Fara í efni
Umræðan

Skólinn í raun lagður niður fái hann nýtt nafn

Háskólasvæðið við Norðurslóð á Akureyri. Mynd: Þorgeir Baldursson

Bæjarráð Akureyrar telur að Háskólinn á Akureyri verði í raun lagður niður sem sjálfstæð menntastofnun ef tekið verður upp nýtt nafn við fyrirhugaða sameiningu hans og Háskólans á Bifröst. Það sé óásættanlegt. 

Uppbygging Háskólans á Akureyri er ein mikilvægasta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi, að mati bæjarráðs, og nafn skólans sé ekki aðeins vörumerki sem litlu máli skipti, heldur staðfesting á því hvar skólinn sé staðsettur og því samfélagslega hlutverki sem hann gegni í nærumhverfinu.

Rætt var um stöðu fyrirhugaðrar sameiningar háskólanna tveggja á fundi bæjarráðs í morgun. Fullltrúar stúdenta mættu á fundinn og telur bæjarráð skipta mjög miklu máli að „bæjarstjórn, þingheimur og samfélagið taki mark á þeim djúpstæðu áhyggjum sem stúdentar við HA“ hafi lýst. Bæjarráð hefur óskað eftir fundi með Loga Einarssyni, menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra, og Áslaugu Ásgeirsdóttur, rektor Háskólans á Akureyri, vegna málsins.

Umræddur liður í fundargerð bæjarráðs í morgun er svohljóðandi:

„Umræða um stöðu fyrirhugaðrar sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Fullltrúar stúdenta, Aðalbjörn Jóhannsson, Rakel Rún Sigurðardóttir og Jóhannes Már Pétursson, mættu á fundinn.

Uppbygging Háskólans á Akureyri er ein mikilvægasta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi og skiptir sköpum fyrir menntunarstig á svæðinu og þar af leiðandi atvinnulíf og samfélagið allt.

Það skiptir mjög miklu máli að bæjarstjórn, þingheimur og samfélagið taki mark á þeim djúpstæðu áhyggjum sem stúdentar við HA hafa lýst yfir vegna fyrirhugaðrar sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Þær áhyggjur þarf að ræða á opinberum vettvangi, enda varðar framtíð skólans samfélagið allt.

Fjölmargir kostir geta fylgt umræddri sameiningu, sem ber að skoða. Sé það rétt að um sé að ræða ófrávíkjanlega kröfu að verði af sameininingu eigi nýr háskóli að fá nýtt nafn, þá er ekki annað hægt að ætla en að í raun sé verið að leggja niður Háskólann á Akureyri, sem sjálfstæða menntastofnun skv. lögum nr. 85/2008. Það er óásættanlegt. Nafn skólans, er ekki aðeins vörumerki sem litlu máli skiptir, heldur staðfesting á því hvar skólinn er staðsettur, því samfélagslega hlutverki sem hann gegnir í nærumhverfinu til lengri tíma sem og að val um staðnám skipti ekki síður máli en sveigjanlegt nám.

Bæjarráð óskar því eftir fundi með menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra og rektor Háskólans á Akureyri.“

  • Allar fréttir Akureyri.net um fyrirhugaða sameiningu:

HA sameinaður Bifröst?

Reynslunni ríkari eftir fjár­hags­leg á­föll síðustu ára

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
09. september 2025 | kl. 08:00

Börnin í Móahverfi sem munu þurfa skutl um allan bæ

Páll Pálsson skrifar
02. september 2025 | kl. 16:30

Er menntakerfið eina vandamálið?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
02. september 2025 | kl. 13:15

… og við hvað á fólkið svo að vinna?

Árni Guðmundsson skrifar
01. september 2025 | kl. 11:00

Ný sókn í mennta­málum – tæki­færi eða hliðar­skref?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 14:15

Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 12:00