Fara í efni
Mannlíf

Jólaball í Kjarnaskógi og sveinar á Pollinum í dag

Tvennt verður í boði á Akureyri í dag, sunnudag – fjórða sunnudag í aðventu – sem mun örugglega gleðja yngstu kynslóð bæjarbúa og án efa marga þá eldri líka. Hvort tveggja er ókeypis og allir velkomnir.
 
  • JÓLASVEINAR Á RÓÐRABRETTUM

Nokkrir jólasveinar sem eru vanir róðrabrettum bregða á leik eftir hádegi; ætla að fagna komu jólanna „með sínum árlega sullu-glæsibrag á  Pollinum“ eins og það er orðað í tilkynningu. Þetta er sjötta árið í röð sem róðrabrettasveinar skemmta sér og öðrum með þessum hætti. Þeir verða í grennd við svæði siglingaklúbbsins Nökkva á milli klukkan 13.00 og 14.00 „ef veður og færð leyfa“, eins og það er orðað, og „hlakka til að sjá sem flest börn á öllum aldri.“

  • JÓLABALL Í KJARNASKÓGI

Árleg jólatrésskemmtun Skógræktarfélags Eyfirðinga – Karamella og köngull – verður í Kjarnaskógi frá klukkan 15:45 til 17:00.

„Ungir sem aldnir dansa kring um jólatréð skrautlega á Birkivelli (rétt hjá ærslabelgnum) undir stjórn Birkibandsins,“ segir í tilkynningu. „Vinir okkar og nágrannar, Súlusveinarnir Hurðaskellir, Kertasníkir og Kjötkrókur mæta að sjálfsögðu í dansstígvélunum sem fyrr, syngja nokkur lög og segja sögur af árlegu jólabaði í ísilagðri Brunnánni.“

Starfsfólk Skógræktarfélagsins „töfrar svo auðvitað fram skógarkakó og rjúkandi ketilkaffi, eigum saman yndisstund í aðdraganda jóla!“
 
Vert er að nefna að jólatrjáasala félagsins í Kjarna er svo opin allt fram á Þorláksmessu. „Við erum afar þakklát þeim sem leggja skóginum okkar lið með kaupum á íslensku jólatré,“ segir í tilkynningu frá Skógræktarfélaginu.