Fara í efni
Mannlíf

Gáði oft hvort bréfið væri örugglega til mín!

Gáði oft hvort bréfið væri örugglega til mín!

Haukur Sindri Karlsson lýkur í vor námi við Rytmisk Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn og hefur fengið inni í Royal Music College í London, þar sem hann fer í mastersnám í kvikmyndatónlist. Ekki nóg með það; honum bauðst skólastyrkur þau tvö ár sem mastersnámið tekur. Haukur trúði vart sínum eigin augum þegar honum barst bréfið frá enska skólanum.

„Ég er á leið inn í síðustu önnina hér í Kaupmannahöfn,“ sagði Haukur Sindri við Akureyri.net. Hann nemur nú það sem Danir og fleiri kalla music production. „Í því felst að semja tónlist, taka upp og hljóðblanda, auk þess sem eftirvinnsla og allt slíkt er hluti af náminu.“

Haukur Sindri, sem verður 22 ára eftir nokkrar vikur, varð stúdent frá VMA 2018 en var fluttur út áður og lauk þeim áfanga í fjarnámi. „Ég byrjaði í grunndeild rafiðnaðar á sínum tíma en skipti seinna yfir á fjölgreinabraut til að ná í stúdentsprófið því þá gat ég fengið nám í tónlistarskólanum metið.“

Hann segist alltaf hafa verið kvikmyndanörd og lengi dútlað í tónlist. „Ég hef stefnt að því frá 13 ára aldri að verða tónlistarmaður; lærði á rafmagnsgítar og vildi verða rokk- eða poppstjarna! En ég hef komist að því að mér líður miklu betur í hljóðveri en á sviði þannig að ég er á réttum stað. Ég hef samið tónlist í 12 stuttmyndir og þannig vinna veitir mér lang mesta ánægju.“

Haukur hlakkar mikið til að flytjast til London. „Þegar ég leitaði að skólum á sínum tíma og gúgglaði best film scoring schools in the world, [heimsins bestu skólar til að læra kvikmyndatónlist] fékk Royal Music College í London alltaf hæstu einkunn af evrópskum skólum, og Atli Örvarsson frændi minn var líka búinn að mæla með honum. Mig hefur einmitt langað að prófa að búa í London síðan ég var lítill, þannig að þetta er frábært!“

Faðir Sindra, Karl Jónsson, athafnamaður á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit og Atli, hið kunna kvikmyndatónskáld, eru systkinabörn. „Þegar Atli flutti heim til Íslands bauð hann mér í heimsókn í stúdóið sitt á Akureyri og leyfði mér að fylgjast með sér vinna. Hann var akkúrat að vinna að einhverjum þætti og ég var algjörlega heillaður af þessu ferli.“

Haukur Sindri sendi inn umsókn til skólans í London í september, „aðallega til að komast að því hvort ég væri tilbúinn í þetta eða hvort ég þyrfti mögulega að fara í frekara nám áður en færi í mastersnámið. Það átti að senda inn tvö til fimm verk sem maður hafði gert og ef skólanum litist vel á mátti ég eiga von á því að vera boðið í viðtal.“

Skólamenn í London voru greinilega ánægðir með það sem Haukur Sindri sendi þeim. „Já, það lítur út fyrir það,“ segir hann hógvær.

Hann segir það hafa verið sérstakt að fara í rafrænt viðtal við fulltrúa skólans og kveðst ekki hafa vitað við hverju mátti búast. 

„Svo fékk ég póst þar sem mér var boðið pláss í skólanum og ég var í skýjunum. Nokkrum dögum síðar kom svo póstur þar sem mér var tilkynnt að skólinn vildi aðstoða mig við að borga námið, en það var ekki fyrr en það var tilkynnt með formlegu bréfi að ég gerði mér raunverulega grein fyrir því, og hve mikill heiður það væri. Trúði því samt varla og þurfti að athuga nokkrum sinnum hvort það væri örugglega nafnið mitt sem var skrifað utan á umslagið! Hafi ég ekki verið sannfærður áður er ég það núna; ég á greinilega að vera að gera einmitt það sem ég er að fást við.

Satt að segja var ég ekki með neinar væntingar um að komast þarna inn. Ætlaði bara að gera mitt besta og hefði ég ekki komist inn hefði ég sótt um mastersnám í skólanum hér í Kaupmannahöfn. Það hefði auðvitað verið þægilegt að vera hér áfram. En svo allt í einu fékk ég þetta boð – og þegar þessi skóli býður manni pláss segir maður já!“

  • Á myndinni er Haukur Sindri ásamt frænda sínum, kvikmyndatónskáldinu Atla Örvarssyni.