Fara í efni
Pistlar

Hvítlaukur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 38

Sigmundur afi hafði ekki mikið álit á útlöndum. Ísland væri meira en nóg fyrir hans líka. Og hefði líka reynst honum það vel að hann færi nú ekki að ana út í einhverja vitleysu um heimsins höf.

Það var því að vonum að hann gerði athugasemdir við nýtilkomið útstáelsi á syni sínum og tengdadóttur, en pabbi og mamma tóku upp á þeim óskunda, að afa sögn, að sækja sólarlöndin heim á seinustu tímum sjöunda áratugarins eins og þá var að verða móðins hjá mörlandanum. Og það hét að fara í siglingu, þótt byrjað væri að fara þetta með flugvélum þegar hér var komið sögu.

En nú bar líka nýrra við. Húsmóðirin á Syðri-Brekkunni byrjaði að smygla í pjönkum sínum nýstárlegri og undraverðri matvöru neðan úr sunnanverðri Evrópu, svo sem frá Rúmeníu, Júgóslavíu og Spáni og öðrum þeim löndum á endimörkum álfunnar sem voru auðvitað partur af allt annarri menningu en myndast hafði í fásinninu úti á ystu kimum norðurhjarans.

Og ætli það hafi ekki verið hvítlaukurinn sem mamma fékk hvað mestar skammirnar fyrir. Afi, sem hafði auðvitað verið fastagestur á heimili sonar síns og tengdadóttur um margra ára hríð, sagðist einfaldlega ekki getað unað við ólyktina af þessum útlenska aðskotahlut, enda legði dauninn út á götu, og þess þá heldur að hann væri honum um megn þegar inn væri komið.

Þetta var að því leyti ólíkt gamla sauðfjárbóndanum norðan af Ströndum að hann hafði ekki vanið sig á að blóta mat. Það væri mikilvægt að bera virðingu fyrir hvaða kosti sem var. Í hans hvofti hefði matur annað tveggja verið ágætur eða sérstakur – og aldrei neitt verri en það.

En nú fyrst var hann heimaskítsmát. Svona stækju væri ekki komandi ofan í sig.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: BRÚARLANDSTAXINN

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00

„Ertu gjörsamlega orðinn galinn?“

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
14. september 2024 | kl. 06:00

Hver á að ala upp barnið mitt? Við þurfum allt þorpið

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
13. september 2024 | kl. 06:00

Reiði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. september 2024 | kl. 08:50

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45