„Þetta er greinilega sjálfur söguþráðurinn!“
„Þrátt fyrir að fréttir úr íslenska skólakerfinu hafi um langt skeið verið af neikvæðara taginu gerist þar oft og tíðum margt skemmtilegt,“ segir í kynningu á bókinni Segir mamma þín það? – gamansögur úr íslenska skólakerfinu, sem Guðjón Ingi Eiríksson sendi frá sér í haust.
Hér eru nokkkur sýnishorn úr bókinni:
Aðalsteinn Sigurðsson var lengi sögukennari við Menntaskólann á Akureyri, þann skóla sem hann útskrifaðist sjálfur frá sem stúdent. Kennsla hans var í afar föstum skorðum og tók litlum breytingum milli ára, en þótt svo væri höfðu margir nemendur dálæti á honum og lögðu sig virkilega fram við sögunámið.
Einhverju sinni var Aðalsteinn með gamla og snjáða bók í höndunum; bók sem hann hafði stuðst við í kennslunni árum saman. Þá gerist það að einhver af nemendunum tekur eftir því að spotti hangir niður úr kili bókarinnar og bendir honum á þetta.
Aðalsteinn ætlar að kippa spottanum burt, en þá tekst ekki betur til en svo að það raknar upp úr kilinum og fyrr en varir er bókin við það að detta í sundur. Þá lítur sögukennarinn framan í bekkinn og segir sposkur á svipinn:
„Nú, þetta er greinilega sjálfur söguþráðurinn!“
Svangur utanbæjarmaður
Einhvern tíma á 6. áratug liðinnar aldar bar svo við að þegar starfsmenn í Kjötbúð KEA komu til vinnu á laugardagsmorgni uppgötvuðu þeir að brotist hafði verið inn í búðina um nóttina og stolið þaðan nýreyktu hangikjötslæri. Málið var kært til lögreglu en hún hafði fátt til að fara eftir og ekkert gerðist um helgina.
Á mánudeginum tók Jón Ben. yfirlögregluþjónn sér stöðu á Kaupfélagshorninu sem svo var kallað, á horni Hafnarstrætis og Kaupangstrætis. Þar fóru flest börn af Eyrinni um á leið í skóla. Gamli maðurinn var einkar alúðlegur, heilsaði öllum börnunum, klappaði þeim á kollinn og spurði:
„Hvað var nú borðað heima hjá þér um helgina?“
Enginn hafði fengið hangikjöt, ekki heldur börn úr öðrum bæjarhverfum og aldrei fannst lærið. Var þá ákveðið að þarna hlyti „svangur utanbæjarmaður“ að hafa verið á ferð og málið látið niður falla.
Að nenna ekki að vera latur
Raggi sót var að öðrum ólöstuðum aðalmaðurinn í akureyrsku hljómsveitinni Skriðjöklum. Logi Már Einarsson, ráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sagði eitt sinn stutta sögu af þessum sprellfjöruga félaga sínum um leið og hann minntist afmælis hans:
„Ragnar Gunnarsson, vinur minn, á afmæli í dag. Mér finnst hann með skemmtilegri mönnum þótt við deilum nú seint sömu skoðun í pólitík. Það er þó á of fárra vitorði að hann er líka djúpur heimspekingur á köflum.
Af því að mikið er rætt um streitu og kulnun og ég heyrði Ólaf Þór Ævarsson geðlækni nýverið segja að leti væri kannski vanmetin, datt mér í hug þessi saga af Ragga:
Hann stundaði nám í Tækniskólanum á Akureyri, á því skeiði lífsins þegar hugurinn er gjarnan við aðra hluti en námið. Einu sinni misbauð tengdapabba, Sigurði Óla stærðfræðikennara, hysknin í Ragga og sakaði hann um leti.
Raggi svaraði þá á svipstundu:
„Það má vel vera, Sigurður Óli, en það er betra að vera latur og nenna því en að vera duglegur og nenna því ekki.“
„Segir mamma þín það?“
Páll heitinn Helgason, sem lengi kenndi á Siglufirði, gat verið fljótur að hugsa eins og þessi saga sýnir:
Nemanda hans vantaði aðstoð og rétti upp hönd, en í stað þess að segja kennari þá sagði hann óvart:
„PABBI!“
„Ha“ – svaraði Palli að bragði „segir mamma þín það?“
Hrefna og eðlisfræðin
Rafn Erlendsson, Rabbi trommari í Gautum, og kona hans, Guðrún Hrefna Bragadóttir fluttu aftur heim til Siglufjarðar árið 2018 eftir að hafa búið lengi í Reykjavík. Þegar sú hugmynd kviknaði að flytja þangað fóru þau að litast um eftir húsnæði og vinir þeirra og ættmenni þar nyrðra aðstoðuðu þau við leitina. Þá hafði gamla Gagnfræðaskólahúsið, þar sem þau hjónakorn höfðu meðal annars verið í skóla, verið gert upp og útbúnar í því fjölmargar íbúðir. Einhver stakk upp á því við Rabba að þau ættu að fjárfesta í íbúð þar. Hann aftók það hins vegar með öllu, sagði það ekki koma til greina og bætti svo við:
„Henni Hrefnu fannst alltaf svo leiðinlegt í eðlisfræði.“
Þversögn
Akureyringurinn Símon Jón Jóhannsson hefur kennt við Flensborgarskóla í Hafnarfirði í 40 ár. Hjá nemendum hans hafði hugtakið þversögn mismunandi merkingu og fékk meðal annars þessar „útskýringar“:
- Þversögn er sögn sem er þver í sínum málum.
- Það er þegar ein sögn fer þvert á aðra.
- Þversögn er sögn fyrir þvert fólk sem hugsar bara um sjálft sig.
- Það er sögn sem liggur þvert niður textann.
- Það er sögn sem málið snýst um.
- Hún er þvert á móti einhverju öðru.
- Þversögn er það þegar fyrsta línan er endurtekin í lokin.
Að grafa upp manninn sinn
Árið 1982 var afhjúpaður á Stakkagerðistúni í Vestmannaeyjum minnisvarði um Oddgeir Kristjánsson tónskáld og höfðu Rotary-menn í Eyjum forgöngu um það verk. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að minnisvarðanum, í nóvember 1981, var margmennt á Stakkó og m.a. voru þar staddir nemendur úr barnaskólanum. Þeim hafði verið sagt að þarna myndi Svava Guðjónsdóttir, eiginkona Oddgeirs, taka fyrstu skóflustunguna að minnisvarðanum um mann sinn.
Eitthvað höfðu þær upplýsingar skolast til hjá smáfólkinu. Hrefna, dóttir Oddgeirs, heyrði á tal tveggja lítilla stúlkna í þann mund sem móðir hennar var að munda skófluna og önnur þeirra spurði hvað konan væri að gera. Hin var aftur á móti með það alveg á hreinu og svaraði:
„Hún er að fara að grafa upp manninn sinn.“
„Þá hafa bændur mök“
Þegar Ingveldur Ragnarsdóttir kenndi við 5. bekk í Grunnskóla Hellissands spurði hún eitt sinn á prófi í náttúrufræði:
„Hvað gerist á fengitímanum.“
Eitt svarið sem hún fékk sló öllum öðrum við. Það var:
„Þá hafa bændur mök.“