Fara í efni
Pistlar

50 kall

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 95

Það var alltaf sama verðbólgan á Akureyri í æsku minni, en pabbi hafði á orði að peningar fuðruðu upp á báli einnar kvöldvöku, en lægju verðlausir daginn eftir.

Við krakkarnir skildum náttúrlega ekki baun í svoleiðis eldri manna áhyggjum, sem áttu það til að teygja sig ofan í kviðinn, og gaula þaðan kvöldlangt.

En þó man ég eftir einu atviki frá bernskudögunum sem sagði mér söguna af sífellt minna slagti krónunnar. Því eitthvert vorið hafði ég fengið tíkall fyrir að draga golfkerru Jóns G. Sólnes eftir gamla golfvellinum á bakkanum við syðri enda Þórunnarstrætis – og þá erum við að tala um allar níu holurnar í tvígang – en það var varla liðið fram að haustmánuðum en karlinn laumaði til mín nýlega slegnum fimmtíu kalli fyrir eitt og sama viðvikið. Og þvílík viðbrigði, því aldrei hafði maður handleikið álíka mynt, með innslegnu Alþingishúsinu á bakhliðinni, svo eitthvað stóð nú til í lífi þjóðar, að litlu barnshjartanu fannst.

En þá var þetta bara trix að sunnan, sögðu efasemdarmenn á Syðri-Brekkunni, og bauð í grun að peningar eyjarskeggja stækkuðu meira að tölu en verðgildi.

Því allt óx. Ekkert hélt aftur af sér. Lítið sápustykki varð alltaf að kosta svo miklu, miklu meira en síðast, þegar talið var upp úr tómlegri buddunni, en þar var einmitt fiðringurinn kominn; hafði allt það heila hækkað um fimmtíu prósent, eða mátti það heita fimmhundruð prósent?

Heima í Espilundi var samtalið á að giska alvarlegt. Pabbi sá um innkomuna. Mamma um útgjöldin. Og hvort það væri virkilega svo komið að gamli græni fimmhundruð karlinn með Hannesi Hafstein á framhliðinni dygði ekki lengur fyrir vikuinnkaupunum, var rasandi spurning á vörum föður míns.

Og þá ekki síður hin, svo örfáum misserum síðar, að brúni fimmþúsund kallinn með Einari Ben í forgrunni, væri líka orðinn of veikur fyrir vikuskammtinn.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: RABARBARI

Helstu elritegundir

Sigurður Arnarson skrifar
03. desember 2025 | kl. 09:30

Veldu þinn takt á aðventunni

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
02. desember 2025 | kl. 06:00

Hversdagshetjur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 09:00

Fjalla-Bensi

Jóhann Árelíuz skrifar
30. nóvember 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 42

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. nóvember 2025 | kl. 06:00

Úrillt og ráðvillt trippastóð

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. nóvember 2025 | kl. 10:00