Fara í efni
Pistlar

Runnkennt elri til landgræðslu - Seinni hluti: Tegundir

TRÉ VIKUNNAR - 147

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Í norðurhluta Evrópu, Ameríku, Asíu og í fjöllum sunnar í sömu álfum vex elri sem oftast myndar kjarr frekar en skóg. Nú er mest af því flokkað sem ein safntegund. Þetta runnkennda elri vex gjarnan við skógarmörk og getur lifað og vaxið við skilyrði sem reynast öðrum tegundum trjáa og runna strembin. Um þetta fjölluðum við í fyrri hluta þessa pistils sem lesa má hér. Í þeim pistli lofuðum við að fjalla nánar um mismunandi hópa þessa elris. Hér kemur sú umfjöllun.
 
Myndarlegt en engu að síður runnkennt sitkaelri sem ættað er frá Kamtsjatkaskaganum austast í Rússlandi og myndar þar kjarr. Hér er það í Lystigarðinum á Akureyri.  Mynd: Sig.A.
Myndarlegt en engu að síður runnkennt sitkaelri sem ættað er frá Kamtsjatkaskaganum austast í Rússlandi og myndar þar kjarr. Hér er það í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Áður fyrr var runnkennt elri flokkað í nokkrar skyldar tegundir sem nú hafa flestar verið felldar undir eina safntegund. Hún kallast Alnus alnobetula og á sér samheitið Alnus viridis. Áður en grasafræðingar féllust á þetta höfðu margar tegundanna verið reyndar á Íslandi og hlotið íslensk heiti. Við reynum að halda okkur við þau eins og hægt er en því miður gætir nokkurs ruglings með nöfnin. Í þessum pistli segjum við fyrst frá breytingum á skilgreiningu tegundanna og svo segjum við nánar frá hverri tegund eða undirtegund fyrir sig.

Hvanngrænt sitkaelri í svörtum, sunnlenskum sandi og miklum vindi. Eins og flestir vita er víða vindasamt um sunnanvert landið nema helst í Hafnarfirði. Mynd: Sig.A.
Hvanngrænt sitkaelri í svörtum, sunnlenskum sandi og miklum vindi. Eins og flestir vita er víða vindasamt um sunnanvert landið nema helst í Hafnarfirði. Mynd: Sig.A.

Helstu tegundir og ruglið með nöfnin

Þegar sá sem þetta ritar fór fyrst að reyna fyrir sér með ræktun elrirunna voru eftirfarandi tegundir til á Íslandi:

 

1. Alnus sinuata frá Alaska sem kallað var sitkaelri.

2. A. crispa frá norðanverðri Norður-Ameríku sem kallað var grænelri. 

3. A. viridis frá fjöllum í Mið-Evrópu sem kallað var kjarrelri en var stundum nefnt grænelri eða alpaelri.

4. A. fruticosa frá Norðaustur-Asíu sem kallað var hríselri.

5. A. maximowiczii frá Japan sem kallað var fjallaelri.

Við þetta má bæta sjöttu tegundinni, A. suaveolens, sem er einlend á Korsíku. Engar líkur eru á að hún þrífist hér. Nú heitir hún Alnus alnobetula ssp. suaveolens og verður ekki meira um hana fjallað nema hvað hún fær að vera með sem lítill, rauður kross á landakorti hér neðar.

Þessi gamla flokkun hefur gengið í gegnum miklar nafnabreytingar hjá fræðimönnum. Allir þessir erfðahópar, nema einn, teljast nú vera ein tegund eða safntegund sem flokkuð er í fimm undirtegundir. Þessi eina, sem ekki er höfð með í partýinu, er fjallaelrið sem vex í Japan. Samkvæmt Hultén (1927) er það samt greinilega skylt safntegundinni og á tímabili var talið að hún tilheyrði henni. Safntegundin vex á belti sem nær yfir næstum allan norðanverðan hnöttinn nálægt nyrstu skógarmörkum. Á öllu þessu svæði tekur hver undirtegundin við af annarri nema hvað einn erfðahópurinn er vel afmarkaður í fjalllendi Evrópu.

Nú má segja að runnkennt elri sé talið mynda sérstakan hóp eða undirættkvísl (subgenus eins og það er kallað á fræðimálinu) innan elriættkvíslarinnar, Alnus. Undirættkvíslin heitir Alnobetula. Innan hennar er aðeins ein tegund sem heitir Alnus alnobetula og á sér samheitið A. viridis. Tegundin myndar oftast runna sem eru um einn til fjórir metrar á hæð en geta orðið hærri við sérstakar aðstæður. Einhverra hluta vegna er fjallaelri, A. maximowiczii, talið tilheyra annarri undirættkvísl en við látum það fylgja með í þessari umfjöllun. Nánar má fræðast um undirættkvíslir elris í þessum pistli.

 
Elrikjarr, myndað af Alnus alnobetula í Skotlandi. Tegundin er innflutt á þessum slóðum. Mynd: Ron Greer.
 
Elrikjarr, myndað af Alnus alnobetula í Skotlandi. Tegundin er innflutt á þessum slóðum. Mynd: Ron Greer. 

Eldri hugmyndir um safntegund

Mjög merkilegt er að lesa það sem Hultén (1927) sagði um svona elrikjarr fyrir hartnær öld. Þá skrifaði hann að runnkennt elri sem líkist A. viridis (evrópska tegundin sem flestir grasafræðingar þekktu fyrir 100 árum) yxi nánast allt í kringum norðanverðan hnöttinn og að því hefði verið skipt í nokkrar mjög skyldar tegundir sem vel mætti skilgreina sem eina tegund. Samt sem áður, sagði Hultén, mætti finna erfðahópa sem hefðu ólíka blaðlögun og eðlilegt að nota hana til að skipta þessu skylda elri í mismunandi tegundir. Reyndar væri blaðlögunin það fjölbreytt að erfitt væri að slá nokkru föstu um hvar mörk hópanna lægju (Hultén 1927). Evrópska tegundin hefur smærra lauf sem er ekki eins ytt í endann og lauf annarra hópa. Asíska tegundin er með yddari blöð og blöðin á elri á Kamtsjatka eru sjaldan með djúpar bylgjur á jöðrunum eins og sést hjá sitkaelri og stundum alveg laus við þær. Blöð kjarrelrisins eru almennt mjórri blöð en á sitkaelri (Hultén 1927). Þessar lýsingar Svíans passa við þekkingu okkar nema hvað það virðist vera heldur algengara en Hultén taldi að elrið á Kamtsjatka hafi djúpar bylgjur á blaðjöðrum.

Þrjár myndir af sitkaelri á Hólasandi. Elrið þrífst vel í sandinum þrátt fyrir þurrk en virðist mynda nær jarðlæga runna eins og sitkaelri gerir ofan skógarmarka í Alaska. Á einni myndinni sést í opna frærekla en engar ungplöntur fundust þegar myndirnar voru teknar í ágúst 2020. Myndir: Sig.A.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Hreyfing – þegar gæði skipta meira máli en magn

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
13. janúar 2026 | kl. 06:00

Þekking

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2026 | kl. 09:45

Lausnin 7/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. janúar 2026 | kl. 06:00

Aufúsugestir í Eyrarvegi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. janúar 2026 | kl. 06:00

Lausnin 6/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
10. janúar 2026 | kl. 06:00

Sópaði Strákunum okkar út á fimm sekúndum

Orri Páll Ormarsson skrifar
09. janúar 2026 | kl. 14:00