Fara í efni
Umræðan

Ályktun Viðskiptadeildar HA

Akademískir starfsmenn þeirra þriggja deilda við Háskólann á Akureyri sem sameining við Háskólann á Bifröst hefði mest áhrif á lýsa miklum efasemdum um mögulega sameiningu og hvernig að henni er staðið. Þetta kemur fram í þessari frétt sem Akureyri.net birti í dag.

Hér má sjá ályktun deildarfundar viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri í heild.

Ályktun deildarfundar Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri 20. des.

Með dugnaði og baráttuvilja tókst Norðlendingum að stofna háskóla á Akureyri og hefur HA nú starfað í hart nær 40 ár. Starfsemin var í smáum sniðum í byrjun en nú stendur skólinn styrkum fótum og er einn af þremur stærstu háskólum landsins. Á þessum fjórum áratugum hefur skólinn skapað sér nafn meðal landsmanna sem Háskólinn á Akureyri.

Viðskiptadeild HA stendur vel, mikil ásókn er í námið og nýlega endurskipulagt meistaranám hefur tekið flugið. Ásókn í bakkalár- og meistaranám er mun meiri en fjármagnaður fjöldi plássa leyfir.

Ef viðskiptadeild Háskólans á Bifröst verður sameinuð Viðskiptdeild HA verður mikið rask á starfsemi deildarinnar, sérstaklega á meistarastigi og allar líkur á að ekki verði hægt að bjóða slíkt nám áfram nema með skólagjöldum. Þar sem Viðskiptadeild HA hefur nú þegar leyfi til að útskrifa doktorsnema er það vafasamt að veikja þá undirstöðu doktorsnáms sem meistaranám við deildina er.

Háskólinn á Bifröst hefur seytlað jafnt og þétt til Reykjavíkur og er nú svo komið að lang flestir starfsmenn Bifrastar hafa vinnuaðstöðu í Reykjavík og starfa þar.

Með sameiningu Viðskiptadeildar HA og Viðskiptadeildar Bifrastar er ljóst að strax eftir sameiningu verður meirihluti akademískra starfsmanna deildarinnar staðsettur í Reykjavík en ekki á Akureyri og nafnið „Háskólinn á Akureyri“ væntanlega aflagt. Þar með verður Viðskiptadeild HA komin á sömu braut og Bifröst fór, þ.e. að starfsemin seytli jafnt og þétt til höfuðborgarinnar og háskólasamfélag á Akureyri veikist ár frá ári. Eftir því sem tengingin við Akureyri og Norðurland fjarar út, því minni ástæða verður að halda úti þriðju viðskiptadeildinni í Reykjavík og því líkur á að í framtíðinni veri hún lögð niður eða sameinuð HR eða HÍ á sama hátt og nú er áformað að sameina Bifröst öðrum skóla.

Með sameiningu viðskiptadeilda HA og Bifrastar er jafnframt ljóst að eftir stendur ofmönnuð deild. Litlar líkur eru á að nemendafjöldi aukist að sama skapi. Ríkið mun ekki vilja fjármagna þessa ofmönnun til lengdar og þá er veruleg hætta á að grípa þurfi til til uppsagna. Það er mat Viðskiptadeildar HA að sameining við Háskólann á Bifröst sé ekki í þágu betra háskólastarfs á Íslandi.

Ályktunin var samþykkt án mótatkvæða í deildarfundi 20. desember 2023 en tveir sátu hjá.

Viðskiptadeild HA ályktar því að sameiningarviðræðum við Háskólann á Bifröst skuli hætt.

Fyrir hönd deildarinnar.

20. desember 2023.

Grétar Þór Eyþórsson deildarforseti viðskiptadeildar

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30