Hluti Hafnarstrætis verður að vistgötu
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum sl. þriðjudag tillögu skipulagsráðs um að auglýsa breytingatillögu á deiliskipulagi miðbæjarins í þá veru að Hafnarstræti, frá Kaupvangsstræti suður að Drottningarbraut, verði gert að vistgötu. Stefnt er að því að a.m.k. verði lokið við framkvæmdir í syðsta hluta götunnar fyrir 1. maí nk.
Samkvæmt umferðarlögum er hámarkshraði ökutækja á vistgötu 15 km/klst og heimilt er að dveljast og vera að leik á vistgötu. Gangandi vegfarendur eiga rétt framyfir akandi og skulu ökumenn sýna gangandi sérstaka tillitsemi og víkja fyrir þeim.

Horft suður Hafnarstræti. Tillöguteikning úr hönnunardrögum Akureyrarbæjar.
Breytingartillagan gerir ráð fyrir að gatan verði endurhönnuð með það að markmiði að óvarðir vegfarendur séu settir í forgang. Tilgangur breytinganna er að koma til móts við fyrirhugaða fjölgun ferðamanna á svæðinu í tengslum við umfangsmikla uppbyggingu hótelrýma í Hafnarstræti auk þess sem að í aðalskipulagi er gert ráð fyrir stofnstíg gangandi og hjólandi.
Í minnisblaði með tillögunni kemur fram að mikil áhersla verði lögð á að gatan verði falleg með gróðri og húsgögnum, ásamt því að torg verður sett norðan við Skáld hótel, nýja hótelið sem rekið verður undir merkjum Curio Collection by Hilton, við syðsta hluta götunnar. Einnig verður nokkurs konar torg fyrir neðan Sigurhæðir.

Svona gæti torgið syðst í vistgötunni, framan við Skáld hótel litið út. Tillöguteikning úr hönnunardrögum Akureyrarbæjar.
Í minnisblaðinu kemur fram að áformað sé að Skáld hótel verði opnað 1. maí næstkomandi og stefnt sé að því að hafa fráganginn fyrir framan hótelið tilbúinn á þeim tíma.