Fara í efni
Mannlíf

Meira drama á fótboltavelli eða leiksviði?

Hjalti Rúnar, Ásgrímur Jaki og Arna Sif, hamingjusöm með að vera flutt norður. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Leikarinn Hjalti Rúnar Jónsson er nýlega fluttur til Akureyrar, en hann hefur verið áberandi á fjölum Samkomuhússins undanfarin tvö ár. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir leikara að finna fyrir starfsöryggi, svona eins langt og það nær í leiklistarheiminum, og það að hann skyldi fá tækifæri til þess að skrifa undir lengri samning við Leikfélag Akureyrar var stór þáttur í því, að hann kaus að flytja norður ásamt kærustunni Örnu Sif, knattspyrnukonu frá Akureyri og syninum Ásgrími Jaka.

Þetta er annar hluti viðtalsins við Örnu Sif Ásgrímsdóttur og Hjalta Rúnar Jónsson. Fyrsti hluti af þremur birtist í gær á akureyri.net


„Ég var búinn að mynda góð tengsl í Leikfélagi Akureyrar og Menningarfélaginu, þar sem ég var búinn að koma tvisvar norður að leika í fyrra,“ segir Hjalti Rúnar, en hann tók þátt í að skrifa og leika í Jóla-Lólu sem var frumsýnd fyrir jólin 2024, auk þess að leika í uppfærslu LA af Litla skrímslinu og stóra skrímslinu. „Það er draumur að vinna fyrir LA, og það er mjög spennandi að sjá hvað er framundan.“

Hjalti var að vinna hjá Þjóðleikhúsinu fyrir sunnan og hann segir að þó að allt sé minna í sniðum fyrir norðan, sé metnaðurinn á pari. „Það er auðvitað alls staðar eitthvað sem má betur fara, en mér finnst vera metnaður hérna til þess að tækla hlutina og gera enn betur. Mikill metnaður er lagður í hverja sýningu.“

 

T.v. Hjalti í hlutverki Skyrgáms í Jóla-Lólu. Með honum á sviðinu eru Hólmfríður Hafliðadóttir og Urður Bergsdóttir. T.h. Hjalti tók þátt í grínleikritinu Jólaglögg fyrir jólin, sem atvinnuleikhópurinn Umskiptingar sömdu og sýndu í Samkomuhúsinu. Myndir: MAk 

Mikilvægt að geta fengið lengri samning

Leikfélag Akureyrar hefur ekki verið að fastráða leikara um langt skeið, en nú var tekin ákvörðun um að gera lengri samninga við nokkra leikara. Hjalti er einn af þeim, auk Hólmfríðar Hafliðadóttur og Urðar Bergsdóttur. „Það er verið að reyna að gera fleiri sýningar yfir árið í bland við gestasýningar, sem er frábært. Áður var oft bara ein stór sýning og allt lagt í hana, en ég held að það sé skemmtilegra að geta boðið upp á fjölbreytni. Þó að þessi ráðning sé ekki í heilt ár, þá er það samt góð byrjun,“ segir Hjalti, en það er dýrmætt að geta boðið aukið starfsöryggi í menningarstofnunum í bænum svo að listafólk geti hugsað sér að setjast að.

Mér finnst þetta mest spennandi leikhúsið á Íslandi í dag 

„Síðast þegar voru fastráðningar hjá Leikfélaginu, þá fékk fólk tækifæri til þess að þróast sem leikarar með félaginu,“ veltir Hjalti upp. „Verða að frábærum, rótgrónum leikurum og vera meira inni í samfélaginu og gefa af sér. Það krefst náttúrulega mikillar vinnu að geta boðið upp á starfsöryggi en vonandi er framtíðin þar. Mér finnst þetta mest spennandi leikhúsið á Íslandi í dag. En það vantar svolítið upp á umfjöllun, til dæmis að gagnrýnendur að sunnan komi norður á sýningar.“

Nú er undirbúningur hafinn fyrir næsta stóra verkefni vetrarins, verkið Birtíng sem er leikgerð samnefndrar sögu eftir Voltaire, en frumsýnt verður í febrúar, þar sem Hjalti fer með nokkur hlutverk.

 

T.v. Ásgrímur Jaki fór á sína fyrstu leiksýningu um daginn (mjög líklega fyrstu af ansi mörgum), þegar hann sá pabba sinn leika í Jóla-Lólu. T.h. Arna Sif hefur mjög gaman af því að mæta og sjá Hjalta leika. Myndir: aðsendar

Flókið að vera á sitthvorum staðnum

Að Hjalti kæmi norður til þess að leika í haust, var stór ákvörðun fyrir unga parið, þar sem Arna Sif var enn að ná sér eftir krossbandaslit og Ásgrímur Jaki enn á fyrsta ári. En það þarf að vera mjög sveigjanlegur, þegar báðir aðilar eru í störfum með litlum fyrirsjáanleika, og þau tóku slaginn í lok sumars og bjuggu á sitt hvorum staðnum.

Ég hugsaði svolítið þarna fyrst, að þetta væri mitt barn og mitt vandamál

Það var mikið álag á Örnu í haust, en hún átti góða að og þurfti að læra að þiggja hjálp. „Ég dröslaði drengnum náttúrulega með á æfingar og treysti á meidda leikmenn til þess að hjálpa mér! Það var alveg strembið, en liðsfélagarnir voru frábærar, einhverjar líka búnar að upplifa það að eignast barn eða koma til baka eftir meiðsli. Elsta systir mín býr í Mosfellsdal og hún var einnig dugleg að aðstoða okkur.“

Mikilvægt að þiggja hjálp og skoða tilfinningarnar

Aðspurð um það, hvort hún sé með góð ráð fyrir íþróttakonur sem koma til baka eftir barnsburð, segir Arna að þó hún sé ennþá að læra á þetta, standi kannski upp úr að læra að biðja um aðstoð og þiggja aðstoð. „Ég hugsaði svolítið þarna fyrst, að þetta væri mitt barn og mitt vandamál. Ég var jafnvel að spá í að hendast í að labba með hann í hálfleik einu sinni! Ég þurfti að læra að losa axlaböndin og beltið og þiggja hjálp. Svo langar mig að segja að þó að þetta virðist yfirþyrmandi, þá verður allt í lagi! Maður sér það kannski ekki þegar maður stendur í þessu en þegar ég lít til baka núna, þá var þetta ofboðslega fallegur tími.“

 

T.v. Ásgrímur Jaki kom með á ansi margar fótboltaæfingar með mömmu síðasta haust. T.h. Arna Sif í leik með Val áður en hún meiddist. Hún hefur verið mjög einbeitt og lagt á sig mikla vinnu til þess að komast sem fyrst aftur á völlinn. Myndir: aðsendar

Flóknar tilfinningar sem er mikilvægt að ræða

„Það er mikilvægt að skoða allar tilfinningarnar sem koma upp í þessum aðstæðum, en ég upplifði til dæmis oft afbrýðisemi út í Hjalta, fyrir lífið sem hann lifði fyrir norðan. Hugsa sér frelsið í því að geta bara rölt út og farið á kaffihús! Sambandið okkar er blessunarlega þannig, að við höfum alltaf getað talað um allt og við höfum rætt þetta mikið. Það var sérstaklega mikilvægt að ræða allar þessar tilfinningar og vera opin og heiðarleg. Þó að hann hafi ekki verið á staðnum þá var hann alltaf til staðar fyrir mig. Ég þurfti oft að minna mig á það að ég var líka heppin. Hann missti af miklu á fyrsta ári sonarins, sem ég fékk að upplifa,“ segir Arna Sif.

Það að vera þreyttur til dæmis, verður bara ekkert mál og ég tek ekkert eftir því. Það er eitthvað við strákinn, sem lætur það engu skipta 

Það var ekki auðvelt fyrir Hjalta að vera fjarri, og hann rifjar upp að hann hafi komið suður allar helgar sem hann gat, og þá keyrði hann jafnvel aftur norður um nóttina og mætti beint í vinnuna í leikhúsinu alveg ósofinn, af því að hann vildi vera eins lengi og hann mögulega gat. „Það var frekar galið stundum,“ segir hann. „En það er klárlega þannig, að eitt af því sem hefur komið mér mest á óvart við að verða foreldri, er að maður veltir sér ekkert upp úr svona. Það að vera þreyttur til dæmis, verður bara ekkert mál og ég tek ekkert eftir því. Það er eitthvað við strákinn, sem lætur það engu skipta.“

Kom heldur bratt aftur á völlinn

„Ég spila svo minn fyrsta leik með Val á grasi og spila í 80 mínútur, sem var líka kannski bilun,“ segir Arna Sif um endurkomuna á völlinn eftir meiðsli, og Hjalti tekur undir það, en hann er mikill íþróttaáhugamaður og hefur lifað sig af mikilli innlifun í fótboltann með Örnu og segir að tilfinningarnar sem tengjast þessu séu mjög smitandi. „Ég tók svo líka 80 mínútur í næsta leik og ég hef aldrei verið jafn vansæl í líkamanum. Það hefur alveg gengið vel heilt yfir, en ég er aðeins að fá það í bakið núna hvað ég var að rembast við að komast af stað þarna í sumar.“

„Það er reyndar gaman að segja frá því, að ég bjóst við að ég myndi læra af þessu öllu saman og þroskast,“ segir Arna Sif hlæjandi. „Að ég myndi kannski vera skynsamari, núna þegar við erum byrjaðar að æfa. Það hefur ekki gerst, ég er búin að vera með í öllu og reyni að gefa þessum ungu píum ekkert eftir!“

Ég hef notið þess mikið að vera í því hlutverki að styðja við hana

„Mig langaði oft til þess að verða íþróttamaður þegar ég var yngri og ég æfði allskonar,“ segir Hjalti Rúnar. „En eftir að fylgjast svona náið með fótboltanum hjá Örnu þá sé ég að ég hefði aldrei getað það! Miðað við hvað þarf að leggja mikið á sig og hugarfarið sem þarf að hafa. Þetta er svo miklu stærra en ég hélt. Ég hef notið þess mikið að vera í því hlutverki að styðja við hana, og dáist mikið að hennar metnaði og aga í kring um íþróttina.“

 

T.h. Örnu Sif hefur aldrei skort aga og seiglu í knattspyrnunni, en hér er hún að öllum líkindum fyrsta árið sem hún spilaði með meistaraflokki Þór/KA, 2007, aðein 15 ára gömul, að kljást við Hrefnu Huld Jóhannesdóttur í KR sem er 12 árum eldri en Arna. Hún gaf ekkert eftir þá og hefur ekki gert það síðan. Mynd: Rúnar Haukur. T.h. Arna og Hjalti fagna bikarmeistaratitli með Val, en Hjalti hefur verið mjög ástríðufullur stuðningsmaður þess liðs, sem Arna spilar með hverju sinni. Mynd: aðsend 

Eru einhver líkindi með leiklistinni og íþróttunum?

Er eitthvað líkt með því að vera leikari og að vera íþróttamaður? Það er spurning sem er áhugavert að spyrja parið að. „Ja, það er allavegana þannig að það þarf að leggja mikið á sig til að ná árangri báðum megin, og eitthvað sálarstríð sem fylgir,“ segir Hjalti. „Þegar illa gengur eða þegar enginn velur þig, þá er erfitt.“

Við komumst að þeirri niðurstöðu að það er líka einhver samhljómur í því, að báðar stéttir krefjast þess að fólk setji sig í stellingar og leiki hlutverk. Undirbúningur fyrir íþróttaleik krefst þess að klæða sig í búning og koma sér í ákveðið hugarástand, rétt eins og hlutverk í leiksýningu.

 

Miklar tilfinningar, samvinna og aksjón fylgja bæði boltanum og leiksviðinu. T.v. Arna Sif fagnar í leik með val með Önnu Rakel Pétursdóttur, sem er einnig fyrrum liðsfélagi Örnu í Þór/KA. T.h Hjalti Rúnar tekur dansspor á sviðinu með Vigdísi Höllu Birgisdóttur í sýningunni Elskan er ég heima? 

Ólíkur vinnutími og ófyrirsjáanleiki

„Það hefur líka verið áhugavert fyrir mig, eftir að við byrjum saman, að kynnast því hvernig leikaralífið er,“ segir Arna Sif. „Það er rosalega mikil óvissa í kring um þetta sem maður áttar sig kannski ekki alveg á. Þegar tímabilið mitt er að klárast og ég er að renna út á samning, þá veit ég samt yfirleitt eitthvað, eða það eru einhverjir möguleikar í boði. Þú hefur kannski aðeins meiri hugmynd um framhaldið. En fyrir leikara, þá er oft algjör óvissa með næstu verkefni, og það hefur verið kvíðavaldandi fyrir mig - fyrir hans hönd - að vita ekki neitt hvað gæti tekið við.“

Maður hleypur ekkert auðveldlega út úr fótboltaleik eða úr miðri leiksýningu! 

„Svo er ekkert voðalega hentugt, hvað álagstímabilin í þessu eru ólík,“ bætir Hjalti við. „Hún er að keppa yfir sumarið, og ég er að leika á veturna. Allar helgar eru yfirleitt vinnuhelgar hjá öðru hvoru okkar.“ Arna minnist á að þeim hafi flogið í hug að það gæti verið gaman að fara erlendis þegar Ásgrímur var lítill, en það fannst ekkert rými fyrir það. „Það verður bara útlandaferð þegar ég hætti í fótbolta!“

„Svo er eitt, sem rann upp fyrir mér um daginn, þegar hún var að keppa æfingaleik og ég var að frumsýna í Samkomuhúsinu,“ segir Hjalti. „Þá vorum við að fá pössun, og yfirleitt þegar maður er að fá pössun fyrir barnið þá er samt alltaf hægt að stökkva til og koma aftur ef eitthvað kemur upp á - en við erum bæði í þannig vinnu að það er meira en að segja það að vera á vaktinni! Maður hleypur ekkert auðveldlega út úr fótboltaleik eða úr miðri leiksýningu! Við erum reyndar ótrúlega heppin, hvað við eigum gott bakland í vinum og fjölskyldu, ef út í það er farið.“


Þetta var annar hlutinn af þremur, af viðtalinu við Örnu Sif og Hjalta Rúnar. Næsti hluti verður birtur á morgun á akureyri.net