Listin að vera ósammála
Ósammála maka
Ég á mann. Hann heitir Örvar.
Samband okkar hófst árið 2007. Í samtölum við vinkonur mínar í aðdraganda þess lýsti ég honum á lélegri íslensku sem „THE gaur sko“. Það stóðst. Hann er allt sem ég óskaði mér. Alla daga er jarðtenging mín en lyftir mér samtímis upp. Ég horfði á hann í gærkvöldi með slíkri aðdáun að mér leið eins og tíminn hefði stoppað.
En mikið svakalega erum við oft ósammála.
Við rökræðum gjarnan langt fram á nótt. Ég hef gengið út úr herbergjum í bræði til að forðast að segja eitthvað sem ég gæti séð eftir og stundum mistekist það. Einu sinni þurfti ég að stoppa bílinn við Vatnsdalshóla á suðurleið því mér var svo niðri fyrir í umræðu um kvenna og karla knattspyrnu. Við höfum sjaldan kosið það sama, eða svo grunar mig. Hann er með mjög gott pókerandlit.
Samt virkar þetta.
Þrátt fyrir ágreining samræmast grunngildi okkar. Við erum sammála um markmiðin, framtíðarsýnina og það sem skiptir mestu máli, að sýna hvort öðru virðingu í orði og á borði þegar við erum ósammála. Það er lykillinn að því að geta verið ósammála.
Ósammála Viðreisn
Það er ekkert leyndarmál að ég styð, er skráð og starfa fyrir Viðreisn og hef verið í flokknum síðan árið 2017. Ég er formaður svæðisfélags Akureyrar og kjördæmaráðs Norðausturkjördæmis og sit í stjórn flokksins. Ég man enn tilfinninguna þegar ég skráði mig, mér hlýnaði allri og leið eins og ég væri komin heim. Árin hafa kennt mér margt. Ég hef bæði tekið mikinn þátt í starfinu og dregið mig til baka eftir aðstæðum. Nú starfa ég meira en nokkru sinni og finn að flokkurinn nærir mig. Ég hef fundið minn sess sem ein af baráttu manneskjum landsbyggðarinnar innan flokksins. Ég hef eignast vini til lífstíðar í öllum kjördæmum, bæði innan og utan flokksins og gef tíma minn með glöðu geði.
En mikið svakalega er ég oft ósammála vinum mínum í Viðreisn.
Ég hef átt í hörðum rökræðum, lagt fram breytingartillögur á landsþingi og tekið þátt í heitum umræðum á fundum og samfélagsmiðlum. Ég legg mig fram um að vera gagnadrifin, sanngjörn, hlý og rökföst, sama hver á í hlut. Aldrei hef ég þó upplifað að skoðanir mínar séu rangar, að mér sé gert að halda þeim fyrir mig eða að gagnrýnin sé ómálefnaleg. Þvert á móti er rými fyrir samtalið innan flokksins og virðing fyrir því að rökræður séu leiðin að sanngjarnri niðurstöðu.
Sanngjörn niðurstaða er ekki alltaf best fyrir alla. Ákvarðanir í stjórnmálum hafa ólík áhrif á líf fólks. Mín skoðun er ekki sú eina rétta og mín sýn ekki sú eina rétta. Rödd allra skiptir máli.
Innan Viðreisnar finn ég það sama og í sambandinu við Örvar. Við erum sammála um að sýna virðingu þegar við erum ósammála. Þannig vöxum við. Þannig stækkum við. Og að mínu mati var það lykillinn að því að flokkurinn er nú í ríkisstjórn.
Ósammála umræðunni
Undanfarin ár hef ég orðið sífellt meira vör við ákveðið mynstur sem mér finnst sjálfsagt í nánum samböndum og innan flokks míns, eitthvað sem er þó ekki lengur sjálfsagt í samfélagsumræðunni. Það vekur hjá mér sorg. Við gleymum oft að vera manneskjur. Orðræðan harðnar, þolinmæðin minnkar og óvirðing dreifir úr sér eins og veira.
Á liðnu ári hefur ríkisstjórnin tekið fjölmargar ákvarðanir. Ég er ekki sammála þeim öllum og hef nýtt þá vettvanga sem ég starfa á innan flokksins til að vekja athygli á því, þá sérstaklega með landsbyggðargleraugun á nefinu. Rödd landsbyggðarinnar þarf að vera raunveruleg rödd í rökræðum, ekki aukasetning. Það krefst virðingar fyrir gögnum, upplifunum og áskorunum fólks um allt land. Án hennar verður framtíðarsýn um jöfn tækifæri aldrei að veruleika.
Rökræður, virðing og gleði eru stór hluti af DNA Viðreisnar. Ég finn að samtölin og hugur vina minna í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar næra mig nú enn dýpra en áður. Viðreisn á landsbyggðinni er að mínu mati í raunverulegu sóknarfæri að verða þungt lóð á vogarskálum stjórnmálanna. Ekki vegna þess að fólkið í flokknum sé alltaf sammála, heldur vegna þess að við kunnum listina að eiga samtalið og vera stundum ósammála.
Listin að vera ósammála
Í aðdraganda kosninga reynir á samfélagið allt. Þá harðnar orðræða, skotgrafir dýpka og freistingin til að einfalda flóknar áskoranir verður meiri. En lýðræði þrífst ekki á upphrópunum eða afmennskun andstæðinga. Það þrífst á rökræðum, ábyrgð og virðingu.
Við þurfum ekki að vera sammála um leiðina, en við verðum að vera sammála um leikreglurnar. Að staðreyndir skipti máli. Að upplifanir fólks um allt land séu teknar alvarlega. Að það sé styrkur, ekki veikleiki, að efast og takast á innan flokka og á milli sjónarmiða.
Með þessum greinarstúf sendi ég skýra áskorun inn í kosningavorið: krefjumst betri umræðu. Tökum þátt af heilindum, hlustum áður en við dæmum og verum ósammála af virðingu. Því framtíð samfélagsins mótast ekki af því hver hrópar hæst, heldur af því hverjir kunna listina að eiga samtalið.
Flugþróunarsjóður efldur
Makríllinn vannýttur
Opið bréf til samgönguráðherra
Treystir Viðreisn þjóðinni í raun?