Fara í efni
Pistlar

Ólæst

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 88

Það var ekki til siðs að læsa útihurðum á Akureyri, þótt eitthvað liði nú á öldina, og átti það jafnt við um þær allar saman, hvort heldur farið var vaskahúsmegin, inn og út um um bakdyrnar, eða sjálfar forstofudyrnar, sem voru raunar aldrei í mikilli notkun á mínu heimili, af því að þær þóttu full til fínar.

En allt saman var þetta opið fyrir gesti og gangandi. Og ekki til nokkurs siðs að menn kæmu að læstum dyrum, en það merkti að maður vildi ekki nokkra sál í sín hús. Væri mannafæla. Utangátta. Sem var bara á færi sérvitringa.

Man þessa tíma. En fyndi maður ekki hjólapumpuna í geymslunni heima hjá sér, var bara skottast inn í næstu bílskúra í götunni til að hafa upp á græjunni, og farið inn í þá alla þar til pumpa fannst.

Og svo var henni bara skilað á réttan stað í sömu mund og viðvikinu var lokið.

En svona var þetta í sakleysi æsku okkar. Því það var ekki nokkur ástæða til að banka. Eða knýja dyra, eins og það hét raunar í þá daga. Ef allra bestu vinirnir höfðu sammælst um að hittast einhvern seinnipartinn, ellegar eftir kvöldmat, var bara ætt í átt að vaskahúsdyrunum og þeim lokið upp með litla fingri, en henst svo inn i herbergi vinarins með stuttri kveðju á foreldrana sem voru líkast til að horfa á Onedin-fjölskylduna eða Smart spæjara í svart hvíta viðtækinu í stofunni, en ef ekki svo, þá á Nýjustu tækni og vísindi með Örnólfi Thorlacius.

Þetta voru þægindi okkar kynslóðar. Og fyrir vikið urðu krakkar í hverfinu eins og hver önnur systkini. Það var svo sjálfsagt að hendast inn á heimili vina sinna, og það rétt si sona, að allt saman minnti það á að fara á milli herbergja á heimili sínu.

Við vorum ein stór fjölskylda, sem minnir á þau gömlu og góðu sannindi, að þegar best lætur, þarf heilt þorp til að ala upp eitt og sama barnið.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: BRILLJANTÍN

Hvernig væri ásýnd Akureyrar án stóru trjánna?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
14. júlí 2025 | kl. 16:30

Útí dokk

Jóhann Árelíuz skrifar
13. júlí 2025 | kl. 06:00

Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?

Orri Páll Ormarsson skrifar
11. júlí 2025 | kl. 13:00

Stari

Sigurður Arnarson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Smíðahúsið á Skipalóni

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 06:00

Klukkustrengir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 11:30