og pönnukökur með eina sanna maukinu sem hefur þá hæfulegustu blöndu sætinda sem breiðir út fegursta brosið í samfélaginu.

Æ síðan í lífi mínu hefur verið kinkað kolli til rabarbaragarða.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: REYKT

Tvístígandi

Jóhann Árelíuz skrifar
07. september 2025 | kl. 06:00

Hvar eru geitungarnir grimmu?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
06. september 2025 | kl. 06:00

Stál og hnífur stöðvuðu svefninn

Orri Páll Ormarsson skrifar
05. september 2025 | kl. 11:30

Geðheilsa aldraðra

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. september 2025 | kl. 12:30

Arnold Arboretum

Sigurður Arnarson skrifar
03. september 2025 | kl. 09:00

50 kall

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. september 2025 | kl. 11:30