Fara í efni
Umræðan

Tjaldsvæðisreiturinn auglýstur „til sölu“

Skipulagstillaga (merkt DRÖG) sem kynnt var 2023 gerði ráð fyrir fremur lágreistri og þéttri byggð á Tjaldsvæðisreitnum - þar sem bílar væru að mestu geymdir undir og gangandi ættu kost á samskiptasvæðum á skýldum reitum milli húsa. Tillagan virkaði spennandi og hlaut meira og minna einróma jákvæð viðbrögð almennings - enda verðmætt og áhugavert svæði fyrir gæða-búsetu.

Undirritaður tjáði áhuga og lagði til að stofnað yrði „þróunarfélag“ undir forystu Akureyrarbæjar með samstarfi við almannafélög um íbúðarekstur - bæði eldri borgara og jafnhliða þannig að barnafólk fengi ákveðinn forgang til búsetu. Skólar nærri, Sundlaug Akureyrar og Íþróttahöllin og miðbæjarnánd.

Þannig hagar til við uppbyggingu á svæðinu að ekki er gert ráð fyrir að byggja þurfi einn meter af nýjum götum og gangstígum og kostnaður af meginlögnum orku og frárennslis hlýtur að verða í lágmarki. Þarna gefst því sveitarfélaginu ákjósanlegt tækifæri til að koma til móts við almenning til beinnar fjölgunar hagkvæmra íbúða – með því að veita neytendum afar hófleg kjör á byggingarrétti og gatnagerðargjöldum án útgjalda af hálfu sveitarfélagsins. Þarna mætti því „úthluta lóðum“ beint til neytenda og félaga þeirra – og fresta greiðslu hefðbundinna byggingargjalda. Með því væri neytendum „ívilnað“ - sem auðvitað þýddi á móti að tímabundnar og varanlegar kvaðir yrðu settar á viðkomandi byggingar til að útiloka að einstaklingar gætu síðar innleyst persónulegan gróða af byggingarrétti á þessu verðmæta svæði.

Almenningur plataður ... ?

Frá 2023 hefur klárlega verið meiri og minni falin vinna í gangi – í bæjarkerfinu og í einhverjum ósýnilegum samskiptum bæjarfulltrúa og nafnlausra fjárfesta og verktaka.

Í stað þess að leita leiða með neytendareknum íbúðafélögum eins og Búfesti hsf og Búmönnum hsf, Bjargi og Blæ og freista þess að stofnað verði til nýrra íbúðafélaga 60 ára+ kemur í ljós að búið að henda hugmyndum um þétta lágreista byggð á 2 og mest 3 hæðum - sem snúið er og raðað móti sól og með mesta skjól gagnvart vindum – löguð eftir aðliggjandi skipulagi – og þar sem skermuð og mögulega að einhverju leyti yfirbyggð svæði bókstaflega kölluðu á að fólk staldraði við og blandaði geði - birtist nú tillaga um frekar háreista byggð, frístandandi 4ra hæða hús – með stórum svæðum á milli, sem bjóða tæpast upp á neitt annað en einhvers konar einskismannsland – eyðusvæði – milli húsa.

Við höfum því miður marga reiti – áþekka milli fjölbýlishúsa upp á 4 hæðir eða meira þar sem ekkert þrífst - hvorki gróður eða mannlíf – og enginn nýtur ánægju af og er oft meira til ama og hirðuleysis.

Og fyrst bæjarstjórnin álítur að byggingarrétturinn sé næstum 300 milljóna virði blasir við að hægðarleikur er (var) að leggja einmitt inn þetta verðmæti til stofnunar Þróunarfélags í samstarfi við velvildar-aðila - (jafnvel KEA). Þessu stofnframlagi gæti félagið skilað til baka með raunhæfri ávöxtun – þegar íbúðirnar eru komnar í notkun. Þannig mundi byggingarrétturinn verða að virkri eign fyrir bæjarsjóð strax - þótt verðmætið verði ekki innleyst fyrirfram.

Já einmitt!

Það er að mínu mati algerlega augljóst að þessi auglýsing hefur ekki orðið til í jákvæðu og virku samtali við bæjarbúa – við eldri eða yngri fulltrúa neytenda – en sennilega verið kokkuð upp úr einhverju mixi með þröngt skilgreindum „hagsmunaaðilum“ – væntanlega í þeirri trú að þannig muni menn komast í samband við „áhugasama fjárfesta“ sem eru til í að borga peninga (skapa tekjur fyrir bæjarsjóð) fyrir byggingarrétti – skítt með sligandi húsnæðiskostnað ungra og eldri í bænum.

Eins og minnst er á hér að framan er þarna (enn) bókstaflega dauðafæri til að koma til móts við íbúðafélög í neytendarekstri og íbúðabyggjendur sjálfa með því að úthluta byggingarrétti án nokkurra beinna útgjalda bæjarsjóðs. Nú hefur Bæjarstjórn Akureyrar hins vegar brugðist neytendum (stundum kallaðir kjósendur) og ákveðið að ráðstafa þessum miklu hagsmunum sem vissulega felast í byggingarrétti á svo miðlægu svæði umfram úthverfi – þar sem byggja þarf nýjar götur, stíga og öll veitukerfi og grunnskóla og stofna þarf til samgöngukostnað í þúsund ár.

Vond pólitík

Auglýstar lóðir og skipulag á Tjaldsvæðisreitnum er ekki í viðunandi samræmi við þá tillögu sem lagt var af stað með - í kynningu til íbúa og hagaðila árið 2023. Ekkert í opinberu og sýnilegu samráði árin 2023-2025 réttlætir að mínu mati að þessi verði niðurstaðan. Hagsmunir almennings um ábyrga meðferð slíktra verðmæta eru stærri en svo að við ættum að sætta okkur við svona úrlausn. Vera kann að tilboð berist - sem uppfyllir hugmyndir skipulagsráðs Akureyrarbæjar – sem auglýsingin birtir - en þó kynnu að vera að tilboð verði skilyrt þannig af hálfu fjárfesta að málefnalegar ástæður gætu legið til grundvallar höfnun á öllum tilboðum.

Það væri auðvitað skásta niðurstaðan úr því sem komið er að enginn fjárfestir gefi sig fram - - og Nýrri Bæjarstjórn Akureyrar 2026-2030 gefist þar með ráðrúm til að draga til baka þessa misheppnuðu og skaðlegu tillögu um groddalega nýtingu á Tjaldsvæðisreitnum. Að velja einn fjárfesti úr á grundvelli tilboða í svo stór verðmæti er líka býsna rustaleg pólitík og ekkert sérlega hugnanlegt að búa til farveg fyrir mjög mikinn ávinning - af því svo litlar takmarkanir eru á varðandi vænta íbúðasölu.

Það verða kosningar í vor – og neytendur ættu endilega að velta fyrir sér hvernig þeir vilja að bæjarfulltrúar rækti samráð við kjósendur og hvernig þeir vinna að hagsmunum fjöldans fremur en dekri við örfáa (valda) fjárfesta og verktaka.

Benedikt Sigurðarson er eftirlaunamaður á Akureyri og áhugasamur um hagkvæmar byggingar og rekstur íbúða fyrir alla aldurshópa.

Gott að eldast

Kristín Áslaug Guðmundsdóttir skrifar
19. janúar 2026 | kl. 08:00

Hafirðu ekkert gott að segja er betra að þegja!

Hlín Bolladóttir skrifar
16. janúar 2026 | kl. 11:25

Samstaða í ferðaþjónustu aldrei mikilvægari

Halldór Óli Kjartansson skrifar
13. janúar 2026 | kl. 06:00

Ríkisrekinn byggðahalli

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar
12. janúar 2026 | kl. 13:00

35% aukning í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll

Ásthildur Sturludóttir skrifar
09. janúar 2026 | kl. 17:45

Akureyrarflugvöllur - Brú milli Norðurlands og umheimsins

Sigrún Björk Jakobsdóttir skrifar
07. janúar 2026 | kl. 11:45