Fara í efni
Mannlíf

Jólastyrkur Krónunnar og viðskiptavina afhentur

Verslun Krónunnar á Akureyri.

Krónan hefur afhent Velferðarsjóði Eyjafjarðarsvæðis jólastyrk sem mun nýtast 32 fjölskyldum á Norðurlandi. Viðskiptavinir Krónunnar á Akureyri, ásamt Krónunni, söfnuðu alls 640 þúsund krónum í árlegri jólasöfnun nú á aðventunni.

Í fréttatilkynningu frá Krónunni kemur fram að söfnunin hafi farið þannig fram að viðskiptavinum bauðst að styrkja söfnunina um 500 krónur eða meira í lokaskrefi greiðslu í verslunum Krónunnar um allt land. Krónan jafnaði síðan framlagið og rennur heildarstyrkurinn til þeirra sem þurfa á mataraðstoð að halda fyrir jólin. Styrkirnir eru veittir í formi gjafakorta svo styrkþegar geti valið sína eigin matarkörfu og keypt það sem hentar hverri fjölskyldu. Samtals hafi safnast 10 milljónir króna á landsvísu og mun sú upphæð nýtast 500 fjölskyldum um land allt.

Þetta er í sjötta sinn sem Krónan veitir jólastyrk af þessu tagi og í fréttatilkynningunni segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, að það sé alltaf ánægjuleg stund að afhenda hjálparsamtökum upphæðina sem safnast í jólasöfnun Krónunnar og viðskiptavina hennar. „Jólastyrkurinn er okkur afar kær og við erum þakklát viðskiptavinum okkar á Akureyri fyrir samhuginn og viljann til að láta gott af sér leiða. Margt smátt gerir eitt stórt og með þessu getum við aðstoðað 32 fjölskyldur á Norðurlandi við matarinnkaupin um hátíðarnar. Það vonandi léttir aðeins undir og dregur að einhverju leyti úr álagi sem oft getur fylgt þessum árstíma,“ segir Guðrún í tilkynningu Krónunnar.