Fara í efni
Menning

Bragi reis úr mótlæti og varð öðrum leiðarljós

Fyrir skömmu kom út bókin Séra Bragi – ævisaga; umfangsmikil ævisaga séra Braga Friðrikssonar, „fyrsta heiðursborgara Garðabæjar og eins áhrifamesta prests landsins á sinni tíð,“ eins og segir í tilkynningu um bókina.

„Ævisaga séra Braga Friðrikssonar er stórbrotin saga brautryðjanda og hugsjónamanns. Hann fæddist við erfiðar aðstæður, gekk í gegnum djúpar raunir en reis upp og hafði mikil áhrif á samtíð sína og framtíð.“

Bókin, sem gefin er út af nýstofnuðu félagi, Sögufélagi Garðabæjar, „er innblásin og áhrifarík frásögn af manni sem mótaði samfélag sitt og helgaði líf sitt Guði.“ Ævisagan er ríkulega myndskreytt en 333 myndir prýða síður bókarinnar.

Séra Bragi Friðriksson kom víða við á langri ævi. Hann fæddist utan hjónabands árið 1927 og fór milli fósturheimila á Ísafirði, í Mosfellssveit, Miðfirði, á Siglufirði og Akureyri. Tíminn átti eftir að verða honum örlagaríkur, en hann var þar á árunum 1943-1949 og nam bæði á gagnfræða- og menntadeild Menntaskólans á Akureyri. Hann missti tvö fyrstu börnin sín, veiktist alvarlega af Akureyrarveikinni og hræddist um líf sitt, en hét Guði á sjúkrabeði sínum að helga líf sitt honum ef hann fengi að lifa.

Bragi var einnig einn fremsti frjálsíþróttamaður þjóðarinnar á sínum tíma, sló fjölda drengjameta og Íslandsmet, einkum í kúluvarpi og kringlukasti. Eitt meta hans stóð í 56 ár.

Frétt í Morgunblaðinu um Akureyrarveikina. Bragi veiktist alvarlega af henni og hét Guði á sjúkrabeði sínum að helga líf sitt honum ef hann fengi að lifa.

Tíminn í MA var honum alla tíð hugleikinn og hann bar ætíð hlýjan hug til gamla skólans síns og Akureyrar. Hann tók virkan þátt í skólalífinu, var formaður ÍMA og tók meðal annars þátt í því að halda fyrsta blakmót Íslandssögunar, ritaði í skólablöðin o.s.frv. Ítarlega er fjallað um tíma hans í Menntaskólanum á Akureyri í sérstökum kafla, þar sem fjallað er um félagslífið, íþróttalífið, heimavistina, Akureyrarveikina og margt fleira.

Hann settist svo á skólabekk og nam guðfræði við Háskóla Íslands og vígðist fyrstur íslenskra presta til prestsþjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada og þjónaði þar frá 1953-1956. Ítarlega er fjallað um tíma hans þar í bókinni. Hann kom síðan heim og var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur þar sem honum var fengið það hlutverk að skipuleggja æskulýðsstarf borgarinnar og þar með þjóðarinnar allrar frá grunni.

Miðbær Akureyrar um 1945.

„Faðir Garðabæjar“

Séra Bragi flutti síðan í Garðahrepp og varð þar stafnbúi, stofnaði Ungmennafélagið Stjörnuna og kom að stofnun fleiri félaga, var formaður skólanefndar og æskulýðs- og leikvallanefndar, og kom sem slíkur mjög að þróun skóla- og æskulýðsmála í hreppnum. Hann var nefndur „faðir Garðabæjar“ og útnefndur fyrsti heiðursborgari bæjarins árið 2001. Hann var prestur í Garðaprestakalli, sem samanstóð af Garðasókn, Bessastaðasókn og Kálfatjarnarsókn, frá 1966-1997.

Hann breytti skipan kirkjunnar – margir vildu hann sem biskup

Séra Bragi var á meðal fremstu þjóna kirkjunnar, hann var umbreytingarmaður sem breytti skipulagi hennar með störfum sínum sem prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Öll hans störf miðuðu að því að virkja sem flesta til þátttöku í starfi kirkjunnar. Hann var aðalhvatamaður að stofnun Hjálparstofnunar kirkjunnar og sat á kirkjuþingi um árabil. Margir vildu sjá hann sem biskup, meðal annars Sigurbjörn Einarsson biskup, en séra Bragi vildi það ekki og sagði einfaldlega: „Maður fer ekki frá Garðaprestakalli.“ Ítarlega er fjallað um það og margt annað í bókinni.

BROT ÚR BÓKINNI

 

Úr kaflanum Menntskælingur á Akureyri

Nemandinn

Bragi var ágætis nemandi, en glímdi þó við það vandamál að skólinn var alltaf að flækjast fyrir félagslífinu. Það var óttalegt vesen að þurfa að pæla í skólanum þegar mikið var í gangi í félagslífinu. Bragi hafði ekki alveg fundið hinn gullna meðalveg. Leikurinn bar námið oft ofurliði og kom það stundum niður á einkunnum hans þótt Bragi væri góður námsmaður. En nú var sú stund runnin upp að þetta skyldi breytast – og Bragi vissi að nú þyrfti hann að leggja meira á sig í leitinni að gullna meðalveginum.

Bragi og félagar hans hittust oft á Hótel KEA niðri í bæ. Þar sátu þeir, spjölluðu, hlógu, spiluðu og drukku kaffi. Þar var gaman að vera og ákafinn í ungu mönnunum var mikill. Þeir hittust svo til á hverjum degi og voru fastagestir á kaffihúsinu. Á þessum tíma tók Bragi eftir einum skólafélaga sínum sem gekk dag eftir dag samviskusamlega fram hjá Hótel KEA og upp kirkjutröppurnar í átt að skólanum vopnaður skólabókum. Þetta var Ari Ragnarsson. Þeir Bragi þekktust og höfðu verið bekkjarfélagar í þrjú ár á gagnfræðabraut. Nú voru þeir að byrja í 4. bekk og voru því komnir í menntaskóla, en það er um það leyti sem Bragi áttaði sig á því að hann þyrfti að spýta í lófana.

Teikning af Braga í Carmínu, árbókinni góðu þar sem dregnar eru upp kómískar myndir af útskriftarnemendum.

Bragi hugsaði með sér að hann þyrfti að komast í félag við einhvern eins og Ara. Það var því einn góðan veðurdag þegar að Ari gekk fram hjá gluggunum á KEA að Bragi ákvað að taka af skarið. Í miðri sögu eins félagans rauk Bragi upp úr sæti sínu, stökk út um dyrnar og stöðvaði Ara. Ari leit forviða á hann þar til Bragi rauf þögnina og stakk upp á því að þeir tveir myndu lesa fræðin saman. Ari samþykkti það og þeir gengu saman upp í skóla til þess að læra. Félagar Braga sátu gapandi við gluggann. Hvað er Bragi að gera? En nú voru breyttir tímar. Eftirleiðis lásu Bragi og Ari uppi í skóla nær daglega. Ari kom samviskusamlega gangandi framhjá KEA á hverjum degi á sama tíma og staðnæmdist þar fyrir utan dyrnar og beið eftir Braga þar sem hann sat með félögum sínum. Bragi hugsaði honum oft þegjandi þörfina, en kom alltaf að endingu út með skólatöskuna. Þeir hjálpuðust að félagarnir. Ari var betri í raungreinum og hjálpaði Braga með þær, en Bragi var betri í félagsfræðum og tungumálum og hjálpaði Bragi því Ara á þeim vettvangi. Þetta var gott samstarf þeirra í millum og upphafið að ævilangri vináttu. Eftir eitt ár af mörgum lærdómsstundum ákváðu þeir að vera herbergis­félagar á heimavistinni síðustu tvö árin í MA.

Stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri 1949.

Braga fór að ganga betur í náminu, enda bjó hann yfir slíkri fróðleiks­fýsn að orð var á haft. Hann var í máladeild og lærði þar ýmis tungumál, latínu, forngrísku, ensku og frönsku meðal annarra tungumála. Máladeildin lagði grunn að góðri tungumálakunnáttu sem Bragi bjó yfir alla tíð síðan. En tungumálanámið var ekki ætíð dans á rósum. Eitt sinn átti Bragi að mæta í munnlegt próf í frönsku, en hann var afar illa búinn undir þá þraut. Í öngum sínum leitaði hann ráða hjá félaga sínum sem gaf honum gott ráð. „Bragi, þú þarft bara að læra tvær setningar til þess að heilla prófdómarann og líta vel út“ sagði félaginn. „Þegar þú kemur inn skaltu athuga hvort glugginn er lokaður eða opinn. Ef hann er opinn, skaltu segja á frönsku: „Rosalega er kalt hérna. Ekki má ég loka glugganum?“ En ef hann er lokaður, skaltu fara öfugt að.“ Svo Bragi fór og lærði þessar tvær setningar og mætti síðan í prófið. Er hann gekk inn í skólastofuna sá hann að glugginn var opinn, svo hann gekk að glugganum og sagði með fögrum róm: „Très chaud ici. Puis-je fermer la fenêtre?“ Prófdómaranum var brugðið, en andlit hans ljómaði. „Talarðu svona góða frönsku?“ spurði hann á frönsku. Bragi, sem hafði ekki hugmynd um hvað maðurinn var að segja, svaraði: „Oui!“ Þar með var það ráðið, prófdómarinn var heillaður og Bragi náði prófinu að endingu með frábærri einkunn eins og alvöru heimsborgari.


Hugsjónir manna mótast gjarnan í menntaskóla og ungmenni átta sig líka á þeim tíma á mikilvægi menntunar. Að rækta andann var jafn mikilvægt og að rækta líkamann, musteri andans. Bragi orðaði þetta löngu síðar svo:

„Við sem stunduðum nám í M.A. áttum það yfirleitt sameiginlegt, að skólinn og þá eigi síst hinn kunni skólameistari, Sigurður Guðmundsson, hafði beint til okkar ákveðinni lífssýn. Stefna skólans var raunverulega mótuð og meitluð í tveim orðum, sem skólameistari valdi sem nafn á einni af sínum frægu ræðum á Sal. Þessi orð voru: Yrk þú.

Menn skyldu yrkja landið en einnig huglendur sínar. Saman átti að vaxa vit til verka og viska hugans. Það var leiðin til að reynast landi og lýð – hollur þegn. Þegar í skóla gafst gott tækifæri til að yrkja og virkja allar gáfur, dug og dyggðir.“

  • Séra Bragi – ævisaga fæst í verslunum Pennans Eymundsson, Hagkaup Garðabæ, Kirkjuhúsinu, Bókabúð Forlagsins og á www.serabragi.is