Fara í efni
Pistlar

Fretur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 99

Það voru uppi mikil áhöld um það á heimilinu hvort Sigmundur afi gæti haldið aftur af náttúrulegum og næsta frjálslegum fretum sínum í fermingu Gunna bróður í okkar allra helgustu Akureyrarkirkju, þegar sjálfur frumburður fjölskyldunnar var fenginn til að staðfesta skírn sína á því herrans ári 1970.

Gamli Strandabóndinn var nefnilega ekki vanur að láta álit annarra hafa áhrif á búkhljóð sín, þá gjarnan þeim var til að dreifa.

Og alveg sérstaka ánægju hafði hann af því ef hægt var að losa um innibyrgt loftið í stigatröppum. Þar voru kjöraðstæðurnar komnar að hans viti. En þá var atgangurinn líka hvað greiðastur út um afturendann.

Svo hann lét heyra hvað hæst ef haldið var á tröppur, stiga og þrep.

Vandi familíunnar var sá að uppstigið er all nokkurt að sjálfu altarinu fyrir botni Akureyrarkirkju. Ein fjögur, ef ekki er farið alltof illa fyrir minni manns. Og afi fermingabarnsins, fengi auðvitað að ganga þangað til altaris á stóru stundinni, sem á að breyta barni í bráðharnað fullmenni.

Og engin kirkja á landinu hefur fegurri og hreimstærri hljómburð.

Gunni bróðir lenti í þessu fyrstur okkar systkina. Það kvað við í hverju skrefi hjá gamla manninum. Og ári seinna heyrði Sigrún systir víst sömu ómana um alla kima guðshússins, svo ekki var um að villast hvað olli hávaðanum.

Svo lengi vel langaði mig ekki að fermast. Ekki fyrir nokkurn mun.

Ég átti við þá sálarangist að stríða fram eftir fyrstu táningsárum mínum að afi myndi eyðileggja sjálfsmynd mína. Altso, með ættarfretunum á örlagastundu.

Enda sá ég mig fyrir í hvítum kyrtli í saklausum hópi barna í Akureyrarkirkju vorið 1975, sannfærðum um hvað biði mín í ómmesta guðshúsi Íslands.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Undanfarin misseri hafa birst vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Þessi er sá síðasti að sinni.

Saga elris

Sigurður Arnarson skrifar
01. október 2025 | kl. 10:00

Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. september 2025 | kl. 09:00

Gulrótnastuldurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
28. september 2025 | kl. 06:00

Framhleypnir og digurmæltir

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
27. september 2025 | kl. 06:00

Haust- og vetrarundirbúningur trjáa

Sigurður Arnarson skrifar
24. september 2025 | kl. 07:30

Í beinan kvenlegg

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. september 2025 | kl. 12:00