Reykt

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 97
Það gat aldrei orðið svo að öllum aflanum sem pabbi bar að landi eftir laxveiði sumarsins í Fnjóská og Laxá í Aðaldal væri sporðrennt ferskum ofan í kviðinn á heimilisfólkinu í Espilundi. Því slíkar voru birgðirnar sem keyrðar voru í kössum yfir Vaðlaheiðina að taka varð til ráða af öðru tagi, en það var grafið, pæklað og hert, en einkum þó reykt að ráði Þingeyinga, sem þóttu lagnastir með laxfiskinn.
Ástæða þessa búhnykks á Syðri-Brekkunni var að pabbi taldi fram fyrir marga bændur og þeir voru yfirleitt svo ánægðir með framtalið að kasta mætti línu frítt í fljótin austan heiðar. Þeim mun oftar keyrðum við feðgar austur yfir ása.
Og þetta var löngu fyrir tíma sleppinga, sem var raunar með öllu óþekkt orð í þá daga, enda hvarflaði ekki að nokkrum manni á síðustu öld að afla fengs til þess eins að missa hann aftur. Þar væri tilgangsaleysi tilverunnar öll og sömul komin.
En fyrir vikið þurfti að rútta öllu til í Espilundinum þegar sjálfa aflaklóna bar að bílskúrnum heima. Honum var breytt í fiskiðjuver með rennandi vatni um borð og gólf, svo mannskapurinn varð að fara í stígvél sín og stakka, en gekk þess utan íbygginn til verks með gula gúmmíhanska á höndum.
Brýnin léku svo vel í höndum pápa og múttu að allt eins mátti ætla að þar væri sirkusfólk á ferð. Því hnífarnir voru bornir svo beitt að eggin risti hrygginn burt í einni svipan. Það var göldrum líkast, fannst okkur ungviðinu, forviða á svip.
Og svo var reykt. Það var býsna biblíulegt. Skýtur húsdýranna lék þar reginrullu. En þó aldrei nýskitinn. Það mátti aldrei vera. Hann varð að hafa veðrast úti um árabil, helst vel hertur af norðanáttinni, og samanblandaður af nýlega tíndum furunálum í þann mund sem neistinn var kveiktur.
En svona lærðum við á hringrás lífsins, krakkarnir á Syðri-Brekkunni. Gömul skita gerði besta bragðið.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: SKÓLATASKA


Sveitasæla

Ekki ganga af göflunum

Svartþröstur

Fífilgerði, gamla íbúðarhúsið
