Þétting byggðar: Hagkvæm en umdeild
Þétting byggðar vekur alla jafna upp miklar umræður og skoðanaskipti í tengslum við skipulagsvinnu og/eða þegar framkvæmdir eru á döfinni þar sem byggt er á reitum innan um gróna íbúðabyggð.
- Í FYRRADAG – HÚSIN SPRETTA UPP Í HOLTA- OG MÓAHVERFUM
- Í GÆR – FRAMBOÐ LÓÐA FYRIR UM 260 ÍBÚÐIR Á ÁRI
- Í DAG – ÞÉTTING BYGGÐAR: HAGKVÆM EN UMDEILD
- Á MORGUN – FFÉSTA, VMA, SAK OG 100 HJÚKRUNARRÝMI
Þrátt fyrir að í gildandi skipulagi sé þegar gert ráð fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis á tilteknum reitum innan um rótgróna íbúðabyggð kemur yfirleitt fram gagnrýni á þéttingarstefnuna þegar breytingar á deiliskipulagi eru í vinnslu og/eða þegar komið er að framkvæmdum. Í sumum tilvikum tengist það breytingu á fyrra skipulagi þegar leyfð eru hærri hús, fleiri íbúðir og svo framvegis. Grænu svæðin eru íbúunum líka hugleikin og koma oft fram sjónarmið þeim til varnar þegar þétting byggðar ber á góma. Jón Hjaltason, bæjarfulltrúi utan flokka, ritaði grein á akureyri.net fyrir stuttu þar sem hann bað íbúa að hugleiða hvort of geyst væri farið við þéttingu byggðar.
Þéttingin hagkvæm
Í greinargerð með breytingu á Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 frá því í apríl á þessu ári kemur fram að við endurskipulagningu byggðar skuli leita að kostum til þéttingar byggðar og stuðlað að endurnýtingu vannýttra lóða og svæða með starfsemi sem kokið hafi hlutverki sínu. Þá segir að með þéttingu byggðar sé verið að nýta betur þá grunngerð sem fyrir er sem sé kostnaðarlega hagkvæmt fyrir rekstur bæjarins, auk jákvæðra áhrifa á umhverfið og lífsgæði íbúa vegna minni mengunar og styttingar á ferðatíma milli heimilis og vinnu, skóla eða í tómstundastarf.

Fjórir þéttingarreitir þar sem framkvæmdir eru í gangi; Skarðshlíð 20, Höfðahlíð 2, Norðurgata 3-7 og Austurbrú. Kortið sýnir staðsetningu þessara reita. Skjáskot úr kynningu skipulagssviðs Akureyrarbæjar.
Jafnframt er tekið fram að við þéttingu skuli ekki gengið á nauðsynleg útivistarsvæði og ósnortna náttúru. Ólíklegt sé þó að þétting byggðar geti staðið undir allri íbúðaþörf á næstu árum og því verði áfram þörf á að byggja upp ný hverfi í jaðri núverandi byggðar.
Framkvæmdir á fjórum reitum
Um þessar mundir má segja að byggingarframkvæmdir standi yfir á fjórum þéttingarreitum á Akureyri með samtals 111 íbúðum.
Framkvæmdir í gangi – Að Skarðshlíð 20 er í byggingu fjölbýlishús með 50 íbúðum. Skammt þar frá, í Höfðahlíð 2 er í byggingu fjögurra íbúða hús í stað lítils einbýlishúss sem þar stóð og var rifið. Þá eru átta íbúðir í byggingu í Norðurgötu 3-7 og 49 íbúðir við Austurbrú.
Í undirbúningi – Nokkur af þeim svæðum sem eru næst á dagskránni sem uppbyggingarsvæði samkvæmt húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar eru þéttingarsvæði. Þar má nefna Viðjulund 1 þar sem nú er í skipulagsgátt auglýsing um breytingar á skipulagi, líklega síðasta skrefið áður en endanlegar skipulagsbreytingar verða staðfestar og framkvæmdir geta hafist. Þar munu rísa tvö fjölbýlishús með samtals 51 íbúð á næstu árum. Hönnun þeirra er langt komin.

Myndir úr nýjustu tillögunni að breyttu deiliskipulagi fyrir Viðjulund 1. Skjáskot úr skipulagsgögnum.
Þá er unnið að undirbúningi uppbyggingar á lóðunum Hofsbót 1 og 3, sem boðnar voru út saman, en þar er gert ráð fyrir að verði íbúðir annars vegar og svo verslun og þjónusta hins vegar. Hönnun er á frumstigi. Unnið er að undirbúningi uppbyggingar við Torfunefsbryggju í kjölfar útboðs og er samtal í gangi um þá framkvæmd. Hafnasamlag Norðurlands auglýsti í maí eftir kauptilboðum í byggingarrétt á lóðunum Torfunefi 2 og 3. Í auglýsingu kom fram að gert væri ráð fyrir að lóðirnar tvær muni hýsa starfsemi á borð við verslun, þjónustu, veitingastaði, skrifstofur og vinnustofur.

Mynd úr auglýsingu Hafnasamlags Norðurlands þegar óskað var tilboða í byggingarrétt lóðanna Torfunefs 2 og 3.
Hér eru enn ótaldir tveir reitir sem eru í undirbúningi, Akureyrarvöllur annars vegar og gamla tjaldsvæðið hins vegar, eða tjaldsvæðisreiturinn milli Þingvallastrætis, Þórunnarstrætis, Hrafnagilsstrætis og Byggðavegar.
Á tjaldsvæðisreitnum er gert ráð fyrir allt að 180 íbúðum auk um 2.500 fermetra húsnæði fyrir verslun og þjónustu. Vinna við endurskoðun deiliskipulags hófst síðla árs 2022 og drög að skipulagi svæðisins kynnt í byrjun þessa árs. Nú er unnið að gerð útboðsskilmála fyrir svæðið og stefnt að því að það verði auglýst sem ein heild fyrir lok árs 2025 eða í byrjun árs 2026. Reiknað er með að lokaferli deiliskipulagsins verði unnið í samvinnu við þann aðila sem fær úthlutað lóðum á svæðinu.

Tjaldsvæðisreiturinn, lofftmynd og væntanleg byggð. Skjáskot úr kynningu skipulagssviðs Akureyrarbæjar.
Fleiri svæði eru í skoðun með uppbyggingu á þéttingarreitum í huga, en þó ekki komið svo langt að reiknað sé með íbúðum á þessum reitum í húsnæðisáætlun þar sem Akureyrarbær stýrir ekki tímasetningu uppbyggingar á þeim. Akureyrarbær hvetur þó til þessarar uppbyggingar að því er fram kom á kynningarfundi bæjarins um skipulagsmál á dögunum og vinnur með lóðarhöfum að því að gera uppbygginguna mögulega.
Hér má nefna svæði við Naustagötu á milli Haga- og Naustahverfis, Gránufélagsgötu og nágrenni, Gleráreyrar, Hvannavelli og Austursíðu/Norðurtorg.

Svæði við Naustagötu þar sem framkvæmdir eru í gangi við leikskóla, en beggja megin leikskólalóðarinnar eru íbúðasvæði samkvæmt skipulagi. Naustagata 13 hefur verið mikið í fréttum í tengslum við byggingaráform og tafir sem hafa orðið á því að lóðarhafi hefji framkvæmdir. Teiknað á map.is/akureyri.
Lóðirnar Miðholt 1-9 voru auglýstar saman sem ein heild eftir að skipulagi hafði verið breytt, hærri hús leyfð en áður og íbúðum fjölgað úr 30 í 54 frá fyrra skipulagi. Þær breytingar voru nágrönnum í Miðholti og Stafholti lítt að skapi, eins og Akureyri.net hefur fjallað um. Þarna var fyrir gert ráð fyrir byggingum sunnan götunnar í skipulagi og svæðið því ef til vill ekki beint skilgreint sem þéttingarreitur, en engu að síður þétting byggðar frá því sem nú er. Unnið er að undirbúningi og stefnt að framkvæmdum á næsta ári.
- Á MORGUN – FFÉSTA, VMA, SAK OG 100 HJÚKRUNARRÝMI
Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar
Eflum SAk
Tryggjum öryggi eldri borgara
Duga aðgerðir ríkistjórnarinnar til að rífa fjölda eldri borgara úr fátæktargildrunni?