Fara í efni
Pistlar

Tónleikar til styrktar byggingu nýrrar kirkju

Miðgarðakirkja varð alelda á örskömmum tíma í stífri norðanátt. Ljósmynd: Unnur Ingólfsdóttir

Miðvikudaginn 27. apríl klukkan 20 verða tónleikar í Akureyrarkirkju til styrktar byggingu nýrrar kirkju að Miðgörðum í Grímsey. Yfirskrift tónleikanna er Sól rís í Grímsey.

Flestum er í minni að kirkjan í Grímsey brann til grunna að kvöldi 21. september 2021 og allt sem í henni var varð eldinum að bráð. Ekki leið á löngu uns ákveðið var að reisa kirkju á ný og stefnan sett á að vinna það verk að mestu á þessu ári og vígja hina nýju kirkju árið 2023. Söfnunarátak til styrktar kirkjubyggingunni stendur yfir eins og sjá má og fá nánari upplýsingar á vefsíðunni https://www.akureyri.is/grimsey/kirkja

Á styrktartónleikunum í Akureyrarkirkju koma fram nokkrir norðlenskir listamenn, sem allir gefa vinnu sína:

 • Anna Skagfjörð
 • Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir
 • Friðrík Ómar
 • Kristjana Arngrímsdóttir
 • Óskar Pétursson
 • Stefán Elí
 • Tríó Jónasar Þórs, Ívars og Valmars

Hljómsveit á tónleikunum skipa:

 • Emil Þorri Emilsson
 • Jón Þorsteinn Reynisson
 • Kristján Edelstein
 • Stefán Gunnarsson
 • Valmar Väljaots

Kynnir á tónleikunum er Oddur Bjarni Þorkelsson.

Miðgarðakirkja á sér áhugaverða sögu. Hún var upphaflega reist úr rekaviði 1867, var breytt og lagfærð 1932, endurnýjuð aftur 1956 og þá endurvígð, friðuð árið 1990. Kirkjan varð eldi að bráð sem fyrr segir 2021 og þar með eyðilögðust fjölmargir fagrir gripir og listaverk. Og nú skal stefnt að því að reisa Grímseyingum kirkju á ný og til þess að styrkja verkefnið gefst tækifæri á tónleikunum í Akureyrarkirkju á miðvikudgskvöld.

Miðasala á tónleikana er á tix.is

„Kirkjubruninn í Grímsey var mikið reiðarslag og snerti við hjörtum þjóðarinnar. Slökkvilið eyjarinnar þurfti fljótlega að lúta í lægra haldi en kirkjan varð alelda á örskömmum tíma í stífri norðanátt,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum tónleikanna.

„Grímseyingar voru strax staðráðnir í byggja nýja kirkju og fengu Hjörleif Stefánsson arkitekt til að teikna nýja kirkju og Örnu Björgu Bjarnadóttur til að hafa umsjón með framkvæmdinni. Útlit nýju kirkjunnar mun hafa augljósa skírskotun til þeirrar gömlu. Einnig er horft til þess að nýja kirkjan þjóni auk helgihalds, hlutverki menningarhúss. Bygging nýrrar kirkju á nyrsta kirkjastað landsins er viðamikið samfélagslegt verkefni sem Grímseyingar leggja nú allt kapp á að verði að veruleika. Þeir eru því afar þakklátir öllu því listafólki og öðrum sem koma að undirbúningi tónleikanna með einum eða öðrum hætti.“

Þeim sem vilja styrkja söfnunina með frjálsum framlögum er bent á söfnunarreikning Miðgarðakirkju.

 • Kennitala: 460269-2539
 • Reikningsnúmer: 565-04-250731

Í Miðgarðakirkju í júní 2020, rúmu ári fyrir brunann. Ljósmynd: Sverrir Páll

Dyr Miðgarðakirkju. Ljósmynd: Sverrir Páll

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00